Skipstjórar Birkir Hreinsson (tv.) og Guðmundur Þórarinn Jónsson um borð í Vilhelm Þorsteinssyni EA. Aflaverðmæti uppsjávarveiðiskipsins var í fyrra nær 4,5 milljarðar króna, um 35% hærra en árið á undan.
Skipstjórar Birkir Hreinsson (tv.) og Guðmundur Þórarinn Jónsson um borð í Vilhelm Þorsteinssyni EA. Aflaverðmæti uppsjávarveiðiskipsins var í fyrra nær 4,5 milljarðar króna, um 35% hærra en árið á undan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Vinnustaður með aðeins um 40 starfsmenn samanlagt sem skilaði þjóðarbúinu nærri 4.500 milljónum króna á árinu 2011. Þannig má lýsa uppsjávarskipi Samherja, Vilhelm Þorsteinssyni EA-11.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Vinnustaður með aðeins um 40 starfsmenn samanlagt sem skilaði þjóðarbúinu nærri 4.500 milljónum króna á árinu 2011. Þannig má lýsa uppsjávarskipi Samherja, Vilhelm Þorsteinssyni EA-11. Skipstjórarnir tveir, Guðmundur Þórarinn Jónsson og Birkir Hreinsson, leysa hvor annan af, eru að jafnaði um mánuð á sjó og mánuð í landi.

Alls eru 24 í áhöfn þegar aflinn er frystur. En hver er galdurinn við að fiska? Guðmundur, sem verið hefur skipstjóri á Vilhelm nær óslitið frá 2001, segir að dugleg áhöfn, hátt afurðaverð og mikill kvóti hafi hjálpast að á liðnu ári en auðvitað þurfi skip og tæki líka að vera af besta tagi. „Maður gerir þetta ekki einn, ætli þetta sé ekki meira undir þessum 23 komið en mér! Annars held ég að þetta snúist allt um kvóta.“ Hann er hjátrúarfullur, byrjar veiðiárið aldrei á mánudegi. Og í brúnni eru svartur hanski sem einhver skildi eftir og líka trefill, báðir hafa „reynst svo vel“ að hvorugur er fjarlægður!

„Þetta er mikil vinna en aðbúnaðurinn er gjörbreyttur frá því ég byrjaði á sjó, þetta er ekki sami heimur. Sama hvort menn vilja hringja, fara í tölvuna eða líkamsrækt, þetta er allt um borð, allir með sjónvarp í klefunum, geta fylgst með boltanum. Og nú náum við ríkissjónvarpinu frá hnetti, það var mikil breyting. Menn voru þess vegna ekkert of kátir þegar Stöð 2 var ein með HM í fyrra.“ Landsliðsmaðurinn Arnór Atlason er tengdasonur Guðmundar.

Alltaf í símasambandi

Birkir er mágur Guðmundar, hann hefur verið stýrimaður á Vilhelm frá upphafi og skipstjóri frá 2005. „Þetta hefur breyst mikið, þegar maður byrjaði voru menn meira eða minna á sjó allt árið,“ segir Birkir. Hann segir samstarfið ganga vel, þeir fylgist alltaf vel með því sem gerist og séu daglega í símasambandi. Einnig sé reynt að tryggja að ekki sé skipt um bæði skipstjóra og stýrimann á sama tíma, þá séu alltaf allar upplýsingar um síðasta túr fyrir hendi um borð.

Þeir eru báðir Bolvíkingar. Voru ekki til skipstjórar á Akureyri?

„Okkur langaði svo mikið að koma norður,“ svarar Guðmundur hlæjandi. „En þetta æxlaðist bara svona og konan mín er héðan. Við Birkir búum báðir á Akureyri eins og flestir í áhöfninni og höfum skipt þessu á milli okkar síðustu árin. Ég er búinn að vera í rúm 25 ár hjá Samherja og er mjög sáttur.“

NEFNT Í HÖFUÐIÐ Á ÞEKKTUM AFLASKIPSTJÓRA

Skip sem getur veitt allan fisk

Vilhelm Þorsteinsson EA-11 er eitt fullkomnasta fjölveiðiskip Íslendinga, það er um 3.200 brúttótonn og var smíðað í Gdansk í Póllandi. Skipið var afhent Samherja í september 2000. Það er búið til veiða með bæði nót og flottrolli og um borð er búnaður til að frysta og vinna þorsk og annan bolfisk auk uppsjávarfisks eins og síldar, loðnu, makríls og kolmunna.

Skipið er nefnt í höfuðið á Vilhelm Þorsteinssyni sem um árabil stjórnaði Útgerðarfélagi Akureyringa en var einnig þekktur aflaskipstjóri.