Svanur Sveitin hélt vortónleika í Hörpu í maí sl. en efnisskráin verður með öðru sniði á tónleikunum á mánudag.
Svanur Sveitin hélt vortónleika í Hörpu í maí sl. en efnisskráin verður með öðru sniði á tónleikunum á mánudag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ylfa Kristín K. Árnadóttir ylfa@mbl.is Ein elsta lúðrasveit landsins, Lúðrasveitin Svanur, heldur tónleika í Hörpu á mánudaginn og í Hofi á Akureyri laugardaginn 14. janúar ásamt hljómsveitinni Hundi í óskilum.

Ylfa Kristín K. Árnadóttir

ylfa@mbl.is

Ein elsta lúðrasveit landsins, Lúðrasveitin Svanur, heldur tónleika í Hörpu á mánudaginn og í Hofi á Akureyri laugardaginn 14. janúar ásamt hljómsveitinni Hundi í óskilum. Stjórnandi Svans er Brjánn Ingason, fagottleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hann spilaði með lúðrasveitinni á árum áður.

Dreymir um að taka þátt í Evróvisjón

Fimmtíu manns á aldrinum 14-54 ára eru í lúðrasveitinni en Hund í óskilum skipa Eiríkur G. Stephensen og Hjörleifur Hjartarson. „Þeir eru miðaldra kennarar að norðan sem dreymir um að fá að taka þátt í Evróvisjón fyrir Íslands hönd,“ segir Brjánn í gamansömum tón. „Þeir vísa gjarnan til þess að Danir unnu keppnina með tveimur miðaldra kennurum hér um árið en danska sigurlagið er einmitt eitt af uppáhaldslögunum þeirra.“

Aðspurður segir Brjánn að Eiríkur og Hjörleifur kalli sig endurvinnslusveit. „Þeir taka lög sem aðrir eru hættir að nota og setja í nýjan búning. Eitt af lögunum sem þeir ætla að spila á mánudaginn er endurunnin útgáfa af íslenska Evróvisjónlaginu Is It True. Nú heitir það reyndar Er det sant því þeir ætla að syngja lagið á norsku. Þeir halda að það sé málið núna,“ segir Brjánn og hlær.

Strauss og Leoncie

Eiríkur og Brjánn spiluðu saman í Svani fyrir 30 árum. „Hugmyndin kom upp í vor að Svanurinn og Hundur í óskilum væru menningarstofnanir sem ættu að hafa samstarf,“ segir Brjánn en Eiríkur er búinn að útsetja 11-12 lög fyrir sveitirnar tvær. Á tónleikunum mun Svanurinn að auki spila nokkur verk tengd nýju ári, t.d. Leðurblökuforleikinn eftir Johann Strauss.

Brjánn segir að á efnisskrá tónleikanna verði endurunnin lög sem Hundur í óskilum hefur lengi spilað. Reyndar sé eitt lagið frumsamið, Halló Akureyri eftir Hjörleif, en Eiríkur hefur sett það í balkanlúðrasveitarbúning. „Svo verður spilað þeirra vinsælasta lag, Álfheiður Björk, og þá má ekki gleyma einum af hápunktunum, Súludanstrans eftir Leoncie.“

Brjánn lofar góðri skemmtun í Hörpu og Hofi. „Þetta verða aðeins öðruvísi nýárstónleikar, hátíðlegir en aðallega skemmtilegir,“ segir hann að lokum.