HANDBOLTI Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Ef við tökum það jákvæða úr þessum leik þá sýndi liðið alveg gríðarlegan „karakter“ að vinna sig út úr þeirri slæmu stöðu sem það var komið í að loknum fyrri hálfleik,“ sagði Guðmundur Þ.

HANDBOLTI

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ef við tökum það jákvæða úr þessum leik þá sýndi liðið alveg gríðarlegan „karakter“ að vinna sig út úr þeirri slæmu stöðu sem það var komið í að loknum fyrri hálfleik,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, eftir jafntefli, 31:31, við Pólverja á fjögurra þjóða æfingamóti á Jótlandi í gær. Íslenska liðið var sex mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 17:11. Kári Kristján Kristjánsson jafnaði metin þegar 20 sekúndur voru eftir.

„Menn rifu sig upp í síðari hálfleik. Menn vissu að þeir höfðu komið sér sjálfir í slæma stöðu og þeir höfðu viljann til þess að vinna sig til baka inn í leikinn og ná jafntefli. Menn komu sér á eftirminnilegan hátt út úr slæmri stöðu,“ sagði Guðmundur Þórður en þetta var fyrsti landsleikur íslenska landsliðsins síðan það vann Austurríki, 44:29, í undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöll í júní.

„Við sýndum það í síðari hálfleik að við getum leikið frábæran handknattleik ef sá gállinn er á okkur en að sama skapi getum við fallið niður á lægra plan þegar menn eru ekki samstiga og einbeittir. Nú er að vinna úr þessum leik og sjá hvar skórinn kreppir og nota tímann vel fram að Evrópumóti til að vinna úr þeim þáttum sem betur mega fara,“ sagði Guðmundur sem fljótlega eftir leikinn var farinn að vinna úr myndefni frá viðureigninni til þess að bera á borð fyrir menn árdegis í dag.

Íslenska landsliðið mætir í dag Slóvenum í Herning á Jótlandi en Slóvenar og Danir skildu jafnir í gærkvöldi, 29:29. Íslendingar mæta síðan Dönum í lokaleik mótsins síðdegis á morgun í Árósum.

„Eins og tölurnar gefa til kynna var leikurinn við Pólverja kaflaskiptur eins og stundum vill vera þegar liðið hefur ekki leikið saman um nokkurt skeið,“ sagði Guðmundur Þórður.

Fyrsti leikur Íslands EM verður við Króata mánudaginn 16. janúar í bænum Vrsac í Serbíu. Tveimur dögum síðan leiða Íslendingar og Norðmenn saman hesta sína áður en íslenska liðið mætir Slóvenum 20. janúar. Að riðlakeppninni lokinni fer neðsta liðið heim en þau sem hafna í fyrsta til þriðja sæti halda áfram keppni í milliriðli. 3