7. janúar 1906 Ungmennafélag Akureyrar var stofnað. Það hefur verið talið fyrsta ungmennafélagið hér á landi og beitti sér fyrir stofnun UMFÍ. 7.

7. janúar 1906

Ungmennafélag Akureyrar var stofnað. Það hefur verið talið fyrsta ungmennafélagið hér á landi og beitti sér fyrir stofnun UMFÍ.

7. janúar 1942

María Markan söng hlutverk greifafrúarinnar í sýningu á Brúðkaupi Fígarós í Metropolitan-óperunni í New York. Hún var þar með fyrsti Íslendingurinn sem kom fram í aðalhlutverki í þessu fræga óperuhúsi.

7. janúar 1944

Helgi Hjörvar hóf lestur útvarpssögunnar Bör Börsson eftir Johan Falkberget. Sagan segir frá nýríkum sveitastrák og gerist í Noregi eftir heimsstyrjöldina fyrri. Lesturinn stóð fram í maí og vakti mikla athygli. „Fólk lét allt annað víkja til að geta hlýtt á þennan lestur. Götur tæmdust og ekki þýddi að auglýsa kvikmyndasýningar,“ sagði í bókinni Útvarp Reykjavík.

7. janúar 1999

Jólin voru lengd um einn dag á Blönduósi vegna nýrra íbúa frá Júgóslavíu sem tilheyrðu grísku rétttrúnaðarkirkjunni, en jóladagur hjá þeim var þennan dag.

7. janúar 2001

Samningar tókust í kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins eftir tveggja mánaða verkfall, það lengsta í áratugi.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson