Verjendur norska fjöldamorðingjans, sem varð 77 manns að bana 22. júlí, hafa óskað eftir því að lögreglan rannsaki hvort hann hafi hringt í skiptiborð norska stjórnarráðsins í mars á liðnu ári og hótað að myrða ungliða Verkamannaflokksins.

Verjendur norska fjöldamorðingjans, sem varð 77 manns að bana 22. júlí, hafa óskað eftir því að lögreglan rannsaki hvort hann hafi hringt í skiptiborð norska stjórnarráðsins í mars á liðnu ári og hótað að myrða ungliða Verkamannaflokksins.

Norska lögreglan hefur ekki enn óskað eftir því að fá hljóðupptöku af samtalinu, að sögn norska ríkisútvarpsins, NRK .

„Við vitum um þetta símtal en upplýsingar um það eru meðal gagna saksóknarans. Við teljum að það sé mikilvægt að fá þetta upplýst,“ hefur NRK eftir Vibeke Hein Bæra, verjanda fjöldamorðingjans.

Norska ríkisútvarpið skýrði frá því í gær að maður hefði hringt í skiptiborð stjórnarráðsins í mars í fyrra og hótað fjöldamorðum líkum þeim sem framin voru 22. júlí. Maðurinn er sagður hafa farið hörðum orðum um norsku ríkisstjórnina, Jens Stoltenberg forsætisráðherra og Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra. Hann hafi einnig talað um stefnuskrá og hótað að myrða ungliða Verkamannaflokksins.

Kona á skiptiborðinu skrifaði niður nafn þess sem hringdi, símanúmer og dagsetningu á miða. Hún lét miðann síðan á hillu í byggingu sem stórskemmdist í sprengjuárásinni í miðborg Óslóar 22. júlí. Lögregla hefur leitað að miðanum í rústum byggingarinnar en án árangurs.