Grandalaus Jens Kjartansson er sá lýtalæknir sem hefur mestmegnis notað fölsuðu PIP-sílikonbrjóstapúðana hérlendis. Hann flutti þá líka inn.
Grandalaus Jens Kjartansson er sá lýtalæknir sem hefur mestmegnis notað fölsuðu PIP-sílikonbrjóstapúðana hérlendis. Hann flutti þá líka inn. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is „Það kom mér algjörlega á óvart þegar þetta kom upp. Ég hef notað PIP-fyllingarnar langmest og satt að segja hafa þær reynst mér mjög vel alla tíð.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

„Það kom mér algjörlega á óvart þegar þetta kom upp. Ég hef notað PIP-fyllingarnar langmest og satt að segja hafa þær reynst mér mjög vel alla tíð. Það er ekki fyrr en vorið 2010 sem ég fæ upplýsingar um hvað er í gangi með þetta fyrirtæki og hætti þá strax að nota þær. Ég var algjörlega grandalaus,“ segir Jens Kjartansson lýtalæknir. Í mörg ár hefur hann aðallega notað hina umdeildu PIP-sílikonpúða við brjóstastækkanir á stofu sinni. Um 400 íslenskar konur hafa fengið PIP-púða og framkvæmdi Jens flestar þær aðgerðir. Um tíu af þessum konum skoða nú málsókn vegna púðanna og beinist hún að Jens og íslenska ríkinu vegna eftirlitshlutverks þess.

Jens flutti PIP-púðana sjálfur inn hingað til lands. „Ástæðan fyrir því að ég fór að flytja þessar fyllingar inn er sú að þegar ég var að byrja minn feril var málunum háttað þannig að konur fengu skrifaðan lyfseðil fyrir fyllingum og þurftu svo að fara á lager úti í bæ til að kaupa þær. Ég fékk því breytt svo lagerhaldið yrði á skurðstofunum. Poly Implant Prothese var vel metið fyrirtæki, með þeim stærstu í sílikoniðnaðinum auk þess að vera eitt það fyrsta sem fékk gæðavottun Evrópusambandsins. Ég flutti PIP-fyllingarnar inn og var sá eini að mestu leyti sem notaði þær,“ segir Jens og bætir við að hann hafi lánað örfáar fyllingar til starfsfélaga sinna. Hann flutti eingöngu inn sílikonbrjóstapúða og segir þá ekki hafa verið ódýrari í innkaupum en aðra púða.

Evrópskur gæðastimpill

Spurður hvert sé eftirlit íslenska ríkisins með innflutningi á læknatækjum eins og sílikoni svarar Jens að það sé ekki neitt. „Við erum í Evrópska efnahagssvæðinu og eftirlitsstofnanir innan Evrópusambandsins gefa út gæðastimpla sem eru túlkaðir þannig að hlutirnir séu læknisfræðilega í lagi til notkunar innan efnahagssambandsins sem við erum í. Þetta á við um allar læknisvörur sem eru fluttar inn. Það er ekkert formlegt heildstætt skráningareftirlit, ég held bara skrá hjá mér.“

Jens segir að í hans huga liggi ábyrgðin í þessu máli fyrst og fremst hjá frönskum stjórnvöldum. „Frönsk stjórnvöld höfðu eftirlitsskyldu gagnvart þessu fyrirtæki og þau segja opinbert eftirlit hafa tekið fyrirtækið út einu sinni á ári.“

Því er haldið fram að PIP-fyllingarnar rofni meira en aðrar fyllingar þó upplýsingar um það séu misvísandi. Jens segir þær konur sem hafi leitað til hans vegna rofs í PIP-fyllingum ekki hafa verið óeðlilegar margar. „Sem dæmi kom ekki ein einasta kona árið 2005 með rof í fyllingu til mín. Í fyrra varð aukning í rofum en það er samt innan þessara vel þekktu marka sem er talað um, milli 1-2%. Vandamálið virðist samt vera að það er mjög erfitt að greina rof í þessum fyllingum, konurnar fá lítil einkenni og við skoðun finnur maður eiginlega ekki neitt, öfugt við aðrar fyllingar þar sem bólgan finnst mikið betur.“

Jens er búinn að tala við hátt á annað hundruð konur vegna þessa máls. „Þær eru eðlilega áhyggjufullar en það er alveg ljóst að þetta eru ekki hættulegri fyllingar í sjálfu sér, þær valda ekki sjúkdómum. Mögulega er roftíðnin hærri heldur en fyrri rannsóknir hafa sýnt.“

Vill að ríkið taki þátt í kostnaði

Konurnar sem eru að íhuga málsókn hafa flestar komið að máli við Jens. Segir hann þær hafa fullan skilning á því að hann sé ekki skaðvaldurinn í þessu máli. Honum finnst ekki óeðlilegt að stjórnvöld hér komi til aðstoðar og hjálpi til við að fjarlægja púðana úr konunum. „Ég mun að sjálfsögðu taka fyllingarnar í burtu ef konurnar vilja það en þetta snýst um kostnaðinn og hver á að standa undir honum. Samkvæmt lögfræðiáliti sem ég hef fengið ber konan tjónið nema skaðvaldur hafi valdið því eða mistök verið gerð. Ég tel mig ekki hafa gert neitt slíkt, skaðvaldurinn er í Frakklandi. Meðan verið er að útkljá hvort það komi greiðslur úr þeirri áttinni fyndist mér eðlilegt að íslenska ríkið kæmi til móts við konurnar á einhvern máta.“

Frá jólum hefur Jens unnið að því að hafa uppi á þeim konum sem bera PIP-fyllingar. „Konunum verður öllum sent bréf og þær kallaðar inn í ómskoðun á brjóstum, fyrst þær með elstu fyllingarnar frá 2000 og svo koll af kolli. Allt tekur þetta tíma en það er engin hætta. Til framtíðar er ýmislegt sem þarf að endurskoða í þessum málum, t.d. hvort ekki þurfi að koma á samræmdum gagnagrunni og endurskoða hversu lengi á að láta konur bera fyllingar án þess að skipta þeim út. Sá tími í dag er frá 10 til 15 ára en hann ætti kannski að stytta í 8 til 10 ár,“ segir Jens sem framkvæmir um fjörutíu brjóstastækkunaraðgerðir á ári hverju.

POLY IMPLANT PROTHESE

Plötuðu gæðaeftirlitsmenn

Franska fyrirtækið Poly Implant Prothese framleiddi sílikonbrjóstafyllingarnar sem voru teknar af markaði í mars 2010 þegar upp komst að í þær var notað iðnaðarsílikon, sem er m.a. notað í rúmdýnur, í stað læknasílikons. Fyrirtækið fór á hausinn. Talið er að um 400.000 konur í heiminum hafi fengið PIP-fyllingar. Eigandi PIP, hinn 72 ára Jean-Claude Mas, iðrast einskis samkvæmt BBC. Lögmaður hans segir hann ekki á flótta, en Mas er eftirlýstur af Interpol vegna manndrápsákæru í Frakklandi. Mas hefur viðurkennt að hafa notað „heimatilbúið“ sílikongel vegna þess að það var ódýrara, en neitar að það hafi verið iðnaðarsílikon. Svo virðist sem fyrirtækið hafi blekkt evrópska eftirlitsmenn í þrettán ár með því að skipa starfsmönnum sínum að fela ósamþykkta sílikonið þegar þeir heimsóttu verksmiðjuna.

Áhyggjur kviknuðu þegar franskur lýtalæknir tók eftir að fyllingarnar vildu frekar rofna en aðrar fyllingar. Frönsk yfirvöld hafa síðan sagt roftíðnina í þeim geta verið allt að 5%. Í Bretlandi segja yfirvöld hættuna miklu minni eða um 1-2%, þrátt fyrir að ein stofa þar í landi haldi því fram að hún geti verið allt að 7%.

Aðgerðaáætlun í undirbúningi

• Fjárveiting Lyfjastofnunar takmörkuð

Aðgerðaáætlun er í undirbúningi varðandi PIP-brjóstapúðamálið hjá Lyfjastofnun, landlækni og velferðarráðuneytinu. „Við fylgjumst vel með málinu og erum í beinu sambandi við yfirvöld í Evrópu ásamt því að afla upplýsinga um stöðuna hér heima,“ segir Rannveig Gunnarsdóttur, forstjóri Lyfjastofnunar, og bætir við að aðgerðaáætlun verði kynnt eins fljótt og hægt er. „Það er unnið hörðum höndum að því að afla upplýsinga um þennan innflutning en upplýsingar um innflytjendur og hvað er verið að flytja inn liggja ekki á lausu. Slíkar upplýsingar er aðeins að finna hjá framleiðandanum sem selur vöruna. Það skal tekið fram að PIP-brjóstapúðarnir voru með CE-merkingu, vottaðir af vottunarfyrirtæki, og á þeim grundvelli heimilt að flytja til allra EES-landa. Það eru lögbær yfirvöld í framleiðslulandinu sem hafa eftirlit. Ekki er gert ráð fyrir að yfirvöld fylgist með innflutningi vöru, þ.m.t. lækningatækjum, sem eru með CE-merkingu. Í tilviki PIP er um að ræða fölsun í framleiðslunni og þess vegna glæpsamlegt athæfi,“ segir Rannveig.

Lyfjastofnun fer með eftirlit með brjóstafyllingum hér á landi eins og öðrum lækningatækjum. Stofnunin tók við eftirlitinu í maí í fyrra af Landlækni, þar áður var það hjá heilbrigðisráðuneytinu og enn fyrr hjá Lyfjastofnun. Rannveig segir að með komu þessa málaflokks til Lyfjastofnunar að nýju hafi fylgt takmörkuð fjárveiting. „Væntanlega verður þessi málaflokkur fjármagnaður með gjaldtöku en til að slíkt sé hægt verður að breyta lögum, frumvarp er í smíðum í velferðarráðuneytinu.“