Á Spáni Tinna Jóhannsdóttir úr Keili er mætt til La Manga.
Á Spáni Tinna Jóhannsdóttir úr Keili er mætt til La Manga. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Kristján Jónsson kris@mbl.is Tinna Jóhannsdóttir, kylfingur úr Keili í Hafnarfirði, mun á morgun þreyta frumraun sína í úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina í golfi.

Golf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Tinna Jóhannsdóttir, kylfingur úr Keili í Hafnarfirði, mun á morgun þreyta frumraun sína í úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Tinna mun þá hefja leik á La Manga á Spáni en hún gerðist atvinnumaður á síðasta ári og stefnir að því að feta í fótspor Ólafar Maríu Jónsdóttur sem er eina íslenska konan sem unnið hefur sér þátttökurétt í Evrópumótaröðinni.

„Þetta leggst bara vel í mig og ég er mjög spennt. Völlurinn liggur á tanga út við sjóinn og hér er vindasamt. Hér eru því nettar íslenskar aðstæður,“ sagði Tinna þegar Morgunblaðið náði tali af henni síðdegis í gær.

Hélt sér í leikæfingu ytra

Tinna dvaldi í Bandaríkjunum í haust við æfingar og tók þátt í fjórum mótum til að halda sér í einhverju keppnisformi. Hún sagði engin mót hafa verið í boði í desember og kom þá heim um jól og áramót. Tinna hélt út til Spánar 3. janúar og hefur því verið á keppnisstaðnum í nokkra daga ásamt frænda sínum Björgvini Sigurbergssyni. Björgvin er þjálfari hjá Keili og verður Tinnu til halds og trausts í mótinu.

Leikið verður á tveimur völlum á La Manga-svæðinu þar sem eru margir golfvellir. Leiknar verða 72 holur en keppendafjöldi verður skorinn niður að 54 holum loknum. Þeir kylfingar sem komast áfram eftir 72 holur þurfa aðeins að bíða í þrjá daga eftir að lokaúrtökumótið hefjist og fer það einnig fram á La Manga. Í lokaúrtökumótinu verða leiknir fimm hringir eða 90 holur og er fyrirkomulagið því aðeins frábrugðið því sem þekkist hjá körlunum.

Löngu púttin æfð

Tinna þekkir aðstæður ágætlega því hún lék vellina með íslenska landsliðinu árið 2010. „Mér líst mjög vel á aðstæður. Vindurinn skiptir mjög miklu máli hérna. Ég spilaði í hægum vindi í gær og þá var völlurinn er ekkert skelfilegur. Hann er ekki langur en um leið og það bætir í vindinn breytast allar aðstæður. Úrtökumótið fór einnig fram hérna í fyrra og ég ræddi við stelpu sem er með núna og keppti einnig í fyrra. Hún var að hlæja að því að nú væru allir kylfingarnir að æfa löngu púttin vegna þess að flatirnar eru mjög stórar og í miklu roki er erfitt að slá nálægt stönginni. Maður getur því auðveldlega átt eftir 20-30 metra pútt. Í fyrra var víst brjálað veður með roki og rigningu. Veðrið hefur verið skárra að þessu sinni og spáin er ágæt. Skorið ætti því að vera eitthvað lægra en í fyrra,“ sagði Tinna.

Vipp og pútt tímunum saman

Í dag bíður Tinnu nokkuð hefðbundinn undirbúningur en eins og algengt er leggur hún mesta áherslu á að fínpússa stuttua spilið, þ.e.a.s. vippin og púttin. „Á morgun fer ég á völl sem ég þekki nokkuð vel. Ég mun slá nokkur teighögg en mun vippa og pútta í marga, marga, marga klukkutíma. Þetta snýst að mestu um að komast í góðan gír í stutta spilinu. Á vellinum er Bermúda-gras og það getur reynst nokkuð snúið,“ sagði Tinna ennfremur við Morgunblaðið en vellirnir sem leikið verður á eru einfaldlega kallaðir Norður og Suður en tilheyra La Manga club í Murcia sem er ekki langt frá Alicante. Suður-völlurinn er par 73 en Norður-völlurinn er par 71.
Tinna Jóhannsdóttir
» Er 25 ára gömul og hefur undanfarin ár verið á meðal bestu kvenkylfinga landsins. Tinna varð Íslandsmeistari í Kiðjabergi árið 2010.
» Tinna býr að nokkurri reynslu sem áhugamaður bæði úr landsliðsverkefnum en einnig úr háskólagolfinu í Bandaríkjunum. Þar lék hún fyrir San Francisco-háskóla.