Berskjaldaðir Leikararnir sex sem þátt taka í verkinu eru Jón Stefán Sigurðsson, Ellert A. Ingimundarson, Ingi Hrafn Hilmarsson, Þorsteinn Gunnar Bjarnason, Finnbogi Þorkell Jónsson og Magnús Guðmundsson.
Berskjaldaðir Leikararnir sex sem þátt taka í verkinu eru Jón Stefán Sigurðsson, Ellert A. Ingimundarson, Ingi Hrafn Hilmarsson, Þorsteinn Gunnar Bjarnason, Finnbogi Þorkell Jónsson og Magnús Guðmundsson.
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þetta er svört kómedía sem kafar í heim karlmennsku, valdatafls, pókerspilamennsku, keppnisanda og fíknar,“ segir Jón Stefán Sigurðsson leikari og þýðandi leikritsins Póker eftir Patrick Marber sem leikhópurinn Fullt Hús frumsýnir í leikstjórn Valdimars Arnar Flygenring í Tjarnarbíói annað kvöld kl. 20.00.

Að sögn Jóns Stefáns sá hann verkið fyrir nokkrum árum í London meðan hann var þar í leiklistarnámi og heillaðist svo af því að hann einsetti sér að koma því á svið hérlendis að námi loknu. „Þetta er því sannkallað draumaverkefni. Mér finnst svo spennandi hvað höfundurinn nær að draga upp áhugaverða og skemmtilega mynd af samskiptum karlmanna þegar þeir eru algjörlega berskjaldaðir.“

Jón Stefán bendir á að verkið tali sterkt til samtímans og nefnir í því samhengi stóraukinn áhuga landsmanna á póker á síðustu misserum. „Sjálfur fékk ég áhuga á póker eftir að hafa séð leikritið, enda er þetta skemmtilegt spil en jafnframt getur það verið varasamt. Þannig sýnir leikritið hvernig fer ef spilafíknin tekur yfir,“ segir Jón Stefán.

Mannbætandi æfingaferli

„Mér þykir mjög vænt um að fá tækifæri til þess að leikstýra þessum góða hópi leikara og miðla af áratugalangri reynslu minni,“ segir Valdimar Örn, en Póker er fyrsta leikstjórnarverkefni hans í atvinnuleikhúsi. Leikhópurinn er að stórum hluta skipaður ungum og efnilegum leikurum sem margir hverjir hafa nýlokið leiklistarnámi.

„Reyndar stóð upphaflega til að ég ætti að leika í verkinu, en þegar leikstjórinn forfallaðist skömmu eftir að æfingar voru hafnar kom upp sú hugmynd að ég tæki við leikstjórnartaumunum enda hafði ég þá þegar mótað mér hugmyndir um nálgunina að verkinu. Mér finnst mjög gaman að vinna í ensemble-leikhúsi þar sem samvinna leikhópsins er mikil og allir taka þátt í hinu skapandi ferli og mega hafa skoðanir. Ég var nýbúinn að vinna í sýningu með þeim hætti og langaði til þess að halda áfram slíkum vinnubrögðum,“ segir Valdimar Örn og vísar þar til þátttöku sinnar í Fjalla-Eyvindi sem frumsýndur var í upphafi síðasta árs.

Að sögn Valdimars Arnar hafa æfingar á Póker staðið í tæpt ár með hléum. „Þetta hefur verið langt ferli sem þýðir að hlutirnar hafa fengið að gerjast, sem er alls ekki verra þegar um svona margþætt verk er að ræða,“ segir Valdirmar Örn og tekur fram að höfundurinn kafi djúpt inn í sál karlmanna í leiktexta sínum. „Í raun má segja að það sé mannbætandi ferli í mörgum skilningi að æfa svona vel skrifað verk.“

Nánari upplýsingar um sýninguna má nálgast á vefnum: fullthus.net