Olís Hluthafar afla viðbótarhlutafjár.
Olís Hluthafar afla viðbótarhlutafjár.
Samkomulag hefur tekist við Landsbankann um fjárhagslega endurskipulagningu Olís og tengdra félaga, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu.

Samkomulag hefur tekist við Landsbankann um fjárhagslega endurskipulagningu Olís og tengdra félaga, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu.

Felur samkomulagið í sér, að Landsbankinn leiðréttir og niðurfærir hluta af lánum félaganna, meðal annars í samræmi við þegar kunnar niðurstöður dómsmála um ólögleg gengistryggð lán, og eftirstandandi lán eru endurskipulögð.

Samkomulagið er endanlegt, þótt ekki liggi fyrir dómsniðurstaða, um allar tegundir gengistryggðra lána til félaganna. Af þeim sökum er ekki hægt á þessari stundu að leggja á það mat, hve stór hluti niðurfærslunnar er vegna leiðréttinga gengistryggðra lána og hve mikið eftirgjöf bankans.

Olís er í dag í eigu þeirra Gísla Baldurs Garðarssonar og Einars Benediktssonar í gegnum félagið FAD 1830 ehf. Gert er ráð fyrir að núverandi hluthafar afli félaginu viðbótarhlutafjár og er samkomulagið þegar að fullu fjármagnað. Ekki mun liggja fyrir fyrr en eftir nokkrar vikur hvernig endanlegur hluthafahópur verður samsettur.