Ólína Þorvarðardóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Veggjöld munu ekki standa undir kostnaði við gerð og rekstur Vaðlaheiðarganga miðað við núverandi forsendur og líklegt er að framkvæmdin verði mun dýrari en áætlanir gera ráð fyrir.

Veggjöld munu ekki standa undir kostnaði við gerð og rekstur Vaðlaheiðarganga miðað við núverandi forsendur og líklegt er að framkvæmdin verði mun dýrari en áætlanir gera ráð fyrir. Þetta eru niðurstöður óháðs mats sem Pálmi Kristinsson verkfræðingur vann á forsendum Vaðlaheiðarganga og sagt var frá í kvöldfréttum RÚV í gær. Þar kom einnig fram að spár um umferðaraukningu séu of háar og greiðsluvilji vegfarenda hafi verið ofmetinn.

Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar, sagðist í samtali við Morgunblaðið eiga eftir að kynna sér niðurstöður Pálma en sagði þær ríma við aðrar efasemdir sem settar hefðu verið fram í málinu.

Beðið er eftir matsskýrslu IFS-ráðgjafar um göngin en Ólína segir von á henni í janúar eða jafnvel eitthvað seinna. Fyrr verður ekki gefið grænt ljós á að Hagfræðistofnun HÍ leggi óháð mat á gerð ganganna eins og nefndin hefur farið fram á.

„Ég hef skilið það þannig að það verði engin endanleg ákvörðun tekin í þessu máli fyrr en þessar úttektir liggja fyrir,“ segir Ólína. Enn séu margir fyrirvarar á málinu.

holmfridur@mbl.is