Ég hitti karlinn á Laugaveginum niðri á Lækjartorgi og talið barst að pólitíkinni eins og oft áður.

Ég hitti karlinn á Laugaveginum niðri á Lækjartorgi og talið barst að pólitíkinni eins og oft áður. „Þeim svipar saman sauðkindinni og mannkindinni,“ sagði hann og minntist þess að faðir sinn hefði átt stórvitra forystuá, sem leiddi fjárhópinn og hélt honum saman, sem var ómetanlegt í viðsjárverðri tíð. En bóndinn á næsta bæ varð að notast við ljónstygga fjallafálu, sem sundraði hjörðinni og rauk upp í fjall þegar minnst varði. Karlinn nikkaði höfðinu upp í stjórnarráð:

Hún valdsins stekkur yfir ála

ör í sinni

ljónstygg er sem fjallafála

í Fljótshlíðinni.

Ég hef áður minnst á Ara Jósefsson hér í Vísnahorni og stökur og vísur, sem við fórum með á menntaskólaárum okkar. Lestrarbók Sigurðar Nordals var mikill kjörgripur. Þar var þessi staka eftir Sigurð Breiðfjörð:

Prestar hinum heimi frá

hulda dóma segja.

En skyldi þeim ekki bregða í brá,

blessuðum, nær þeir deyja?

Þannig man ég vísuna en hef heyrt hana öðru vísi. Við treguðum örlög Sigurðar, sem hefði dáið úr hungri í húsi innréttinganna við Aðalstræti, þar sem síðar var Silli og Valdi. Og fórum síðan með þessa vísu úr Eden eftir Þorstein Erlingsson:

Eins fannst mér á Breiðfjörð hann bresta nú þor

og biluð í strengjunum hljóðin;

þó sagði ég: Komdu, hver vísan er vor,

nú viljum við borga þér óðinn;

hann léttir oss heiman og heima vor spor,

ég heyri hvert barn kunna ljóðin

og ef að við fellum þig aftur úr hor

í annað sinn grætur þig þjóðin.

En Þorsteinn hafði líka aðra strengi. Ég hygg að hvert barn hafi kunnað þessar vísur, þegar ég var litill drengur, hvort svo er lengur eða ekki. „Snati og Óli“ er yfirskriftin:

Heyrðu snöggvast, Snati minn,

snjalli vinur kæri,

heldurðu ekki hringinn þinn

ég hermannlega bæri?

Lof mér nú að leika að

látúnshálsgjörð þinni;

ég skal seinna jafna það

með jólaköku minni.

Jæja þá, í þetta sinn

þér er heimil ólin.

En hvenær kemur, kæri minn,

kakan þín og jólin?

Og vel fer á því að láta Sveinbjörn Beinteinsson á Draghálsi slá botninn í þetta Vísnahorn:

Margur ló, og margur trúði;

mín var róin söm fyrir það.

Harmur þó á hugann knúði

er hjá þér rógurinn settist að.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is