Á hálum ís Gangandi vegfarendum gekk illa að fóta sig á svellinu sem myndaðist með hlýnandi veðri í gærdag.
Á hálum ís Gangandi vegfarendum gekk illa að fóta sig á svellinu sem myndaðist með hlýnandi veðri í gærdag. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sævar Már Gústavsson saevar@mbl.is Árstíðarbundna fjölgun beinbrota sem tilkomin eru vegna hálkuslysa mátti merkja í ár eins og þau fyrri.

Sævar Már Gústavsson

saevar@mbl.is

Árstíðarbundna fjölgun beinbrota sem tilkomin eru vegna hálkuslysa mátti merkja í ár eins og þau fyrri. En þó svo veðurfar á landinu væri með kaldara móti í desember og einnig óvenjusnjóþungt víða um land komu ekki upp fleiri tilvik beinbrota vegna hálkuslysa en undanfarin ár, samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum.

Veðrið undanfarið hefur gert gangandi og akandi vegfarendum lífið leitt, en snjólag var yfir Akureyrarbæ allan mánuðinn og 29 daga í Reykjavík – sem er yfir meðallagi á báðum stöðum. Þetta sýndi sig meðal annars í meiri notkun leigubíla. Vignir Þröstur Hjálmarsson, deildarstjóri hjá Hreyfli, segir að um leið og byrjar að snjóa nýti fólk sér leigubíla í mun meiri mæli. „Símarnir byrja að hringja á fullu um leið og það byrjar að snjóa og fólk fer jafnvel að biðja um start á bílana sína,“ segir Vignir.

Hann segir einnig að töluvert meira hafi verið að gera í desembermánuði en undanfarin ár og má eflaust rekja það til hálkunnar og snjóþungans. „Fólk á öllum aldri hringir eftir bíl, þótt eldri borgarar geri það eflaust oftar í slæmri ferð en ella.“

Eldra fólk vel undirbúið

Eldra fólk virðist undirbúa sig vel þegar vetrarhörkur skella á og lendir ekki frekar í óhöppum vegna hálku en yngra fólk. Stefán Björn Karlsson, lærlingur hjá Skóaranum í Kringlunni, segir að sala á mannbroddum hafi aukist mikið eftir því sem liðið hefur á veturinn. „Við höfum verið að selja mannbrodda síðan í lok nóvember og þeir hafa rokið út síðustu vikur og sérstaklega síðustu daga,“ segir Stefán Björn.

Ennfremur segir Stefán að fólk á öllum aldri kaupi mannbrodda. „Ungt fólk kemur hingað líka og oft og tíðum er það að kaupa mannbrodda handa ömmu og afa.“ Ungir jafnt sem aldnir virðast því vera vel á varðbergi gagnvart hálkunni og unga fólkið reiðubúið til að aðstoða eldri ættingja.