Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson
Eftir Jón Gunnarsson: "Ummæli hans og annarra flokksforingja VG eru hræsni og sýna ekkert annað en fremur ógeðfelldar hliðar pólitísks samstarfs VG og Samfylkingarinnar."

Ögmundur Jónasson telur sig þess umkominn að vanda um við almenning og Sjálfstæðisflokkinn í nýlegum skrifum á heimasíðu sinni. Hann segir almenning of upptekinn af augnablikum samtímans og sjái því ekki falsboðskap Sjálfstæðisflokksins. Það er ekkert nýtt við það að Ögmundur kasti steini úr glerhúsi. Í stað þess að takast á við raunveruleikann reynir hann að þyrla upp moldviðri til að byrgja mönnum sýn á staðreyndir máls.

En almenningur sér í gegnum þennan málflutning. Almenningur er farinn að átta sig á því að þrátt fyrir fagurgala um gagnsæi, heiðarleika, stefnufestu og lýðræðislegar breytingar eru efndirnar engar. Þá stjórnast Ögmundur af sinni gömlu trú á þjóðfélagsgerð þar sem öllu skal fórnað fyrir völdin, meira að segja „góðum félögum“.

Í pistli sínum fer hann fögrum orðum um „samherja“ sinn Jón Bjarnason sem fórnað var á altari valdagræðgi. Stuðningur Ögmundar við Jón er léttvægur þegar engar athafnir fylgja orðum. Ummæli hans og annarra flokksforingja VG eru hræsni og sýna ekkert annað en fremur ógeðfelldar hliðar pólitísks samstarfs VG og Samfylkingarinnar.

Ögmundur gerir lítið úr þeim augljósa ágreiningi sem er á ríkisstjórnarheimilinu og heldur því fram að vinnubrögðin sem þar eru stunduð séu til marks um jákvæðar breytingar í stjórnmálum! Þetta eru mikil og augljós öfugmæli því enginn stjórnmálaflokkur hefur farið eins kyrfilega út af sporinu og VG, enginn stjórnmálaflokkur hefur svikið kosningaloforð sín jafn oft og aldrei hafa kjósendur orðið vitni að eins mikilli ringulreið á stjórnarheimilinu.

Blekkingarnar verða ekki sannleikur þó menn gefi þeim hátíðleg eða nýstárleg nöfn og Ögmundur snýr öllu á haus þegar hann reynir að telja fólki trú um að allur þessi vandræðagangur sé dæmi um bætt vinnubrögð. Honum trúa fáir sem betur fer og sýnir það sig best í skoðanakönnunum þar sem niðurstaðan er sú að bæði VG og ríkisstjórnin eru rúin trausti.

Hann líkir Sjálfstæðisflokknum við úlf í sauðargæru og ráðleggur fólki að leggja við hlustir eftir því sem við sjálfstæðismenn segjum. Ég tek undir þetta með Ögmundi, fólk á að leggja við hlustir, það hefur aldrei verið mikilvægara en nú. Margt af því sem hann segir um stefnu Sjálfstæðisflokksins er að sjálfsögðu ósatt, en annað hárrétt. Við viljum auknar erlendar fjárfestingar m.a. í stóriðju, við viljum breytta skattastefnu og nýta betur það fjármagn sem fer í opinbera þjónustu. Við viljum vinna bug á atvinnuleysi og sjá fyrirtæki og almenning fá laun erfiðis síns. Þar er allt gamalt og gott, á sínum stað eins og vera ber. Enda höfum við ekkert að fela. Við höfum gengist við þeirri ábyrgð sem við berum, við höfum lagt öll spil á borðið. Ég veit ekki hvort Ögmundur hefur gert það.

Innan skamms verður skýrsla rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna kynnt og þar getum við væntanlega lesið um ábyrgð Ögmundar á rekstri lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, en hann sat þar lengi í stjórn og gegndi formennsku um tíma. Í því sambandi er rétt að muna að þær fjárfestingar sem þar töpuðust verða allar bættar úr ríkissjóði að fullu, skattgreiðendur borga brúsann. Ögmundur hefur ráðlagt mönnum að hlusta, það verður áhugavert að hlusta á skýringar Ögmundar á því máli öllu. Þær hafa nefnilega ekki áður komið fram þrátt fyrir allar hástemmdu yfirlýsingarnar um breytt vinnubrögð.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.