Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Eftir Bergþór Ólason: "Ekkert haggar „mannréttindaráðinu“ eða borgaryfirvöldum. Þar dettur engum í hug að taka nokkurt minnsta mark á því þegar 90% landsmanna reynast ósammála þeim um það hvað sé mannréttindabrot og hvað ekki."

Marga rak í rogastans er þeir lásu á dögunum vandaða úttekt Morgunblaðsins á baráttu félags ofsatrúleysingja við einstakling er sinnti stundakennslu við Háskóla Íslands. Þá mun framganga svokallaðrar siðanefndar skólans og ýmissa annarra forráðamanna hans ekki síður hafa vakið athygli, en hvorki nefndin né skólinn mun hafa stækkað að ráði við hana. En þessi ofsafengna barátta gegn stundakennaranum er, að því er ég hygg, grein af meiði sem vex nú skarpt enda víða vökvaður. Þetta er hin misgrímubúna atlaga sem nú er gerð að kristnum sið á Íslandi.

Mannréttindaráð fer í stríð

Fyrir nokkrum árum var af einhverjum ástæðum stofnað svokallað mannréttindaráð innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar. Skömmu eftir að nýr meirihluti hafði svo náð borgarkerfinu á sitt vald, sumarið 2010, virðast mannréttindaráðsmenn hafa talið sig hafa fengið vald til að skipta sér af því hverjir fái að koma í heimsókn í grunnskóla borgarinnar. Nokkrum nefndarmönnum var nefnilega mikill þyrnir í augum að undanfarna áratugi höfðu kynslóðir grunnskólanemenda fengið að gjöf eintak af Nýja testamentinu, grundvallarriti kristinna manna og einni meginundirstöðu vestrænnar menningar. Þennan áratugagamla sið, sem ekki var vitað til að nokkur maður hefði beðið skaða af, útmálaði meirihluti nefndarmanna sem sérstakt brot á mannréttindum og bannaði.

Hvers vegna vilja þeir banna bókargjöfina?

Mér dettur raunar ekki í hug að það sé umhyggja fyrir eigin börnum sem ráði ákefð trúleysingja við að hindra gjöf Nýja testamentisins. Þeir telja sig vafalaust fullfæra um að forða þeim frá því að lesa þetta háskalega rit. Baráttan snýst um hin börnin, að þau fái gjöfina ekki heldur. Rétt eins og baráttan fyrir breyttum reglum um trúfélög, eða fyrir því að aðrir skrái sig úr þjóðkirkjunni, er sjaldnast hugsuð fyrir trúleysingjana sjálfa eða þeirra fólk, heldur beinlínis til þess að grafa undan kristinni kirkju og stöðu hennar meðal landsmanna. Ég spyr einnig: Ef borgaryfirvöld meina í raun það sem þau segja, að það sé brot á mannréttindum að skólabörn fái gefins eintak af Nýja testamentinu, hvað þá með þær tugþúsundir barna sem hafa fengið Nýja testamentið gefið síðustu áratugi. Borgaryfirvöld hljóta að telja mannréttindi þeirra hafa verið brotin. Hvað ætlar borgin að gera fyrir þau? Kannski bjóða þeim sanngirnisbætur eins og nú er vinsælt.

Er bókargjöf mannréttindabrot?

Það er mikilvægt að gæta vel að mannréttindum. En menn verða hins vegar að gæta þess að sýna mannréttindum, og því fólki sem býr við raunveruleg mannréttindabrot, þá virðingu að kalla ekki hvað sem er mannréttindabrot. Baráttan fyrir mannréttindum á ekki að vera skjól fyrir skálka sem vilja ná fram einstökum baráttumálum sínum, sem ekkert koma mannréttindum við. Mér þykir til dæmis gersamlega fráleitt að mannréttindi hafi verið brotin með því að gefið hafi verið eintak af Nýja testamentinu. Til að kanna hvort íslenskur almenningur væri ekki sammála mér um þetta, og þar með ósammála „mannréttindaráðinu“ um mannréttindi, fékk ég fyrirtækið MMR, virt markaðsrannsóknarfyrirtæki, til að gera skoðanakönnun meðal almennings um málið. Niðurstöðurnar urðu þær mest afgerandi sem nokkur skoðanakönnun sem ég man eftir hefur sýnt.

Hvað finnst íslenskum almenningi?

879 einstaklingar, handahófsvaldir, voru spurðir einfaldrar spurningar: „Finnst þér það vera brot á mannréttindum að grunnskólanemendur fái gefins eitt eintak af Nýja testamentinu?“ 832 tóku afstöðu, sem eru 94,6%. Af þeim sögðu 88,1% nei, en 11,9% já. Niðurstaðan getur varla verið meira afgerandi. Yfirgnæfandi meirihluti, nær áttfaldur, telur gjöf Nýja testamentisins til grunnskólabarna ekki vera brot á mannréttindum. Þessi niðurstaða segir einnig mikla sögu um hið svokallaða mannréttindaráð Reykjavíkurborgar, sem klæðir atlögu sína að bókargjöfinni í búning mannréttindabaráttu. Tæplega níu af hverjum tíu landsmönnum eru samkvæmt könnuninni á öndverðum meiði við mannréttindaráðið í þessu „mannréttindamáli“. En ekkert haggar „mannréttindaráðinu“ eða borgaryfirvöldum. Þar dettur engum í hug að taka nokkurt minnsta mark á því þegar 90% landsmanna reynast ósammála þeim um það, hvað sé mannréttindabrot og hvað ekki.

Mikið slys

Það var mikið slys þegar Reykjavíkurborg féll í hendur ofstækismanna fyrir hálfu öðru ári. Auðvitað höfðu fyrri borgaryfirvöldum verið mislagðar hendur, eins og gengur. En sú almenna stemning í þjóðfélaginu, allt frá haustinu 2008, að úr öskunni sé jafnan best að fara í eldinn, ól af sér þann borgarstjórnarmeirihluta sem menn nú þekkja. Ofstækismenn ráða nú för, bæði hjá ríki og borg, og virðist þar langt í uppstyttu. Einstakir fjölmiðlamenn hampa ennþá ofstækisöflunum og nýta jafnvel þætti í opinberum fjölmiðlum til þess trúboðs síns. Atlaga núverandi borgaryfirvalda að bókargjöf Gídeonfélagsins til grunnskólabarna er aðeins lítið dæmi um afleiðingar þeirrar upplausnar sem sköpuð hefur verið í landinu. Sjálfur hef ég aldrei starfað með Gídeonfélaginu né félögum tengdum því. Mér einfaldlega ofbauð framganga stjórnenda borgarinnar og þess vegna ákvað ég að láta framkvæma þessa skoðanakönnun, til að athuga hvort verið gæti að mannréttindaráðsmenn og borgaryfirvöld ættu sér í raun marga skoðanabræður.

Höfundur er fjármálastjóri.