1
1
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ylfa Kristín K. Árnadóttir ylfa@mbl.is Sálarsöngvarinn Michael Kiwanuka er efstur á lista BBC yfir hljóm ársins 2012 en markmið listans er að vekja athygli á efnilegustu nýstirnunum á umræddu tónlistarári.

Ylfa Kristín K. Árnadóttir

ylfa@mbl.is

Sálarsöngvarinn Michael Kiwanuka er efstur á lista BBC yfir hljóm ársins 2012 en markmið listans er að vekja athygli á efnilegustu nýstirnunum á umræddu tónlistarári. Hann hefur verið sagður hljóma líkt og Bill Withers og Al Green og er þar ekki leiðum að líkjast, en sjálfur segist hann vera undir áhrifum allt frá Otis Redding og Bob Dylan til Miles Davis.

Næst á eftir Kiwanuka á listanum komu Frank Ocean, Azealia Banks, Skrillex og Niki & The Dove. Listinn er settur saman eftir tillögum frá yfir 180 tónlistarspekúlöntum, allt frá ritstjórum tónlistarblaða og tónlistargagnrýnendum til virtra bloggara og plötusnúða. Hver um sig tilnefndi þrjú uppáhaldsnýstirnin sín sem þeir töldu líkleg til stórafreka á árinu.

1 Michael Kiwanuka

Foreldrar hins 24 ára Kiwanuka eru frá Úganda en sjálfur ólst hann upp í Muswell Hill í London. Hann hlustar mikið á tónlist frá 7. og 8. áratugnum en þegar hann var 16 ára lærði hann á gítar og fór að semja lög. Hann hóf ferilinn sem „session“-gítarleikari og vann með Labrinth, sem stjórnar m.a. upptökum á lögum Tinie Tempah. Brátt fór hann að syngja og gerði samning við útgáfufyrirtækið Communion. „Ég bjóst aldrei við þessari viðurkenningu,“ sagði Kiwanuka í viðtali við BBC eftir að listinn hafði verið kunngjörður. „Þetta kom mér skemmtilega á óvart og það skiptir mig miklu máli að fólki líki við tónlistina sem það hefur heyrt hingað til sem þýðir að enn fleiri munu hlusta á hana. Það eru mikil forréttindi fyrir sérhvern tónlistarmann.“

2 Frank Ocean

Frank Ocean er 24 ára bandarískur r&b-söngvari sem ólst upp í New Orleans. Eftir að fellibylurinn Katrína eyðilagði hljóðverið sem hann tók upp í ákvað hann að flytja til Los Angeles og freista gæfunnar. Hann fékk vinnu hjá tryggingafélagi og samdi lög í frítímanum. Hann kynntist mönnum sem útveguðu tónlistarmönnum lög og þannig kom það til að hann samdi lög fyrir Justin Bieber og John Legend. Skömmu síðar gerði hann plötusamning við Def Jam en var óánægður með hversu lítið þeir sinntu honum og því ákvað hann að setja sína fyrstu plötu, Nostalgia, Ultra, á netið. Áhugasamir gátu náð í hana gjaldfrjálst og eignaðist Ocean á skömmum tíma fjölmarga aðdáendur og gagnrýnendur kepptust við að hlaða hann lofi. Í sumar vann hann að tveimur lögum með Jay-Z og Kanye West fyrir Watch The Throne og er von á nýrri plötu frá honum í vor.

3 Azealia Banks

„Ég er Larry David rappsins. Alltaf að kvarta,“ sagði Azealia Banks, 20 ára rappari frá New York, á Twitter-síðu sinni um daginn. Banks lýsir sjálfri sér sem dálitlum mannhatara en hún þykir önug og ágeng og einnig nokkuð klúryrt. Þannig vakti hún umtalsverða athygli í haust þegar hún sendi frá sér lagið 212 sem fjallar um munnmök en tónlist Banks hefur verið lýst sem hortugum húmor í bland við runur af blótsyrðum.

Á unglingsárunum lærði hún leiklist í hinum þekkta LaGuardia High School á Manhattan og gaf út lagið Seventeen undir nafninu Miss Bank$. Lagið vakti athygli breska útgefandans XL og Banks skrifaði undir samning. XL sýndi henni hins vegar lítinn áhuga eftir það svo hún sagði þeim að eiga sig, fann sér nýjan upptökustjóra og er nú að vinna í sinni fyrstu plötu.

4 Skrillex

Skrillex heitir í rauninni Sonny Moore. Hann er 23 ára Bandaríkjamaður, fæddur og uppalinn í Los Angeles. Hann vakti fyrst athygli með þungarokkssveitinni From First To Last þegar hann var 16 ára en breytti snarlega um stefnu þegar hann kynntist dubstep. Hann spilar reglulega fyrir þúsundir dyggra aðdáenda og var nafn hans á hvers manns vörum eftir að hann var tilnefndur til fimm Grammy-verðlauna seint á síðasta ári. Hefur Skrillex verið lýst sem nýjustu rokkstjörnunni sem sé með fartölvu í staðinn fyrir gítar.

5 Niki & The Dove

Þetta sænska raftónlistardúó segist vilja verða „Björn Borg popptónlistar“. Niki & The Dove er skipað söngkonunni Malin Dahlström og Gustaf Karlof og hófst samstarfið árið 2010. Fyrsta smáskífan var gefin út skömmu síðar, DJ, Ease My Mind, og var gerður góður rómur að henni. Í fyrra gáfu þau út stuttskífuna The Drummer. „Tónlistin okkar er mjög breytileg frá lagi til lags. Þetta er rafpopp en við notum mikið af órafmögnuðum hljóðfærum,“ segir Dahlström.

Fyrri sigurvegarar

2011: Jessie J

2010: Ellie Goulding

2009: Little Boots

2008: Adele

2007: Mika

2006: Corinne Bailey Rae

2005: The Bravery

2004: Keane

2003: 50 Cent