Haddur fæddist á Sólheimum í Svalbarðsstrandarhr., S-Þing.17. júní 1928. Hann lést 9. desember 2011.

Foreldrar hans voru Júlíus Jóhannesson, fæddur á Litlu-Tjörn, S-Þing. 9. júlí 1893, d. 25. júlí 1969, og Herdís Þorbergsdóttir, fædd á Breiðumýri í Reykjadal, S-Þing. 16. nóvember 1891, d.14. desember 1965.

Systkini hans eru: Auður, f. 24. nóv. 1919, búsett í Stykkishólmi, Heiður, f. 5. júní 1921, búsett á Akureyri, Ingvi, f. 6. okt. 1923, d. 9. júlí 1995, var búsettur á Akureyri, Hlynur, f. 29. nóv. 1925, d. 1. mars 2004, var búsettur í Reykjavík, Gunnur, f. 27. febr. 1927, d. 19. mars 1984, var búsett á Akureyri, Þrúður, f. 12. jan. 1930, búsett í Reykjavík og Jenný, f. 14. mars 1934, búsett í Árhvammi í Öxnadal. Haddur kvæntist 25.11. 1950 Áslaugu Nönnu Jónsdóttur, f. 1929, d. 1950. Hún var dóttir Margrétar Sigurtryggvadóttur frá Litlu-Völlum í Bárðardal og Jóns Bergvinssonar frá Brekku í Aðaldal. Dóttir Hadds og Áslaugar er Margrét fædd 1950, hún er gift Stefáni Kárasyni og eiga þau 3 börn, 1) Áslaug Rannveig, f. 6.5. 1968, börn hennar eru Halldór Stefán, sambýliskona hans er Sara Guðjónsdóttir, Hadda Margrét og Harpa Elín. 2) Arnfríður, f. 10.3. 1977. 3) Haddur Júlíus, f. 28.7. 1981. Eiginkona hans er Ása Katrín Gunnlaugsdóttir og eiga þau 2 syni, Arnór Ísak og Atla Róbert.

Haddur kvæntist 8. júní 1952 eftirlifandi eiginkonu sinni Elínu Rannveigu Jónsdóttur, f. 1921, frá Brekku í Aðaldal. Hún er dóttir Margrétar Sigurtryggvadóttur frá Litlu-Völlum í Bárðardal og Jóns Bergvinssonar frá Brekku í Aðaldal. Sonur Hadds og Elínar er Áslaugur fæddur 1952, hann er giftur Huldu Harðardóttur og eiga þau 3 börn 1) Dröfn, f. 3.8. 1972, sambýlismaður hennar er Sveinbjörn Sveinbjörnsson og eiga þau 3 dætur, Gyðu Dröfn, Huldu Dröfn og Áslaugu Dröfn, 2) Haddur, f. 10.6. 1975, sambýliskona hans er Sigríður Guðjónsdóttir og eiga þau einn son. 3) Rósfríð Kristín, f. 6.1. 1977. Sambýlismaður hennar er Hjalti Jónsson og eiga þau 2 dætur, Dagnýju og Rakel, dóttir Hjalta er Aníta Hrund. Haddur tók vélstjórapróf árið 1940 og starfaði í nokkur ár eftir það á sjó. Síðan starfaði hann sem vélamaður hjá Vegargerð ríkisins eða allt þar til hann festi kaup á jarðýtu og hóf sjálfstæðan rekstur. Árið 1980 gerðist hann vélstjóri á póstbátnum Drangi og síðar vann hann við sama starf hjá Útgerðarfélagi Akureyringa þar sem hann lauk starfsævinni.

Útför Hadds fór fram 15. desember sl. í kyrrþey að ósk hans.

Elsku afi, síðustu dagar hafa verið skrýtnir, ég er búinn að hugsa til þín hverja einustu stund og rifja upp allar þær yndislegu stundir sem við áttum saman.

Það var alveg sama hvað maður bað þig um að gera þú sagðir aldrei nei.

Þú varst alltaf til í að fara út í skúr með manni að smíða. Hvað ætli við höfum smíðað marga báta saman, báta með möstrum og báta með krönum allar gerðir. Svo einn daginn þegar ég kom niður í Ránargötu var ég stórhuga og vildi smíða alvöru skemmtiferðaskip með þyrlu og öllu. Það var nú ekki vandamálið, við fórum út í skúr til að leita að efni og þá blasti við okkur þetta fína timbur, straubretti sem amma var hætt að nota, var það alveg tilvalið og hófst þá smíðin. Eftir margar ferðir til þín niður í Rán var skipið klárt, þá var ekkert eftir annað en að labba með þér út í Hagkaup til að kaupa þyrluna.

Þessi bátaáhugi kom ekki að ástæðulausu hjá manni, það var ekkert eins spennandi og að fá að fara með þér á Júlla Dísar, fá að stýra og taka þátt í öllu sem þurfti að gera. Þú hafðir alltaf þolinmæði til að sýna manni réttu handtökin og hvernig væri best að bera sig að.

Það eru ekki margir sem hafa gefið svona mikið af sér eins og þú gerðir, afi minn, þú hefur verið mér ómetanlegur í lífinu og á ég eftir að sakna þín svo mikið, þú ert mér stór fyrirmynd og ég mun alltaf bera minningar um þig í brjósti mínu og minna strákana mína á hvað þú varst góður. Við söknum þín svo mikið.

Haddur Júlíus.

Hann afi minn lést þann 9. desember sl. og síðan hefur ekki liðið sá dagur sem ég hugsa ekki til hans og minningabrot birtast. Það er svo margs að minnast.

Ég var mikið hjá afa og ömmu í Ránargötunni sem barn og átti margar góðar stundir með þeim. Dundaði við handavinnu með ömmu og í skúrnum með afa, alltaf nóg að gera þar.

Afi átti lengi ýtu og vann á henni sem verktaki við ýmis störf, vann meðal annars að lagningu Drottningarbrautarinnar og Ólafsfjarðarmúla. Ég man nú ekki mjög mikið frá þessum tíma en man þó ferðirnar upp að Ási, en Ás var verkstæðið sem afi átti með öðrum og þar geymdi hann ýtuna og dyttaði að henni. Mér þótti nú ekki leiðinlegt að fá að skreppa þangað með honum, hitta hann Dóra, sem yfirleitt átti suðusúkkulaðimola handa mér og svo auðvitað að kíkja á ýtuna sem var alveg risastór, í það minnsta miðað við mig.

Afi og amma höfðu gaman af því að ferðast og áttu um tíma hjólhýsi sem þau fengu að vera með í Hörgárdalnum. Þetta land átti systir hans afa, hún Þrúður ásamt manni sínum. Margar ferðirnar fór ég með afa og ömmu í hjólhýsið og mikið var það notalegur tími.

Ég man samt best eftir öllum sjóferðunum okkar afa, þegar við fórum á trillunni hans. Trilluna skírði hann Júlíus Dísar, en pabbi hans afa hét Júlíus og mamma hans Herdís og honum fannst við hæfi að trillan bæri nafn þeirra. Í þessum sjóferðum okkar lögðum við net og veiddum í það mest rauðsprettu. Það jafnaðist ekkert á við nýveidda rauðsprettu í matinn og ég fæ vatn í munninn þegar ég rifja þetta upp. Afi hafði yndi af því að fara á sjó og held ég að það hafi verið honum mjög erfitt þegar hann þurfti að hætta því og selja trilluna en hann talaði nú ekki mikið um það, hann afi talaði nú ekki af sér, en hann var mikill húmoristi og var að grínast og koma með skot alveg fram á síðustu stundu.

Börnin mín, þau Halldór Stefán, Hadda Margrét og Harpa Elín voru einnig heppin að fá að kynnast langafa sínum vel og eiga um hann góðar minningar, en í öllum ferðum okkar til Akureyrar var farið daglega í heimsókn í Ránargötuna og síðastliðið ár á Hlíð og þau sakna hans sárt og ylja sér við minningarnar.

Takk, elsku afi, fyrir alla þína elsku, takk fyrir að leyfa mér að taka þátt í því sem þú elskaðir að dunda við, takk fyrir hlýja faðminn þinn og takk fyrir að vera til.

Hvíldu í friði, elsku yndislegi afi minn.

Áslaug Rannveig.