Egg Ærin hlunnindi áður fyrr.
Egg Ærin hlunnindi áður fyrr. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Rúnar Pálmason runarp@mbl.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Formaður starfshóps sem lagði til að fimm tegundir sjófugla yrðu friðaðar í fimm ár og að veiðikort þyrfti til að geta tínt egg, segist ekki gera ráð fyrir að þeir sem hafi gild hlunnindakort eða almenn veiðikort þurfi að sækja um veiðikort vegna eggjatínslu. Aðrir þurfi að sækja um veiðikort, samkvæmt tillögum starfshópsins, en ólíklegt verði að telja að gerð verði krafa um námskeið áður en veiðikortum til eggjatínslu er úthlutað í fyrsta sinn.

Meirihluti starfshópsins telur nauðsynlegt að stöðva tímabundið veiðar lunda og teistu og að langvía, stuttnefja og álka verði friðaðar fyrir öllum veiðum og einnig eggjatöku, næstu fimm árin. Þá leggur starfshópurinn til að gerð verði sú breyting á veiðikortakerfinu að þeir sem tíni egg skuli hafa veiðikort og eggjataka verði skráningarskyld.

Sigurður Á. Þráinsson, líffræðingur hjá umhverfisráðuneytinu og formaður starfshópsins, segir að hópurinn hafi í sjálfu sér ekki rætt um framkvæmdina á þessari breytingu. Hann bendir á að þeir sem hafa rétt á að nýta hlunnindi þurfi að endurnýja svonefnt hlunnindakort á hverju ári og gerir ekki ráð fyrir að handhafar slíkra korta þurfi að sækja um veiðikort, vilji þeir tína egg. Aðrir, sem ekki hafa almennt veiðikort, þurfi að sækja um veiðikort vegna eggjatínslu. Sigurður gerir alls ekki ráð fyrir að gerð verði krafa um að menn þurfi að sækja námskeið, enda sé gert ráð fyrir því að þeir sem tíni egg þekki eggin. Þó geti verið að myndir af fuglaeggjum ásamt tegundaheiti verði látið fylgja með veiðikortinu.

EGGJATÍNSLA EKKI SKRÁÐ

Tínsla sett í samhengi

Þeir sem eru nú með veiðikort og stunda skotveiðar skila veiðiskýrslu. Ekki er beðið um upplýsingar um eggjatínslu og ekki er heldur safnað upplýsingum um eggjatínslu frá handhöfum hlunnindakorta. „Eggjatakan hefur ekki verið kortlögð,“ segir Sigurður. Breyta þurfi veiðikortakerfinu til að hægt sé að safna þessum upplýsingum sem séu mikilvægar til að hægt sé að átta sig betur á nýtingu þessara stofna og setja í samhengi við þróun í viðkomandi fuglastofni.