Neyð Flóttafólk í Pibor-sýslu í Jonglei-fylki. Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í fylkinu vegna átaka þjóðarbrota.
Neyð Flóttafólk í Pibor-sýslu í Jonglei-fylki. Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í fylkinu vegna átaka þjóðarbrota. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Embættismenn Sameinuðu þjóðanna sögðust í gær vera að hefja umfangsmiklar neyðaraðgerðir til að hjálpa um 50.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Embættismenn Sameinuðu þjóðanna sögðust í gær vera að hefja umfangsmiklar neyðaraðgerðir til að hjálpa um 50.000 manns sem hafa flúið heimkynni sín vegna blóðugra átaka þjóðarbrota í Jonglei-fylki í Suður-Súdan, yngsta ríki heims.

Æðsti embættismaður Pibor-sýslu í Jonglei-fylki, Joshua Konyi, sagði í gær að vopnaðir hópar ungmenna hefðu myrt yfir 3.000 manns í grimmilegum árásum á bæinn Pibor í vikunni sem leið. Árásirnar eru raktar til deilu tveggja þjóðarbrota um bithaga fyrir nautgripi.

Hermt er að um það bil 6.000 vopnuð ungmenni úr röðum Lou Nuer-þjóðflokksins hafi ráðist á Pibor, afskekktan bæ Murle-manna. Vopnaðir hópar Lou Nuer-manna hafa hótað að tortíma öllum íbúum bæjarins vegna deilunnar.

Joshua Konyi, sem er sjálfur Murle-maður, sagði að vopnuðu ungmennin hefðu myrt um 3.140 manns, þar af 2.182 konur og börn og 959 karlmenn, í árásum á bæinn um helgina. Árásarmennirnir hefðu kveikt í húsum og kofum bæjarbúanna og ráðist á sjúkrahús bæjarins.

Joshua Konyi sagði að um þúsund barna til viðbótar væri saknað og talið væri að árásarmennirnir hefðu rænt þeim. Þeir hefðu einnig stolið tugum þúsunda nautgripa í Pibor-sýslu.

Embættismenn Sameinuðu þjóðanna sögðust ekki geta staðfest tölu látinna í árásunum. Einn þeirra sagði fyrr í vikunni að óttast væri að hundruð manna lægju í valnum. Um 1.100 manns biðu bana í átökum þjóðarbrotanna á liðnu ári. Þar af myrtu vopnaðir hópar Murle-manna a.m.k. 600 manns í árásum á þorp Lou Nuer-manna í Jonglei-fylki.