Kristinn Ingi Jónsson
Kristinn Ingi Jónsson
Eftir Kristin Inga Jónsson: "Í ljósi þeirrar litlu vinnu sem forseti innir af hendi er ekki nema von að maður spyrji sig hvort forsetaembættið sé ekki í raun þarflaust."

Embætti forseta Íslands var sett á stofn á Þingvöllum árið 1944 um leið og lýðveldið var stofnað. Sú grundvallarbreyting var þá gerð á stjórnarskránni að í stað konungs kom forseti. Helsta hlutverk forsetans er að vera eins konar sameiningartákn þjóðarinnar og fulltrúi hennar utanlands. Að auki hefur forseti, fyrir tilstilli 26. greinar stjórnarskrárinnar, synjunarvald, sem hann getur beitt til að synja lagafrumvarpi staðfestingar ef honum sýnist. Mikilvægari málum sinnir hann nú ekki nema þá að hengja heiðursmerki á merka menn og konur tvisvar á ári. Í ljósi þessarar litlu vinnu sem forseti innir af hendi er ekki nema von að maður spyrji sig hvort embættið sé ekki í raun þarflaust.

Forsetaembættið er dýrt embætti. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 munu 180,4 milljónir króna renna til embættisins á næsta ári. Það er gríðarleg upphæð ef tekið er tillit til þeirra verka sem embættið framkvæmir. Ríkisstofnanir eru nú ekki þekktar fyrir að sýna mikla ráðdeild í rekstri, hvort sem vel eða illa stendur á, en forsætaembættið virðist slá öll met í eyðslusemi. Væri ekki nær, að spara þessar milljónir og greiða þess í stað af skuldum ríkisvaldsins eða lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki?

Margir stuðningsmenn forsetaembættisins benda á mikilvægi 26. greinar stjórnarskrárinnar, málskotsrétt forseta, og láta í veðri vaka, að án þeirrar greinar hefðu Íslendingar þurft að láta sér Icesave-samning Svavars Gestssonar lynda. Það er rétt athugun, en helgar tilgangurinn meðalið? Fulltrúalýðræði er einn af hornsteinum íslenskrar stjórnskipunar. Það felur í sér að kjósendur kjósa sér fulltrúa til að fara með völd, svokallaða þingmenn sem fara þá með löggjafarvaldið og ráðherra sem eru handhafar framkvæmdarvaldsins. Málskotsréttur forseta var upphaflega hugsaður sem öryggisventill sem forsetar áttu að fara með af ýtrustu varkárni. Lítill órói stafaði af þessum rétti í valdatíð fyrstu fjögurra forseta lýðveldisins en í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar hefur keyrt um þverbak.

Það má færa fyrir því sterk rök, að núverandi forseti Íslands hafi misnotað þennan öryggisventil og skipt sér í of miklum mæli af framgöngu mála á Alþingi. Það er ótækt, á meðan við lifum við fulltrúalýðræði, að forseti geti slegið sig til riddara og komið í veg fyrir að afar mikilvægum málum verði hrint af stað. Alþingi má ekki vera háð geðþótta eins einstaklings. Slíkt grefur undan pólitískum stöðugleika og getur haft afdrifaríkar afleiðingar. Þjóðin verður einfaldlega að gera það upp við sig hvort hún kjósi fremur fulltrúalýðræði en beint lýðræði, þar sem löggjafarvaldið er hjá almenningi og allar ákvarðanir teknar í almennum þjóðaratkvæðagreiðslum. Núverandi staða mála gengur alltént ekki til lengdar.

Þó svo að forsetaembættið verði lagt niður þýðir það ekki að enginn muni sinna skyldum þjóðhöfðingja. Slíkt hlutverk gæti til að mynda fallið forseta Alþingis í skaut. Við gætum jafnvel tekið Svisslendinga til fyrirmyndar en þar skiptast ráðherrar ríkisstjórnarinnar á að gegna þeim skyldum sem þjóðhöfðingi á að gegna. Það er ljóst, að allt sem forseti gerir gætu forseti Alþingis, ráðherra eða forseti Hæstaréttar gert. Að halda úti sérstöku forsetaembætti er því gersamlega þarflaust.

Höfundur er menntaskólanemi.