E fni Ari Bragi Kárason er mikil vonarstjarna í íslensku tónlistarlífi.
E fni Ari Bragi Kárason er mikil vonarstjarna í íslensku tónlistarlífi.
Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Ari Bragi Kárason þykir efnilegasti djassleikari landsins, var m.a. valinn bjartasta von íslenskrar tónlistar síðast þegar Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent.

Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Ari Bragi Kárason þykir efnilegasti djassleikari landsins, var m.a. valinn bjartasta von íslenskrar tónlistar síðast þegar Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent. Þessi tuttugu og tveggja ára gamli piltur nemur nú í New York en er staddur á landinu um þessar mundir og ætlar að halda tónleika á Rósenberg næsta þriðjudag. Verður efni hljómsveitarinnar Kneebody flutt en sveitin atarna hefur verið að gera mikinn skurk í djasssenu New York-borgar undanfarin misseri. Meðleikarar Ara Braga verða þeir Jóel Pálsson (saxófónn), Kjartan Valdemarsson (hljómborð), Róbert Þórhallsson (bassi) og Scott McLemore (trommur).

Bylting

„Strákarnir voru í hálfgerðu sjokki þegar þeir sáu þessa tónlist sem þeir eiga að fara að spila,“ segir Ari og hlær við.

„Þetta eru flóknir partar og Kneebody er að snúa hlutunum á hvolf mætti segja. Laglínuhljóðfærin eru eiginlega orðin rytmahljóðfæri og styðja við trommurnar frekar en það sé öfugt. Þetta er algerlega ný hugsun og þetta band hefur gríðarleg áhrif á djasssenuna hér í borginni. Heilu skólarnir hafa fundið sig knúna til að bregðast við þessu og hljómsveitir undir áhrifum frá Kneebody spretta upp eins og gorkúlur.“

Ari segir að sveitin hafi komið til borgarinnar frá LA fyrir ca. einu og hálfu ári. Þá hafi hlutirnir sprungið út og hann var t.a.m. dreginn á tónleika, hann yrði með öðrum orðum að sjá þetta band.

„Það er líka snúið fyrir okkur skólagengnu mennina að fara inn í þetta þar sem Kneebody skrifar ekkert niður, þetta er allt lært. Ég hef verið að setja þetta sjálfur niður á nótur og einnig fengið nótur frá öðrum. Sveitin tekur strauma héðan og þaðan og það er mjög erfitt að pinna hana nákvæmlega niður. Þetta er mjög elektrónískt, mikið um bjögun. Ég er ekki að segja að þetta séu viðlíka umskipti og þegar Miles Davis kom inn með Bitches Brew á sínum tíma en þetta vekur menn til umhugsunar um möguleika tónlistarinnar o.s.frv.“

Margt í spilunum

Annars er allt gott að frétta af Ara Braga og hann klárar námið næsta haust.

„Þetta gengur mjög vel hjá mér. Ég er spenntur fyrir því að víkka sjóndeildarhringinn enn frekar. Það kemur ýmislegt til greina, að halda áfram með námið eða sækja um að fá að starfa áfram úti sem listamaður. Ég væri líka til í að koma heim og vinna plötu.“