Jón Bjarnason
Jón Bjarnason
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Aðildarferlið að Evrópusambandinu er að fara í þann farveg að Íslendingar munu gefa alvarlega eftir og miklu meira en samþykkt Alþingis heimilar.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Aðildarferlið að Evrópusambandinu er að fara í þann farveg að Íslendingar munu gefa alvarlega eftir og miklu meira en samþykkt Alþingis heimilar. Þetta segir Jón Bjarnason, fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, og að hann hafi fundið fyrir þessu undir það síðasta sem ráðherra. Hann segist ekki treysta þeim sem véla um ferlið.

„Ég held að staðan í viðræðunum við Evrópusambandið hvað varðar bæði sjávarútveg og landbúnað sé á miklu hættulegra stigi en menn gera sér grein fyrir,“ segir Jón sem telur að slíta beri viðræðunum, eins og kunnugt er. Hann líkir viðræðuferlinu við hringekju sem snýst sífellt hraðar og menn þori ekki að hoppa af þó svo að þeir sjái að í ógöngur stefni. „Öll rökhugsun tapast og allt í einu ertu farinn að velta því fyrir þér hvernig þú getur þóknast þeim sem stýrir hringekjunni.“

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur villst af braut í pólitíkinni að mati Jóns. Ef kúrsinn verði ekki réttur af komi aðrir sem taki við og þess vegna sé svo brýnt að taka slaginn og rétta flokkinn við. Einnig segist hann hafa orðið fyrir vonbrigðum með forystu flokksins sem sé alltof höll undir ESB. Þó bendir Jón á að allir flokkar lendi í þeim vandræðum að forystumenn þeirra villist af leið. Þá eigi að skipta þeim út eða kippa þeim inn á sporið aftur. „Flokkurinn verður að fara inn á þá braut sem hann var stofnaður til.“

Jón segist gera þá kröfu til forystu VG að hún standi í fæturna í andstöðunni við Evrópusambandið.

Hringekjan snýst 24-25