Blítt og létt Hér er hluti hópsins að spila á Eyjakvöldinu sl. fimmtudagskvöld; Grímur kokkur, Simmi, Óli í Laufási, Diddi, Obbi, Finnur og Kalli.
Blítt og létt Hér er hluti hópsins að spila á Eyjakvöldinu sl. fimmtudagskvöld; Grímur kokkur, Simmi, Óli í Laufási, Diddi, Obbi, Finnur og Kalli. — Ljósmyndir/Óskar Pétur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lög Oddgeirs Kristjánssonar við texta vina hans, Ása í Bæ, Árna úr Eyjum og Lofts Guðmundssonar, njóta enn mikilla vinsælda 45 árum eftir andlát hans. Eyjamenn syngja reglulega saman þessi lög.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þetta er þriðji veturinn sem við erum með þessi Eyjakvöld á Kaffi Kró,“ segir Ósvaldur Guðjónsson, tónlistarmaður og Eyjapeyi, en hann fer fyrir 12 manna hljómsveit sem spilar sígild Eyjalög á kránni við höfnina í Vestmannaeyjum fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði allan veturinn. „Þessi Eyjalög sem við Vestmannaeyingar eigum eru fjársjóður. Ég efast um að einn bær eða sveitarfélag geti státað af öðrum eins perlum. Og við verðum að halda þessari arfleifð gangandi. Við spilum lög eftir alla Vestmannaeyinga, unga sem aldna, en vissulega eru Oddgeir og Ási í Bæ þekktustu póstarnir þar, Oddgeir með lögin sín og Ási með textana.“

Spilað með hjartanu

Ósvaldur segist hafa farið af stað með Eyjakvöldin af því hann var hræddur um að hann og félagar hans væru síðasta kynslóðin í Eyjum sem spilaði þessi lög. „Við megum ekki missa tengslin við upprunann og við megum ekki glata þessu. Við spilum þetta eins og þeir gerðu í gamla daga, með hjartanu. Við gerum þetta fyrir gleðina og fólk kann að meta það. Dóttir Oddgeirs hefur sagt að fílingurinn hjá okkur sé eins og þegar pabbi hennar og Ási í Bæ sátu inni í stofu og sungu hér áður fyrr. Mér þykir vænt um það.“

Sagðar sögur milli laga

Þau sem spila og syngja á Eyjakvöldunum kalla sig Blítt og létt-hópinn og aldursbilið er breitt, frá 35 ára til rúmlega sjötugs. „Elsti meðlimurinn í bandinu spilar á harmonikku og hann hreinlega elskar að taka þátt í þessu. En það er enginn ómissandi í hópnum, við höldum þessi Eyjakvöld þótt einhver í bandinu komist ekki. Ég hef sjálfur oft misst af því að spila með, af því ég er sjómaður. Fjöldi meðlima í bandinu er því breytilegur, en að jafnaði eru þrír gítarar, píanó, trommur, slagverk, bassi, harmonikka, saxófónn og fjórir söngvarar. Óli Týr bróðir minn er einn af söngvurunum og hann segir líka sögur á milli laga.“

Til Færeyja í vor

Obbi segir Eyjakvöldin ævinlega mjög vel sótt og að textum laganna sé varpað upp á vegg svo allir geti sungið með. „Í því felst samkenndin og skemmtunin, að allir séu með. Við höfum líka fengið gesti úr Eyjum til að troða upp og viljum með því gefa tónlistarfólki tækifæri til að koma fram. Þetta er búið að vera rosalega gaman og við höfum líka farið upp á land til að spila Eyjaprógrammið. Við vorum í Hvíta húsinu á Selfossi í mars á síðasta ári, spiluðum í Gamla fjósinu undir Eyjafjöllum í nóvember, og í Þorlákshöfn um svipað leyti. Það hefur lukkast mjög vel og það er gaman að horfa út í salinn og sjá hvað fólk er ánægt og brosandi. Fólk fer á ið, það er óhjákvæmilegt, þetta er þannig stemning og allir þekkja þessi lög. Við ætlum í útrás til Færeyja í vor með Eyjalögin, og spilum þar fyrir frændur okkar, bæði í Þórshöfn og í Götu sem er vinabær Vestmannaeyja. Jógvan verður úti á sama tíma og hann tekur lagið með okkur.“

Ekki einasta halda félagarnir í Blítt og létt Eyjalögunum lifandi, því Kór ÁTVR, Átthagafélags Vestmannaeyinga á Reykjavíkursvæðinu, er einnig með mörg Oddgeirslög á sinni efnisskrá, enda ku tengdasonur Oddgeirs vera þar innanborðs.

ODDGEIR KRISTJÁNSSON

Höfuðskáld Vestmannaeyja

Oddgeir Kristjánsson, tónskáld og tónlistarkennari fæddist í Vestmannaeyjum 16. nóv. 1911 og lést langt um aldur fram 1966. Á barnsaldri hneigðist hugur hans til tónlistar og á þrettánda ári var hann farinn að leika á trompet í lúðrasveit í Eyjum. Oddgeir fór til Reykjavíkur í fiðlunám til Þórarins Guðmundssonar. Veturinn 1944-45 var hann við tónfræðinám hjá Róbert A. Ottóssyni. Dæmi um ógleymanleg lög eftir Oddgeir eru Vor við sæinn, Gamla gatan, Ég veit þú kemur, Ágústnótt, Ship ohoj og Sólbrúnir vangar. Um áratugaskeið var Oddgeir drifkraftur í tónlistarlífi Vestmannaeyinga. Hann var einn af forgöngumönnum um stofnun Lúðrasveitar Vestmannaeyinga og stjórnandi hennar til dauðadags. Síðustu tíu ár ævinnar var hann tónmenntakennari í Barnaskóla Vestmannaeyja.