Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Það er alveg klárt að Heilbrigðisstofnun Austurlands á að vera með sjúkrahús þar sem eru fæðingar og skurðstofur, umdæmissjúkrahúsið í Neskaupstað á að veita þá þjónustu og engin áform eru uppi um að breyta því,“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra um þá tillögu stjórnar Heilbrigðisstofnunar Austurlands að loka Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað í átta vikur í sumar, á meðan starfsmenn eru í sumarfríi.

Guðbjartur segir tillöguna til meðferðar í ráðuneytinu, ásamt öðrum, um hvernig kröfu um niðurskurð verður mætt á árinu. Viðræður muni fara fram við stofnunina um útfærslur á tillögunum. „Þar verður farið vel yfir þetta. Þeir hafa sín rök og við munum meta þau með þeim. Þeir hafa sagt að yfir sumartímann séu fá tilfelli þar sem nýta þarf skurðstofuna og þeir vildu ekki meina að þjónustan yrði skert. Þetta verður bara að skoða betur,“ segir Guðbjartur en tekur fram að hann hafi haft þá starfsreglu að taka ekki fram fyrir hendurnar á forstöðumönnum heilbrigðisstofnana þegar þeir velja leiðir til sparnaðar – nema þá að einhver sérstök ástæða sé til eða hvort eitthvað gangi umfram heildarmarkmið.

Spurður hvort öryggi íbúanna fyrir austan sé ekki teflt í hættu með lokun sjúkrahússins í átta vikur segir Guðbjartur að áfram verði veitt bráðaþjónusta. Flest alvarleg slys á Austfjörðum sem annars staðar á landinu fari beint inn á stóru sjúkrahúsin í Reykjavík og á Akureyri. „Þannig er það í dag og búið að vera í mörg ár. Ef eitthvað mjög alvarlegt kemur upp er alltaf gripið til sjúkraflutninga á stærri sjúkrahúsin. En við gerum okkur vel grein fyrir því að af öryggisástæðum er þetta ekki gott fyrirkomulag og þess vegna viljum við fara vel yfir þetta með fagfólki.“