Fyrirmynd Bandaríski ljósmyndarinn Eve Arnold var í fremstu röð.
Fyrirmynd Bandaríski ljósmyndarinn Eve Arnold var í fremstu röð.
Bandaríski ljósmyndarinn Eve Arnold lést í vikunni, 99 ára gömul. Arnold var einn kunnasti ljósmyndari 20. aldar, fyrsta konan sem fékk inngöngu í Magnum-ljósmyndarahópinn eftir stofnun hans árið 1947.

Bandaríski ljósmyndarinn Eve Arnold lést í vikunni, 99 ára gömul. Arnold var einn kunnasti ljósmyndari 20. aldar, fyrsta konan sem fékk inngöngu í Magnum-ljósmyndarahópinn eftir stofnun hans árið 1947.

Verk Arnold birtust iðulega í helstu tímaritum beggja vegna Atlantshafs, en hún vann venjulega lengi að ljósmyndafrásögnum sínum og gaf þær út á bók.

Arnold var fædd í Fíladelfíu, byrjaði að ljósmynda árið 1946 og valdi sér Harlem í New York sem fyrsta starfsvettvang, sem þótti óvenjulegt fyrir hvíta konu. Hún fylgdist með Malcolm X og tók víðfrægar myndir af honum og öðrum meðlimum Black Power-hreyfingarinnar, en meðal annarra frægra myndasería hennar má nefna myndir af fæðingu barns, myndir frá Kína og Sovétríkjunum, og myndir af fátæku alþýðufólki í Bandaríkjunum, Suður-Afríku og víðar. Á fjörutíu ára tímabili myndaði hún alla Bandaríkjaforseta og margar kunnustu ljósmyndir hennar eru af kvikmyndastjörnum á borð við Joan Crawford og Marilyn Monroe. Þær Monroe urðu góðir vinir og skráð Arnold líf stjörnunnar á tíu ára tímabili.

Arnold skrifaði ævisögu sína, All in a Day's Work, og kom hún út árið 1989. Sem ljósmyndari í fremstu röð var Arnold drifin áfram að miklum metnaði. Eitt sinn þegar hún var spurð hvort hún væri nokkurn tíma ánægð með útkomuna, var svarið: „Aldrei. Ég held að ef ég verði einhvern tíma ánægð, þá ætti ég að hætta að mynda. Það er óánægjan sem rekur mig áfram.“