Fagnar Sigurður Sveinn Sigurðsson, nýkominn af sjúkrahúsinu, fagnar sigurmarkinu gegn SR í fyrrakvöld. Hann skoraði það á 7. mínútu framlengingar með skoti aftur fyrir sig eftir að hafa fengið slæmt sár á vörina fyrr í leiknum.
Fagnar Sigurður Sveinn Sigurðsson, nýkominn af sjúkrahúsinu, fagnar sigurmarkinu gegn SR í fyrrakvöld. Hann skoraði það á 7. mínútu framlengingar með skoti aftur fyrir sig eftir að hafa fengið slæmt sár á vörina fyrr í leiknum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íshokkí Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is „Þetta var eins og í amerískri bíómynd,“ sagði Sigurður Sigurðsson, leikmaður SA Jötna, sem unnu á fimmtudaginn SR, 8:7, á Íslandsmótinu í íshokkí.

Íshokkí

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

„Þetta var eins og í amerískri bíómynd,“ sagði Sigurður Sigurðsson, leikmaður SA Jötna, sem unnu á fimmtudaginn SR, 8:7, á Íslandsmótinu í íshokkí. Síðustu mínútur leiksins voru um margt sögulegar og í raun ótrúlegar. Áðurnefndur Sigurður þurfti, þegar um 27 mínútur voru búnar af leiknum og staðan 4:2 Jötnum í vil, að leita sér aðstoðar á Sjúkrahúsinu á Akureyri vegna skurðar sem hann fékk í andliti. Það stöðvaði hann þó ekki í að skora úrslitamarkið í bráðabana.

„Mér var skutlað upp á sjúkrahús þar sem ég var með stóran skurð fyrir ofan vörina sem liggur upp að nefinu. Það þurfti að sauma einhver nokkur spor,“ sagði Sigurður og spurður hvað þau hafi verið mörg sagði hann: „Ég missti nú eiginlega töluna, ætli þetta hafi ekki verið einhver átta eða níu spor.

Það eru svo ekki nema tveir mánuðir síðan þurfti að sauma vörina síðast og ég held að það hafi þurft að gera það tvisvar á síðasta ári. Þetta er því að verða ágætt!“

Hálfklæddur á spítalanum

Sigurður sagði svo að tilviljunin ein hefði ráðið því að hann náði að komast aftur á ísinn. „Það atvikast svo að ég er uppi á spítala í um það bil einn og hálfan klukkutíma. Það var mikil bið og mikill saumaskapur. Ég hringi svo í konuna mína, sem var að horfa á leikinn þegar ég er að ganga út af spítalanum. Hún tjáði mér að það væri bráðabani og að leikmennirnir væru að stíga inn á ísinn. Það var því ekkert annað að gera en að drífa sig eins og maður gat þar sem ég var í hálfum búningnum á spítalanum. Þegar ég kem svo í Skautahöllina voru búnar einhverjar fjórar mínútur af bráðabananum.“

Sigurður var svo ekki lengi að setja mark sitt á leikinn en aðeins í annarri skiptingunni sinni og um þremur mínútum eftir að hann kom aftur í höllina, þegar Jötnar voru einum manni fleiri, fékk Sigurður sendingu fyrir markið eftir góðan undirbúning Lars Fogers og Hilmars Leifssonar og skoraði sigurmarkið.

Sigurður vildi þó lítið gera úr markinu sjálfu. „Ég þurfti ekkert annað að gera en að vera réttur maður á réttum stað. Strákarnir sáu um erfiðið.

Þetta var í raun bara heppni að ég skyldi ná þessum lokamínútum því bæði var nokkuð um tafir frá því ég fór og svo auðvitað það að leikurinn skyldi vera framlengdur. Þetta var mjög sætt og skemmtileg tilviljun.“

Enginn, nema ef til vill kona Sigurðar, átti von á að sjá Sigurð aftur á svellinu eftir það sem á undan var gengið. Spurður hvort það hafi aldrei verið spurning að halda aftur á svellið sagði Sigurður: „Ég fékk þungt höfuðhögg og var aðeins vankaður. Það var aðallega það sem ég var hræddur við þegar ég skautaði inn á en það var greinlega óþarfi svona eftir á að hyggja.“

SR að hiksta

Sigurinn var mjög mikilvægur Víkingunum sem eru nú einu stigi fyrir ofan SR með 21 stig þegar bæði lið hafa leikið níu leiki, þökk sé sigri Jötna og Sigurði sem er 36 ára en leikur með báðum liðum.

Eftir að SR hafði komið sér í þægilega stöðu á toppi deildarinnar hefur gengi þeirra ekki verið gott eftir tap gegn Birninum í byrjun nóvember. Þá hafa Jötnarnir tekið fjögur stig af SR í síðustu tveimur viðureignum liðanna. Björninn situr því sem fastast á toppi deildarinnar með 28 stig eftir 12 leiki á undan Víkingum í 2. sæti og SR í því þriðja.