Aratún Sættir náðust milli nágranna árið 2010 en málinu var þó ekki lokið.
Aratún Sættir náðust milli nágranna árið 2010 en málinu var þó ekki lokið. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Í fyrradag féll dómur í svokölluðu Aratúnsmáli þar sem tekist var á um hvort ummæli sem skrifuð voru við fréttaflutning dv.is um fjölskyldu í Garðabæ væru ærumeiðandi.

Fréttaskýring

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Í fyrradag féll dómur í svokölluðu Aratúnsmáli þar sem tekist var á um hvort ummæli sem skrifuð voru við fréttaflutning dv.is um fjölskyldu í Garðabæ væru ærumeiðandi. Kona var dæmd til greiðslu sektar og málskostnaðar, en alls hafa fjölskyldunni verið dæmdar rúmar þrjár milljónir króna í miskabætur og málskostnað. Dv.is var sýknað, en þarf að greiða málskostnað.

Málin sem fjölskyldan hefur höfðað og hafa verið dæmd í héraði eru sjö talsins. Fimm málum lauk með sátt áður en þau komu til kasta dómstóla og eitt dómsmál verður þingfest nú í byrjun janúar í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Samkvæmt dómnum í fyrradag þarf Ásta Erna Oddgeirsdóttir að greiða Aratúnshjónunum svonefndu og syni þeirra samtals 500 þúsund krónur í miskabætur og málskostnað vegna ummæla sem hún lét falla í athugasemdakerfi dv.is.

Málið snýst um fjölskyldu í Aratúni í Garðabæ. Samkvæmt fréttaflutningi hafa erjur verið tíðar á milli þeirra og nágranna þeirra. Sættir munu hafa náðst árið 2010 en málinu var þar með ekki lokið, því að margir tjáðu sig með því að skrifa athugasemdir við fréttir á vefmiðlum, einkum á dv.is.

Má tjá mínar skoðanir

Margar athugasemdanna voru býsna stórorðar, til dæmis var fjölskyldunni lýst sem „snarskemmdu liði“, annar segir að hengja eigi upp „stórar myndir af þessum skrímslum á vegaskiltin sem eru við helstu aðalgötur borgarinnar“. Einn segist vera viss um „að fullt af fólki væri til í að kíkja aðeins í heimsókn til þeirra og kenna þeim aðeins á lífið“. Annar vill „taka þessa drullusokka og henda þeim í klefa og enn annar vill „gjörsamlega lemja þessi kvikindi“.

Í ummælunum, sem Ásta Erna var dæmd fyrir, segir hún að fólkið hafi margoft brotið af sér og að sonur þeirra sé einnig afbrotamaður.

Í stefnu fjölskyldunnar er því haldið fram að Ásta Erna og DV séu samábyrg vegna þess að ummælin komi frá henni, en fjölmiðillinn hafi skapað vettvang fyrir birtinguna með eftirlitslausu athugasemdakerfi.

„Ég átti ekki von á þessu vegna þess að það var búið að sýkna alla hina sem voru kærðir fyrir athugasemdir,“ segir Ásta Erna. „Það eru miklu svæsnari athugasemdir þarna en mínar. Ég tel mig ekki hafa sagt neitt mikið. En ég reiddist þegar ég las þessar fréttir.“

Ásta segist ekki sjá eftir skrifunum. „Ég má tjá mínar skoðanir og er ekki hætt því, þrátt fyrir þetta.“

„Sumir einfaldlega óalandi“

Í athugasemdakerfi dv.is segir að athugasemdir séu á ábyrgð þeirra sem þær skrái. DV áskilji sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verði ærumeiðandi eða ósæmileg. „Við erum auðvitað opin dag og nótt, en skoðum málið strax og við rekumst á eitthvað eða ef einhver hefur samband og telur sig hafa orðið fyrir ærumeiðingum,“ segir Reynir Traustason, ritstjóri DV og dv.is. „Stundum eyðum við færslunni út af dv.is, en hún er lifir samt ennþá á Facebooksíðu þess sem skrifaði hana. Við höfum gert talsvert af þessu, en sem betur fer er þetta ekki daglegt brauð,“ segir Reynir. Hann segir að stundum sé lokað fyrir fólk á vefnum. „Sumir eru einfaldlega óalandi, með eintómar svívirðingar. Stundum, þegar um er að ræða viðkvæm mál, lokum við fyrir möguleikann til að gera athugasemdir,“ segir Reynir.

Margt skrifað í miklum hita

„Það var eitt mjög svæsið dæmi fyrir nokkrum árum. Kona fékk fyrrverandi eiginmann sinn dæmdan fyrir nauðgun. Við birtum fréttina, þar sem nöfn fólksins komu ekki fram. En mánuði síðar fór að hrúgast inn fólk sem var vinveitt manninum, það nafngreindi konuna og jós sér yfir hana með allskonar hrakyrðum. Hún hafði samband við okkur og við tókum athugasemdirnar strax út. Við drógum lærdóm af þessu máli.“

Reynir segir að ekki standi til að gera breytingar á athugasemdakerfinu. „Þetta er vettvangur fyrir fólk til að tjá sig og við reynum að leyfa því að vera sem mest óáreitt, en þetta hangir utan í fréttunum okkar og við erum fordæmd sem fjölmiðill ef ummælin eru óviðeigandi.“

Hann segir það koma sér á óvart hvað fólk er tilbúið til að vera óvægið í orðalagi á netinu. „Margt af þessu er skrifað í miklum hita og ég held að þessi vettvangur eigi eftir að slípast til. Það er ánægjulegt að dómurinn hafi fallið þannig að við séum ekki ábyrg. Facebook er aðalvettvangur ummælanna og ætti frekar að vera ábyrgt en við,“ segir Reynir.

Þarf að vera málefnalegt

Í lok nóvember var Andrés Helgi Valgarðsson dæmdur fyrir ummæli sín á Facebook og á bloggsíðu sinni um Aratúnsfjölskylduna. Þetta var fyrsti meiðyrðadómurinn af þessu tagi sem fellur vegna ummæla á Facebook á Íslandi.

Umfjöllun Andrésar var jafnframt sú fyrsta sem birtist um fjölskylduna og varð til þess að fjölmiðlar tóku málið upp. Þar lýsti hann ofbeldi sem vinafólk hans hefði sætt af hálfu nágranna sinna í Aratúninu, þ.e. hinnar umræddu Aratúnsfjölskyldu. Í niðurstöðum dómsins segir að þótt ætla verði bloggurum svigrúm til þess að fjalla um málefni sem eiga erindi til almennings og séu hluti af þjóðfélagsumræðu verði einnig að gera þær kröfur til þeirra að umfjöllunarefni þeirra séu sett fram með málefnalegum hætti.

RÉTTARSTAÐAN ER LJÓS

13-14 fengu kröfubréf

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður gætir hagsmuna fjölskyldunnar í Aratúni. Hann segir að 13-14 manns hafi fengið send kröfubréf vegna ummæla um fjölskylduna. „Af þeim voru tíu út af athugasemdakerfinu,“ segir Vilhjálmur. Sjö mál hafa síðan verið höfðuð vegna skrifa í athugasemdakerfi, á Facebook og bloggi og hefur fjölskyldan fengið rúmar þrjár milljónir í miskabætur og málskostnað.

Vilhjálmur telur að réttarstaða fólks hafi skýrst verulega með tilkomu fjölmiðlalaganna, sem tóku gildi í fyrra. „Réttarstaðan á að vera ljós.“

Á meðal málanna var eitt á hendur blaðamanni DV en hann var dæmdur til að greiða 700 þúsund krónur vegna umjöllunar sinnar og 750 þúsund krónur í málskostnað.

Sætti ofsóknum á Facebook

Erna Björk Einarsdóttir skrifaði stöðu á Facebook-síðu sína fyrr í vikunni þar sem hún lýsti baráttu sinni við ókunnugan kött sem hafði gert sig helst til heimakominn hjá henni. Viðureigninni var lýst á gamansaman hátt og endaði lýsingin með því að Erna sagðist hafa „sparkað honum vælandi út um hurðina“. Skömmu síðar fékk hún tölvupóstsendingar frá ókunnugu fólki, þar sem ófögur orð voru látin falla um Ernu og meðferð hennar á kettinum. Maður nokkur birti síðan ummæli Ernu á Facebook-síðu sinni og hvatti fólk til að deila þeim sem víðast í nafni dýraverndar. Sjálfur sagðist hann ætla að láta rannsaka málið. Ýmis meiðandi ummæli voru skrifuð um Ernu á Facebooksíðu mannsins, hún var m.a. kölluð „helv. kerlingin“ og „viðbjóður“. Öllum þessum skrifum hefur nú verið eytt.

Skilur ekki harkaleg viðbrögð

„Ef fólk hélt virkilega að ég væri að misþyrma ketti, þá hefði það átt að hafa samband við mig strax,“ segir Erna. „Þetta er eiginlega fyrst og fremst hlægilegt, en líka skelfilega sorglegt. Mér var verulega brugðið en ég hef ekki íhugað að gera neitt í þessu.“ Erna segist ekki geta skilið þessi viðbrögð við ýkjusögu sinni og segist velta fyrir sér hvað sé leyfilegt að segja um fólk á netinu. „Fólk á að geta tjáð sig óhult um daglegt líf án þess að þurfa að lenda í einhverju svona. Það er auðvelt að rífa orðspor fólks niður.“ annalilja@mbl.is