<h4>Naut töluverðrar samúðar í upphafi</h4> Þegar Björn notaði beltagröfu til að rífa hús sem hann, eða öllu heldur fyrirtæki hans, hafði átt en misst til banka vakti það mikla athygli. Hann naut í upphafi töluverðrar samúðar og m.a. var braki úr húsinu komið fyrir í þingflokksherbergi Hreyfingarinnar, til marks um þær ógöngur sem efnahagshrunið hefði leitt yfir fólk. Málsins var einnig getið í ræðu á Alþingi af þingmanni sem fylltist sorg og samúð við að sjá aðfarirnar.

Naut töluverðrar samúðar í upphafi

Þegar Björn notaði beltagröfu til að rífa hús sem hann, eða öllu heldur fyrirtæki hans, hafði átt en misst til banka vakti það mikla athygli. Hann naut í upphafi töluverðrar samúðar og m.a. var braki úr húsinu komið fyrir í þingflokksherbergi Hreyfingarinnar, til marks um þær ógöngur sem efnahagshrunið hefði leitt yfir fólk. Málsins var einnig getið í ræðu á Alþingi af þingmanni sem fylltist sorg og samúð við að sjá aðfarirnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Björn Bragi Mikkaelsson, sem reif hús sitt á Álftanesi 17.

Baksvið

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Björn Bragi Mikkaelsson, sem reif hús sitt á Álftanesi 17. júní 2009 til að mótmæla bankahruninu, notaði fjármuni sem hann fékk frá viðskiptavinum sínum í júní 2007, vegna sölu á einingahúsi, til að greiða niður lán sem hvíldi á húsinu á Álftanesi og forðaði þannig heimili sínu undan nauðungarsölu. Þetta kom fram í Héraðsdómi Reykjaness í gær þegar aðalmeðferð fór fram í máli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn Birni fyrir fjársvik, skilasvik, bókhaldsbrot og stórfelld eignaspjöll.

Í vandræðum í ársbyrjun 2007

Við aðalmeðferð málsins í gær var Björn yfirheyrður ítarlega af fulltrúa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Hrafnhildi M. Gunnarsdóttur. Hún spurði hann þó ekkert út í eyðilegginguna á húsinu enda er það eina sakarefnið sem Björn játaði á sig. Hann neitaði á hinn bóginn sök að öðru leyti.

Björn er ákærður fyrir fjársvik en til vara fjárdrátt með því að hafa í lok júní árið 2007 fengið tæplega þrítug hjón til að greiða sjö milljónir króna inn á bankareikning fyrirtækis síns, Sun House Ísland, sem keypti einingahús erlendis og seldi hérlendis. Hann hafi vakið með þeim þá hugmynd að greiðslan yrði nýtt til að greiða finnskum framleiðanda hússins en hafi mátt vera ljóst að fyrirtæki hans gæti ekki staðið við kaupsamninginn. Áður höfðu þau greitt 2,7 milljónir í staðfestingargjald og samkvæmt gögnum málsins runnu 580.000 krónur af þeirri greiðslu til finnska framleiðandans.

„Bara íslenskt fyrirtæki“

Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að Sun House var í verulegum fjárhagsvandræðum þá þegar, skuldir voru umfram eignir og félagið komið í vanskil. „Þetta var bara íslenskt fyrirtæki og ekkert óeðlilegt við það,“ sagði Björn. Hann kvaðst ekki hafa fylgst náið með fjárhagsstöðu fyrirtækisins en þar með gerði það enginn. Hrafnhildur, fulltrúi lögreglu, benti á að í febrúar 2007 hefði verið lögð fram beiðni um nauðungarsölu á húsinu á Álftanesi og áætlað var að uppboð færi fram í byrjun júlí 2007. Sama dag og hjónin ungu greiddu sjö milljónir inn á reikning Sun House greiddi Björn Bragi tæplega tvær milljónir inn á lán sem hvíldi á húsinu og við það var nauðungarsölubeiðnin afturkölluð. Áður en greiðslan barst stóð reikningur fyrirtækisins í 2.000 krónum. Ekkert af milljónunum sjö rann til finnska framleiðandans heldur var það sem eftir stóð notað í rekstur fyrirtæksins, í laun til Björns og einnig í greiðslur til fjölskyldumeðlima. Björn sagði að greiðslur frá viðskiptavinum hefðu runnið í pott og allur gangur verið á því hvort greiðslur rynnu til framleiðanda ytra eða hvort annað fé frá rekstri væri nýtt til að greiða fyrir húsin. Hann hefði ávallt ætlað sér að standa við samninginn og ef öll önnur ráð hefði þrotið hefði hann getað selt húsið. Hrafnhildur tók þessar skýringar ekki góðar og gildar. Hún benti á að húsið á Álftanesi hefði verið afar skuldsett, staða fyrirtækisins slæm og innti hann eftir því hvernig hann hefði ætlað sér að standa við samninginn. „Það var sáraeinfalt, maður bara vann og vann og þetta hefði reddast,“ sagði Björn.

Fékk 4,3 milljónir í maí 2008

Framburður Björns var á svipaðan veg þegar fjallað var um greiðslu upp á 4,3 milljónir sem rúmlega þrítugur maður greiddi inn á reikning Sun House vegna kaupa á einingahúsi 29. maí 2008. Þá var fyrirtækið í vanskilum og m.a. hafði verið gert fjárnám í húsinu á Álftanesi. Í mars seldi Sun House tæki fyrir 12 milljónir til að koma í veg fyrir uppboð á húsinu en strax í maí var það aftur komið í nauðungarsöluferli. Björn svaraði því til að hann hefði þrátt fyrir þetta talið að hann gæti staðið við samninginn og að hann hefði haft bak við eyrað að hann gæti fengið 75-80 milljónir fyrir húsið á Álftanesi.

Hálfkæringur hjá lögreglu

Björn er einnig ákærður fyrir skilasvik með því að hafa tekið tæplega 4,5 milljónir út af reikningi Sun House í níu færslum á tímabilinu 8.-28. október 2008 en félagið var þá á barmi gjaldþrots og búið að gera hjá því árangurslaust fjárnám. Úttektirnar voru gerðar í fimm mismunandi bæjarfélögum, þar af tvær á Austurlandi. Björn sagðist ekki hafa treyst bönkunum fyrir fénu og notað það til að greiða lánadrottnum. Hann gat þó engar upplýsingar gefið um hvaða skuldir hann hefði greitt og hann á engar kvittanir fyrir þeim greiðslum, þau gögn týndust, að sögn Björns.

Hrafnhildur benti þá á að hjá lögreglu hefði hann sagt að peningunum hefði hann eytt í áfengi, skemmtanir og tóma vitleysu en Björn svaraði að þetta hefði hann bara sagt í hálfkæringi og við yfirheyrsluna hefði hann ekki munað að hann hefði borgað skuldirnar. Kvittanir vantar raunar fyrir fleiri viðskiptum því fram kom í gær að öll bókhaldsgögn fyrirtækisins hefðu glatast.

Dóms er að vænta innan fjögurra vikna.