[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Tekin eru frá svæði fyrir vaxandi fiskeldi, kræklingarækt, ferðaþjónustu og kalkþörunganám við gerð nýtingaráætlunar fyrir Arnarfjörð.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Tekin eru frá svæði fyrir vaxandi fiskeldi, kræklingarækt, ferðaþjónustu og kalkþörunganám við gerð nýtingaráætlunar fyrir Arnarfjörð. Gert er ráð fyrir að nýjar atvinnugreinar þróist í sátt og samlyndi með þeim eldri, svo sem fiskveiðum og hlunnindanýtingu. Vinna við nýtingaráætlunina er á lokastigi. Hún er sú fyrsta sem gerð er fyrir strandsvæði hér á landi og gæti orðið fyrirmynd slíkrar vinnu um allt land.

Vistkerfi haf- og strandsvæða eru viðkvæm og flókin og geta verið undir álagi vegna nýtingar samfélagsins á mismunandi auðlindum. Arnarfjörður er dæmi um þetta. Þar hafa lengi verið stundaðar fiskveiðar, jafnt á smáum sem stærri bátum.

Af botni hans er dælt kalkþörungum til vinnslu á Bíldudal og er kalkþörungaverksmiðjan orðin einn helsti vinnuveitandi staðarins, í stað fiskvinnslu og rækjuvinnslu, og þar með undirstaða byggðar. Ferðaþjónusta fer vaxandi og koma erlendir ferðamenn meðal annars í hópum til sjóstangveiða. Kræklingarækt hefur verið reynd.

Laxeldi er hafið og þar eru mikil áform uppi sem geta orðið, ef vel tekst til, mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf og mannlíf á svæðinu. Á því sviði hefur orðið núningur á milli fólks og fyrirtækja sem sækjast eftir bestu eldisstöðunum. Fram hefur komið að Bílddælingar vilja að nýting auðlinda fjarðarins komi íbúum staðarins fyrst og fremst til góða.

Lagt fyrir sveitarstjórnir

Upphafið að vinnu Fjórðungssambands Vestfirðinga að nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð, sem þá var nefnd strandsvæðaskipulag, má rekja til undirbúnings að svæðisskipulagi fyrir Vestfirði. Vinnu við svæðisskipulagið var frestað en haldið áfram með nýtingaráætlunina.

Fjórðungssambandið hefur unnið að áætluninni í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og Teiknistofuna Eik á Ísafirði. Með því er tengd saman menntun, rannsóknir, nýsköpun og stjórnsýsla.

Núverandi nýting hefur verið kortlögð og í drögum að greinargerð er sagt frá leiðarljósi um nýtingu fjarðarins í framtíðinni. Verða þessar hugmyndir settar inn á kort, með svipuðum hætti og gert er við hefðbundna skipulagsvinnu.

Tillögurnar verða lagðar fyrir sveitarstjórnir sem eiga land að Arnarfirði, það er að segja Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ, en einnig í Tálknafjarðarhreppi vegna nálægðar hans við svæðið. Hafin er kynning á verkefninu meðal þeirra.

Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga, segir stefnt að því að skipulagshópurinn sem unnið hefur að málinu gangi formlega frá tillögum á næsta fundi sem áformaður er í janúar. Þá hefst formlegt kynningarferli innan stjórnkerfis sveitarfélaganna.

Óskilvirk stjórnsýsla

Markmið sveitarfélaganna með þessu verkefni er að reyna að efla svæðið með sameiginlegri stefnumörkun sem byggist á styrkleikum þess. Þeir felast meðal annars í haf- og strandsvæðum og þeim auðlindum sem þar er að finna og samfélögin á Vestfjörðum grundvallast lá.

Strandsvæði utan 115 metra frá stórstraumsfjöruborði er ekki undir lögsögu sveitarfélaganna og því ekki skipulagsskylt. Starfsemi þar er í umsjá og á forræði margra ráðuneyta og enn fleiri ólíkra stofnana. Vestfirðingar hafa upplifað það að stjórnsýsla og ákvarðanataka hefur verið óskilvirk og yfirsýn lítil um heildarnýtingu svæðanna. Nefna má laxeldisfyrirtækin sem dæmi um það. Fyrstu leyfi, fyrir smáum stöðvum, hafa verið veitt af Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða. Þegar stöðvarnar stækka þurfa margar stofnanir að koma að og tekur leyfisferlið langan tíma. Nefna má að Skipulagsstofnun metur hvort meta skuli umhverfisáhrif stöðvanna, Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi og Fiskistofa rekstrarleyfi.

Ljóst er að sú stefnumörkun sem felst í gerð nýtingaráætlunar hefur ekki lögformlegt gildi eins og lögin eru nú. Unnið er út frá því að áætlunin verði viðauki við svæðisskipulag viðkomandi sveitarfélaga og fái þannig stöðu að til hennar megi vísa í umsögnum sveitarfélaga og sem lið í kynningu á svæðinu. Stjórnvöld geta einnig tekið tillit til hennar við umfjöllun um verkefni á viðkomandi svæði, meðal annars við ákvarðanir um nýtingu auðlinda. Þá ætti vinna sem þessi að vera til þess fallin að skapa skilning og sátt milli hagsmunaaðila.

Sjálfbær nýting

Nýting náttúrunnar hefur áhrif á umhverfið og skapar hagsmunaárekstra, í Arnarfirði sem annars staðar. Skipulagshópur Fjórðungssambandsins er vel meðvitaður um það. Telur hann mikilvægt að svæðið sé nýtt á sjálfbæran hátt. Í drögum að greinargerð er það orðað þannig að hægt verði að nýta auðlindir fjarðarins til langs tíma og með sem minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum og með sem mestum jákvæðum áhrifum fyrir samfélagið. Er vernd ákveðinna landsvæða því tekin inn í áætlunina með sama hætti og nýtingin.

Í áætluninni er farið yfir alla nýtingu fjarðarins og skipulagt hvar einstakir þættir eigi best heima. Þannig er áfram gert ráð fyrir efnisnámi kalkþörunga á þeim svæðum sem nefnd eru í gildandi vinnsluleyfi og til viðbótar námi á nýjum svæðum sem talin eru henta.

Laxeldið fær sín svæði enda er gert ráð fyrir að það verði öflugt og skili efnahagslegum ávinningi til íbúa svæðisins. Sömu sögu er að segja um kræklingarækt en Arnarfjörður þykir henta að mörgu leyti vel til hennar. Sjö leyfi hafa verið gefin út en biðstaða hefur verið í greininni.

Gjöful fiskimið eru á Arnarfirði og hafa veiðar lengi verið stundaðar. Gert er ráð fyrir því í nýtingaráætlun að fiskveiðar og vinnsla verði áfram einn af hornsteinum í atvinnulífi sveitarfélaganna. Sömuleiðis er gert ráð fyrir óbreyttri nýtingu landeigenda og ábúenda á hlunnindum jarða, svo sem æðarrækt.

Arnarfjörður hefur aðdráttarafl fyrir ferðafólk. Nægir þar að nefna Dynjanda og Selárdal sem dæmi um ferðamannastaði. Talið er að miklir möguleikar séu á aukinni og fjölbreyttri þjónustu á þessu sviði. Tekin eru frá svæði í fjarðarbotnum og víðar sem talin eru henta til ferðaþjónustu og útivistar.

SÓTT UM MIKLA AUKNINGU Í LAXELDI

Álag á vistkerfið en ekki umtalsverð umhverfisáhrif

Þrjú leyfi eru í gildi um laxeldi og þorskeldi í Arnarfirði. Arnarlax og Fjarðalax hafa sótt um starfsleyfi fyrir samtals 4.500 tonna framleiðslu á laxi til viðbótar og eru með enn meiri áform í framtíðinni.

Skipulagsstofnun telur að áform þessi valdi álagi á vistkerfið en hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif. Umhverfisstofnun hefur auglýst tillögu að starfsleyfi fyrir 1.500 tonna framleiðslu Fjarðalax í Fossfirði og 3.000 tonna framleiðslu Arnarlax á þremur stöðum í Arnarfirði.

Viðkomandi stofnunum ber ekki fyllilega saman um hvað þessi svæði geti borið mikið laxeldi.

Fyrirtækin sjálf hafa unnið að miklum rannsóknum á firðinum. Er greinilegt að þau og hinar opinberu stofnanir þurfa að bera bækur sínar betur saman.