Börn Innlánsvextir eru ekki háir í dag. Fjármagnstekjuskattur var hækkaður í 20% í fyrra og því er raunávöxtun lág og í mörgum tilvikum neikvæð.
Börn Innlánsvextir eru ekki háir í dag. Fjármagnstekjuskattur var hækkaður í 20% í fyrra og því er raunávöxtun lág og í mörgum tilvikum neikvæð. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Egill Ólafsson egol@mbl.is Börn sem safna peningum inn á sparnaðarreikninga eru ekki skattlögð sem einstaklingar heldur eru skattlögð með foreldrum sínum.

Fréttaskýring

Egill Ólafsson

egol@mbl.is

Börn sem safna peningum inn á sparnaðarreikninga eru ekki skattlögð sem einstaklingar heldur eru skattlögð með foreldrum sínum. Þau þurfa því í mörgum tilvikum að greiða fjármagnstekjuskatt af vöxtum þó að vextirnir séu langt undir frítekjumarki. Það þýðir að raunávöxtun af verðtryggðum sparireikningum er ekki nema um 1%. Almennt eru óverðtryggðir reikningar með neikvæða raunvexti.

Nú um áramót sendu bankar reikningsyfirlit til fólks sem er með bankareikninga. Þar koma fram upplýsingar um hversu mikið sparifjáreigendur hafa fengið í vexti á árinu og hversu stór hluti vaxtanna fer í skatt. Í fæstum tilvikum eru tölurnar sérlega uppörvandi því innlánsvextir eru lágir og fjármagnstekjuskattur var í fyrra hækkaður úr 18% í 20%.

Raunávöxtun er um 1%

Algengt er að foreldrar stofni sparnaðarreikninga fyrir börn sín í þeim tilgangi að kenna þeim að spara. Allir bankarnir eru með svokallaða framtíðarreikninga sem eru verðtryggðir og bundnir til 18 ára aldurs. Arion banki greiðir 2,25% vexti af þessum reikningum. Hjá Landsbanka og MP banka eru vextirnir 2,35%, en 2,5% hjá Íslandsbanka.

Sá sem á 100 þúsund krónur á slíkum reikningi fær því 2.350 kr. á ári í vexti ef hann er hjá Landsbanka eða MP banka. Af þessari upphæð fara 470 krónur í skatta. Þar sem reikningurinn er verðtryggður greiðast 4.000 krónur í verðbætur en meðalverðbólga á síðasta ári var 4%. Fjármagnstekjuskattur leggst einnig á verðbætur og því fara 800 krónur til viðbótar í vexti eða samtals 1.270 krónur. Það standa því eftir 1.080 krónur sem þýðir að raunávöxtun ársins er um 1%.

Bönkum ber lögum samkvæmt að halda eftir staðgreiðslu vegna fjármagnstekjuskatts þó að frítekjumark vaxtatekna sé 100 þúsund krónur (200 þúsund krónur fyrir hjón). Ef vaxtatekjurnar eru undir þessu marki er fjármagnstekjuskatturinn endurgreiddur 1. ágúst ár hvert. Börn eru hins vegar ekki skattlögð sérstaklega heldur eru þau skattlögð með foreldrum sínum. Ef sameiginlegar vaxtatekjur fjölskyldunnar eru yfir frítekjumarki þurfa því börnin að greiða 20% fjármagnstekjuskatt af sparnaði sínum.

Eftir að fjármagnstekjuskatti var komið á var hann í fyrstu 10%, en hann var lagður á allar upphæðir hversu lágar sem þær voru. Eftir að núverandi ríkisstjórn tók við hækkaði hún skattinn í 18% og síðan 20% en jafnframt var sett á frítekjumark til að forða því að skattur væri greiddur af lágum vaxtatekjum. Hvert barn er hins vegar ekki með frítekjumark heldur fjölskyldan eins og áður segir.