Þórleif Sigurðardóttir (Þóra) iðnrekandi lést föstudaginn 6. janúar síðastliðinn, 95 ára að aldri. Þóra, eins og vinir og vandamenn nefndu hana ætíð, fæddist 8. ágúst 1916 í Reykjavík og ólst upp á Laugavegi 30 með foreldrum sínum og systkinum.

Þórleif Sigurðardóttir (Þóra) iðnrekandi lést föstudaginn 6. janúar síðastliðinn, 95 ára að aldri.

Þóra, eins og vinir og vandamenn nefndu hana ætíð, fæddist 8. ágúst 1916 í Reykjavík og ólst upp á Laugavegi 30 með foreldrum sínum og systkinum. Foreldrar hennar voru Sigurður Oddsson, skipstjóri og hafnsögumaður á dönsku varðskipunum, ættaður úr Mýrdalnum og kona hans Herdís Jónsdóttir húsmóðir, frá Bíldsfelli, ættuð úr Hreppum. Þórleif átti sjö systkini.

Ung að aldri fór Þóra til Danmerkur að læra klæðasaum og hönnun. Hún nam við Københavns tilskærer-akademi og stofnaði Lífstykkja- og kragaverksmiðjuna Lady árið 1937 sem hún starfrækti í áratugi og framleiddi kvenfatnað undir hinu þekkta vörumerki Lady. Þóra var mikill verkstjóri og vinsæl dugnaðarkona.

Hún giftist Hirti Jónssyni kaupmanni á gamlársdag árið 1937 og voru þau hjón alla tíð mjög samrýmd og samtaka.

Þau ráku verslunina Olympíu ásamt verksmiðjunni Lady, voru athafnasöm á ýmsum sviðum og byggðu mörg hús, þar á meðal verslunarstórhýsi við Laugaveg 26.

Þóra var stofnfélagi í Soroptimistaklúbbi Reykjavíkur árið 1959 og virkur félagi í klúbbnum til hinsta dags. Hún varð heiðursfélagi klúbbsins árið 1999 og var ein eftirlifandi stofnsystra.

Þóra og Hjörtur eignuðust þrjá syni; Jón, Sigurð og Gunnar. Hjörtur andaðist árið 2002, 92 ára.