Skipulag Skipulagsstofnun telur að deiliskipulag vegna Skálholts sé ekki byggt á aðalskipulagi og gefi ennfremur ekki grænt ljós á Þorláksbúð.
Skipulag Skipulagsstofnun telur að deiliskipulag vegna Skálholts sé ekki byggt á aðalskipulagi og gefi ennfremur ekki grænt ljós á Þorláksbúð. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Hjörtur J. Guðmundsson hjorturjg@mbl.is Sveitarstjórn Bláskógabyggðar og Skipulagsstofnun eru ekki á eitt sáttar um það hvort rétt hafi verið staðið að gerð deiliskipulags vegna Skálholts fyrir um fimmtán árum.

Fréttaskýring

Hjörtur J. Guðmundsson

hjorturjg@mbl.is

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar og Skipulagsstofnun eru ekki á eitt sáttar um það hvort rétt hafi verið staðið að gerð deiliskipulags vegna Skálholts fyrir um fimmtán árum. Sveitarstjórnin telur að hún hafi staðið með eðlilegum hætti að skipulaginu en Skipulagsstofnun hefur hins vegar hafnað því að samþykkja deiliskipulagið og telur það ekki í samræmi við reglur.

Málið er nú hjá umhverfisráðuneytinu og bíður þar úrskurðar um það hvort synjun Skipulagsstofnunar hafi átt rétt á sér. Málið tengist að vissu leyti deilum sem staðið hafa um byggingu Þorláksbúðar við hlið Skálholtskirkju sem komst í hámæli í nóvember síðastliðnum en sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur meðal annars að í deiliskipulaginu hafi falist grænt ljós á að farið yrði út í þá framkvæmd.

Ekki byggt á aðalskipulagi

Stefán Thors, forstjóri Skipulagsstofnunar, segir að upphaf málsins sé að rekja til mistaka sveitarstjórnarinnar árið 1996. Í maí það ár hafi umrætt deiliskipulag verið samþykkt en í kjölfarið hafi skipulagsstjórn, sem þá starfaði samkvæmt eldri lögum, bent sveitarstjórninni á að ekki væri hægt að samþykkja deiliskipulagið fyrr en aðalskipulagi sveitarfélagsins hefði fyrst verið breytt til samræmis. Stefán segir að þetta hafi hins vegar ekki verið gert. Deiliskipulagið hafi síðan ekki farið neitt lengra og þannig ekki verið skilað til skipulags ríkisins, forvera Skipulagsstofnunar, né annað í þá veruna.

Aðalskipulag sveitarfélagsins hafi síðan verið samþykkt í ágúst 1996, að sögn Stefáns, eða um þremur mánuðum eftir að deiliskipulagið var samþykkt af sveitarstjórninni. Heimild var í lögum sem gerði sveitarfélögum kleift að skila inn til Skipulagsstofnunar deiliskipulögum byggðum á grunni aðalskipulags fyrir lok síðasta árs sem af einhverjum ástæðum hefðu ekki farið réttar boðleiðir í kerfinu. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar skilaði inn áðurnefndu deiliskipulagi fyrir þann tíma en Skipulagsstofnun neitaði hins vegar að samþykkja það eins og áður segir á þeim forsendum að það væri ekki í gildi þar sem það byggðist ekki á aðalskipulagi. Telur stofnunin að sögn Stefáns eðlilegast að deiliskipulagið verði samræmt aðalskipulagi, það auglýst og loks skilað inn til Skipulagsstofnunar.

Ekki grænt ljós á Þorláksbúð

Hvað snýr að tengslunum við Þorláksbúð segir Stefán að í kjölfar umræðu um hana hafi verið farið að kanna með gildi deiliskipulags vegna Skálholts og kom þá á daginn að ekkert slíkt skipulag lá fyrir hjá Skipulagsstofnun. Í kjölfarið hafi verið óskað eftir því frá sveitarstjórn Bláskógabyggðar.

Í nóvember hafi síðan komið fram í fjölmiðlum að sveitarstjórnin hefði veitt byggingaleyfi vegna framkvæmdarinnar. Þá hafi hins vegar enn ekkert deiliskipulag borist Skipulagsstofnun. Stefán segir hins vegar að jafnvel þó deiliskipulagið væri talið í gildi þá sýndi það einungis rúst þar sem gert er ráð fyrir Þorláksbúð og í greinargerð væri einungis tala um að kanna möguleikann á að byggja yfir hana. Skipulagsstofnun leggi þann skilning í það að málið verði skoðað og ef niðurstaðan verði að þetta skuli gert verði deiliskipulaginu breytt.

ODDVITINN

Segir lögin túlkuð rangt

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að sögn Drífu Kristjánsdóttur, oddvita sveitarfélagsins, að Skipulagsstofnun byggi synjun sína á að skrá deiliskipulag vegna Skálholts á rangri lagatúlkun. Hún segir að þegar skipulagið hafi verið samþykkt á vettvangi sveitarstjórnar árið 1996 hafi ferill slíkra mála verið með öðrum hætti en síðari lagabreytingar fólu í sér enda hafi ekki verið gert ráð fyrir að deiliskipulag byggðist á aðalskipulagi fyrr en árið eftir.

„En þrátt fyrir það var vinnulagið orðið þannig hjá okkur að það var verið að vinna þetta tvennt saman. Þannig að þetta eru bara rök sem standast ekki að okkar mati,“ segir Drífa. Hún telur því að ekkert eigi að vera því til fyrirstöðu að Skipulagsstofnun taki við deiliskipulaginu og skrái það.