Herdís Albertsdóttir var fædd á Ísafirði 19.11. 1908. Hún lést 24. desember 2011.

Foreldrar hennar voru þau Albert Jónsson f. 1848, d. 1916 járnsmiður á Ísafirði og kona hans Magnea Guðný Magnúsdóttir f . 1872, d. 1946 húsmóðir. Þau eignuðust 11 börn, þau Kristján f. 1892, Þórey f. 1893, Jón f. 1895, Hergeir f. 1897, Skúli og Karl dóu ungir, Magnús f. 1903, Jónína f. 1905. Albert sem dó um fermingu, þá Herdís f. 1908, Guðrún f. 1910 og Margrét f. 1912. Öll systkinin er látin.

Herdís var heitbundin Þorvaldi Ragnari Hammer, f. 24. júní 1912, d. 30.10. 1932. Foreldrar hans voru þau Ragnheiður Jónsdóttir og Sigvard A. Hammer d. 1958. Herdís og Þorvaldur eignuðust eina dóttur, Guðnýju Albertu f. 30.10. 1930, d. 26.1. 2009 gift Jónasi Geir Sigurðssyni f. 17.5.1931, d. 14.3. 2008 bónda á Brekkum í Holtahreppi. Þau eignuðust þrjú börn saman Sigríði Steinunni, Ragnheiði og Sigurð, en áður átti Guðný tvær dætur, Kristjönu og Herdísi Rögnu. Kristjana er Sigurðardóttir Sveinssonar frá Góustöðum og er alin upp hjá ömmu sinni frá þriggja mánaða aldri. Hún er gift Gunnlaugi Gunnlaugssyni og á hún þrjú börn frá fyrra hjónabandi, Sigurð, Herdísi Albertu og Önnu Málfríði. Afkomendur Herdísar eru nú 38. Í húsinu að Sundstræti 33 voru mörg barnabörn alin upp hjá ömmu sinni Guðnýju og síðar Herdísi og var ekki spurt hver átti hvern, heldur voru þetta bara börnin hennar, eru það einkum börn Jónínu og Þóreyjar systra hennar, mikil og góð tengsl hafa alla tíð verið hjá þessum börnum við Herdísi. Herdís hefur alla tíð unnið verkamannavinnu, t.d. á reitum að breiða fisk, við hreingerningar og ræstingar og þvotta og síðast í rækjuvinnslu. Hún gekk ung í Kvenfélagið Hlíf og var þar heiðursfélagi og vann mikið að kvenfélagsmálum, sem voru henni hugleikin. Hún hafði mikinn áhuga á boltaleikjum, t.d. handbolta og studdi hún „strákana okkar“ mikið og fylgdist vel með öllum leikjum og vissi alltaf hver átti sitt númer í liðinu. Herdís hefur dvalið á Öldrunardeild Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði s.l. þrjú og hálft ár, og lést þar eins og áður er getið á aðfangadag jóla.

Útför Herdísar verður gerð frá Ísafjarðarkirkju í dag, laugardaginn 7. janúar 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Hér er gengin hljóð til moldar

hæglát kona, er mikið vann,

dygg í starfi, styrk í lundu.

Stóð í skuld við engan mann

Falslaus vinum, frændum öllum,

fús að hjálpa í hverri raun.

Óstudd gekk, en aðra styrkti,

urðu það hennar verkalaun.

Þannig var hún amma mín, þegar ég lít til baka og hugsa hvað heppin ég hef verið að fá að alast upp hjá henni og langafa mínum í litla súðarherberginu á Bökkunum.

Fá að kynnast því að hamingju kaupum við ekki fyrir peninga heldur verðum rík af lífsins auði.

Hún amma átti stórt hjarta og hennar hamingja var að geta sinnt sinni fjölskyldu og var nafnið fjölskylda teyjanlegt hugtak, því margir fjarskyldir stóðu henni hvað næst.

Hún missti mann sinn aðeins 24 ára gömul frá einni dóttur aðeins tveggja ára. Seinna flytur tengdafaðir hennar til hennar og í sameiningu ala þau upp móður mína og síðan mig frá unga aldri, auk þess voru systkinabörn hennar sem hennar börn.

Hún vann alla tíð sem verkamaður, hvort sem var í uppskipum úr kolaskipum, á reitunum að breiða fisk, við hreingerningar á heilu húsunum, og þvotta af mörgum bæjarbúum, mest þó af einstæðingum,

Ekki var þægindum fyrir að fara hjá henni, en eins og áður sagði bjuggum við í litlu súðarherbergi og var oft gestkvæmt þar og komu margir í kaffi þangað, bæði mínar vinkonur og hennar.

Við fluttum svo á neðri hæðina þegar ég var 15 ára, þá vorum við orðnar einar en afi lést um jólin 1958. Okkur fannst við komnar í höll.

Eftir að ég eignast mína fjölskyldu er hún komin í nýtt hlutverk, þá eru komin langömmubörn og hafa þau öll verið henni mjög kær og hún kennt þeim mikið.

Síðan koma mín barnabörn, þá er farið að kalla hana bara löngu , og voru það fleiri en mín börn sem kölluðu hana því nafni. Þá gat hún átt það til að leika við þau, setja gömul blöð á gólfið og láta barnið leggjast á það og hún á fjórum fótum að teikna Pappírs-Pésa.

Einnig sagði hún þeim sögur og söng með þeim. Hún fylgdist vel með hvað þau voru að gera hvert og eitt, hvernig þeim gengi í skóla, vinnu eða íþróttum. Mitt elsta barnabarn hefur stundað nám erlendis og nú rétt fyrir jólin hringdi hann í hana og spilaði jólalög fyrir hana í símann frá Tromsö þar sem hann er nú við nám. Það var besta jólagjöfin.

Eins og áður sagði var fjölskyldan henni allt og voru þau tvö ættarmót sem Albertsættin hefur haldið hápunktur í lífi hennar og ferð sem við mæðgur fórum með hana til Danmerkur þegar hún varð níræð. Að

heimsækja frænda og hans fjölskyldu þar, það var ógleymanleg ferð.

Amma var fædd í húsinu sínu á Bökkunum og bjó þar í næstum 100 ár, hún elskaði blóm og voru stofugluggarnir oftast prýddir rósum og pelargóníum.

Því má segja að hún hafi farið með mig eins og viðkvæma fjólu sem hún lagði metnað sinn í að rækta, svo hún nyti sín og næði þroska.

Ég vona að ég hafi getað sýnt henni allt mitt þakklæti og endurgoldið eitthvað af öllu því sem hún gaf mér og minni fjölskyldu.

Hún kvaddi þetta jarðlíf sæl eftir langa ævi á aðfangadag jóla.

Far þú í friði, elsku amma mín.

Þín,

Kristjana Sigurðardóttir.

Amma á Bökkunum er látin. Dísa amma átti stóran sess í allri minni æsku. Við systkinin vorum töluvert einráð um athygli ömmu og hún veitti okkur hana óspart. Hún passaði okkur oft og þá var gist á Bökkunum. Húsinu var aflæst um klukkan níu, maltölsflaska opnuð og skipt á milli okkar fyrir svefninn og svo háttuðu allir. Ég fékk lengst af að sofa fyrir ofan ömmu í rúminu og fylgdist með þegar amma greiddi hárið sem náði niður á læri og kom okkur í ró á meðan, sagði okkur ævintýri þar sem tröll átu fólk og fleira kræsilegt en ég man ekki eftir neinum martöðum. Það góða sigraði alltaf að lokum. Koppurinn var undir rúmi og hræðilega kaldur viðkomu á nóttunni á ber lærin. Það var ekki allt nútímalegt á Bökkunum og amma hafði sterkar skoðanir á óþarfa bruðli. Sími og sjónvarp kom hvorttveggja seint í gamla húsið og ég man vel eftir mér í þvottahúsinu þar sem stórir járnbalar stóðu fullir af þvotti og blámi var notaður á hvíta þvottinn. Þvottavélin var rafmagnsvél en opin að ofan og skemmtilegt að fylgjast með henni snúast fram og aftur. Hún amma hafði sterkar skoðanir á mjög mörgu og gat verið bæði hvöss og ósanngjörn væri hún í þeim gírnum. Ég ímynda mér að erfið ævi með miklu streði og mörgum vonbrigðum hafi hert hana töluvert en yfirleitt var hún ljúf og góð við okkur krakkana og hún kunni líka að gleðjast og njóta þess góða sem lífið gaf. Ég olli henni töluverðu hugarvíli þegar ég var á sjötta ári, ég nennti ekki að læra að lesa og átti að fara í skóla um haustið. Það var setið við eldhúsborðið með Gagn og gaman og Litlu gulu hænuna og reynt að koma krakkanum til þess að stauta en það gekk heldur illa. Ég hafði nýverið lært að prjóna við þetta sama eldhúsborð og líkaði sú iðja vel þannig að ég bauð bróður mínum skipti, hann skyldi lesa fyrir mig og ég skyldi prjóna fyrir hann, hann var árinu eldri og þegar læs. Þetta gekk nú ekki eftir því nafna hennar ömmu skyldi ekki fara ólæs í skólann og það borgaði sig alltaf að gera eins og amma sagði þannig að ég varð fljótt bæði vel læs og vel prjónandi. Ég kom við hjá ömmu yfirleitt á hverjum degi, yfirleitt eftir skóla og eftir að ég varð unglingur og fór að vinna í Norðurtanganum í skólafríum var farið til ömmu í mat og kaffi og vinirnir oft teknir með. Þá fannst mér amma vera orðin gömul kona en síðan eru rúmlega 30 ár. Minningarnar eru margar og Dísa amma var með okkur fjölskyldunni á öllum stærri stundum í lífi okkar, öll jól og aðrar hátíðir og tók þátt í því að móta okkur og ala okkur upp. Dísa amma gaf mér svo margt, endalausan tíma, handavinnukennslu, skilyrðislausa ást og með sögunum sínum gaf hún mér líka innsýn í horfinn heim sinnar kynslóðar. Það eru þvílík forréttindi að vera orðin 45 ára og vera fyrst núna að kveðja, sérstaklega þar sem amma hélt bæði líkamlegri og andlegri heilsu alveg fram á síðustu vikur þó hún væri orðin lúin sem von er. Við hjónin og börnin okkar þökkum samfylgdina, kærleikann, alla góðu sokkana, kvæðin og sögurnar. Hvíl þú í friði.

Herdís Alberta Jónsdóttir.

Í dag kveðjum við Dísu ömmu á Bökkunum. Hún var amma svo margra, sinna eigin barna og einnig systkinabarna. Ég hef þekkt Dísu frá því að ég var lítil. Sigrún amma mín í Dokkunni var vinkona Dísu og ég því heimagangur þar alla tíð. Þvílík forréttindi að fá að alast upp í kringum þær vinkonurnar, Dísu, ömmu, Tobbu Líkafróns, Jónínu í Ásbyrgi og fleiri góðar konur.

Í minningunni var Dísa alltaf að þvo þvotta, gefa fólki að borða, Maggi Dan við eldhúsborðið í kaffi, og svo sátu þær vinkonurnar úti í sólinni, uppi á túni að hnýta tauma. Dokkubryggjan og nágrenni var aðal-leiksvæðið í þá daga, og ekki var nú leiðinlegt að setjast hjá ömmunum og hjálpa aðeins til.

Margir bjuggu í Albertshúsinu og þar ólust börn Ninnu Alberts upp hjá mömmu sinni, Guðnýju ömmu og Dísu. Maggý tengdamamma ólst þar upp frá unga aldri. Kitti og Ólína bjuggu líka þar um tíma með sín elstu börn.

Þegar ég kom inn í fjölskylduna með Jóni Ísak urðu ferðirnar til Dísu margar, börnin okkar dáðu þessa litlu ömmu á Bökkunum sem tók alltaf brosandi á móti þeim og ég tala nú ekki um að hún átti páfagauk og kisu til að leika sér við.

Dísa horfði á alla leiki hjá landsliðinu í handbolta og voru það sko strákarnir hennar. Ef svo illa vildi til að þeir töpuðu leik var það alltaf dómurunum að kenna. Strákarnir hennar voru bestir.

Milli Dísu og Kiddýjar dótturdóttur hennar og uppeldisdóttur var einstök hlýja. Kiddý og hennar fjölskylda öll hefur alla tíð hugsað vel um hana og umvafið kærleika og ef þau brugðu sér af bæ voru Kitti og Maggý alltaf til taks. Dísa prjónaði á marga ættliði. Allir áttu sokka frá Dísu ömmu.

Tvisvar er búið að halda ættarmót hjá Albertsættinni. Yndislegt var að sjá gleðina sem skein úr andliti Dísu við að sjá svo marga ættingja saman komna.

Alltaf var gaman að spjalla við Dísu og fræðast um allt sem hún mundi og hafði upplifað og svo fylgdist hún vel með hvað fjölskyldan var að gera og hvar allir voru, og sagði okkur fréttir af þeim. Minni hennar var ótrúlegt, stundum þurfti hún að leiðrétta okkur „yngra“ fólkið þegar okkar minni hrökk ekki til.

Á aðfangadag fórum við á sjúkrahúsið og kvöddum Dísu ömmu.

Takk fyrir allt, elsku Dísa okkar.

Fjölskyldunni allri sendum við Jón Ísak og börnin samúðarkveðjur.

Sólveig Skúla.

Elsku Langa mín.

Það var alltaf svo gott að koma til þín. Kjötsúpan í hádeginu á Bökkunum var alltaf toppurinn á vikunni hjá mér þegar ég var yngri enda gerðir þú bestu kjötsúpu í heimi! Þangað var ekki bara mér boðið heldur leyfðirðu Helgu Þuríði frænku minni alltaf að fljóta með og tókst á móti henni eins og hún væri hluti af fjölskyldunni líka. Þú hugsaðir svo vel um alla og tókst á móti öllum opnum örmum. Litla húsið á Bökkunum var alltaf fullt af fólki og allt var þetta þitt fólk.

Við vorum ekki svo ólíkar og mér fannst ekki leiðinlegt að líkjast svona magnaðri konu. En það sem við áttum mest sameiginlegt var stærðin okkar. Ég er svo heppin að passa í flíkur af þér og er ég ánægðust með skyrtuna af þér sem fylgir þjóðbúningnum sem þú gafst mér í fermingargjöf.

Þú varst svo yndisleg og ákveðin kona. Fylgdist vel með okkur, púkunum þínum og varst svo stolt af okkur. Þú vissir alltaf hvað við vorum að gera og hvar og aldrei gleymdirðu neinu. Ég man hvað ég saknaði þess mikið þegar ég bjó í Kanada að koma í heimsókn á Bakkana og klappa kisunni þinni og knúsa þig. Ég er svo glöð að hafa verið á Ísafirði síðustu ár og að hafa getað eytt svona mörgum stundum með þér. Ég mun ávallt varðveita þær stundir sem við áttum saman, elsku amma mín og verð ævinlega þakklát fyrir þær. Ég var alltaf svo montin af þér og það er svo mikið stolt sem fylgdi því að vera afkomandi þinn.

Ég hef svo oft í gegnum tíðina þurft að kveðja þig en aldrei fórstu neitt. En nú er kveðjustundin runnin upp. Ég mun alltaf sakna þín, elsku Langa mín, hvíldu í friði.

Þín,

Björk.

Fallin er frá í hárri elli hún Herdís Albertsdóttir eða Dísa eins og hún var kölluð. Við hjónin áttum því láni að fagna að umgangast hana síðustu tvo áratugina og þótt aldurinn færðist yfir hana mundi hún alla hluti, bæði gamalt og nýtt. Alltaf var hægt að leita í hennar viskubrunn og þá sérstaklega ef grafa þurfti upp eitthvað frá fornu fari á Ísafirði, hvort sem var í bundnu máli eða ekki. Stundum þegar við komum í heimsókn til hennar fór hún með heilu ljóðabálkana, sem maður hafði aldrei heyrt áður og vonum við að Kristjana fósturdóttir hennar hafi náð að halda þessu til haga.

Lífsbaráttan fór hörðum höndum um Dísu og hún þurfti að hafa fyrir hlutunum. Alla tíð bjó hún niðri á Bökkum í svokölluðu Albertshúsi og fór fast að tíræðu á öldrunardeildina. Hún átti samt góða elli og er frábært að vita hversu vel þau Kristjana og eiginmaður hennar, Gunnlaugur, sinntu henni.

Við vottum öllum ættingjum Herdísar okkar innilegustu samúð vegna fráfalls hennar.

Inga og Kristján.

Mig langar að minnast Herdísar Albertsdóttur er lést á aðfangadag jóla og kvödd verður hinstu kveðju frá Ísafjarðarkirkju í dag.

Herdís Albertsdóttir fæddist 19. nóvember 1908 í húsinu að Sundstræti 33. Hún bjó í húsinu sínu á Bökkunum til 99 ára aldurs eða þar til hún fór á öldrunardeildina á sjúkrahúsinu.

Dísu Alberts eða Dísu á Bökkunum kynntist ég eftir að ég tók að mér formennsku í Kvenfélaginu Hlíf. Er kvenfélagið varð 100 ára heimsótti ég Dísu í húsið hennar á Bökkunum til þess að fræðast um starfsemi kvenfélagins hér áður fyrr. Mikið var gaman að koma heim til hennar og heyra hana segja frá starfinu í félaginu hér á árum áður. Það var miklu skemmtilegra að hlusta á Dísu segja frá en að lesa fundargerðarbækur félagsins. Dísa var minnug, sagði frá atburðum í starfi kvenfélagsins og rifjaði upp nöfn fjölda kvenna er störfuðu í félaginu í gamla daga.

Dísa gekk í Kvenfélagið Hlíf þegar hún var um þrítugt og hafði því verið í félaginu í rúm 70 ár er hún lést, elsta félagskonan og jafnframt heiðursfélagi. Hún starfaði ötullega í kvenfélaginu hér áður fyrr, tók virkan þátt í vinnu við Hlífarsamsætið og hinar ýmsu fjáraflanir.

Alla tíð fylgdist hún vel með starfi félagsins, vildi vita hvenær basarinn, tombólan eða Samsætið yrði og hvernig hefði svo gengið. Er ég heimsótti Dísu á öldrunadeildina stuttu fyrir jól spurði hún enn um kvenfélagið.

Þegar Dísa fagnaði 100 ára afmæli sínu 2008 afþakkaði hún allar gjafir en bað fólk að láta andvirði gjafa renna til Kvenfélagsins Hlífar. Við Hlífarkonur þökkum henni fórnfúst starf, traust og gjafmildi í garð félagsins.

Ég sendi öllum aðstandendum Herdísar Albertsdóttur innilegar samúðarkveðjur, blessuð sé minning hennar.

Anna Karen

Kristjánsdóttir,

formaður

Kvenfélagsins Hlífar.