Þjálfarinn Helgi Jónas Guðfinnsson er með Grindavík á toppnum. Níu sigrar í fyrstu tíu leikjunum og tveir bikarar.
Þjálfarinn Helgi Jónas Guðfinnsson er með Grindavík á toppnum. Níu sigrar í fyrstu tíu leikjunum og tveir bikarar. — Morgunblaðið/hag
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is Helgi Jónas Guðfinnsson er á sínu öðru tímabili með Grindavík í körfuknattleik karla. Helgi er Grindvíkingur í húð og hár og spilaði mestallan sinn feril í gula búningnum.

Körfubolti

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

Helgi Jónas Guðfinnsson er á sínu öðru tímabili með Grindavík í körfuknattleik karla. Helgi er Grindvíkingur í húð og hár og spilaði mestallan sinn feril í gula búningnum. Lið hans er nú efst í Iceland Express-deildinni með 18 stig eftir tíu leiki. Liðið hefur aðeins tapað fyrir nýliðunum í Þór Þorlákshöfn í vetur og er með tveggja stiga forskot á Stjörnuna.

„Eins og staðan sýnir hefur þetta gengið alveg ágætlega,“ sagði Helgi sem neitaði að missa sig í gleðinni þrátt fyrir að tveir titlar væru komnir í hús, Lengjubikarinn og meistarar meistaranna.

Helgi sagði það hafa verið ljóst þegar hann tók við stjórnartaumunum að hann væri með góðan mannskap í höndunum. „Ég vissi það en þetta er sterk deild og því átti maður ef til vill ekki von á því að það myndi ganga svona vel á þessari leiktíð. Ég hef þó gert breytingar á sóknarleiknum frá því í fyrra. Í kjölfarið höfum við verið að skora mikið í leikjum.“

Viðvörunarbjöllur í síðustu leikjum

Helgi segir þó að viðvörunarbjöllurnar hafi gert vart við sig í síðustu leikjum. „Eftir að lið fóru að beita svæðisvörn á okkur höfum við aðeins hikstað. Við vinnum með það og ágætt fyrir mann að hafa eitthvað til að glíma við sem er krefjandi.“

Vörn liðsins hefur einnig verið frábær á þessari leiktíð. Liðið hefur fengið á sig langfæstu stigin í deildinni eða 750. Ekkert annað lið hefur fengið á sig færri en 800 stig en Þórsarar frá Þorlákshöfn koma næstir Grindvíkingum með 825 stig í 10 leikjum. Þrátt fyrir að liðið sé það fjórða stigahæsta í deildinni með 878 stig þá er ekki að finna Grindvíking í 10 efstu sætunum yfir stigahæstu menn í deildinni.

Ekki hefðbundinn sóknarleikur

„Við erum með liðsheildarbrag á okkar leik. Við spilum ef til vill ekki þennan hefðbundna leik þar sem við stillum upp í ákveðin kerfi. Við reynum frekar að lesa hver annan og menn hafa hingað til verið gjafmildir að senda boltann og er ég mjög sáttur með það,“ sagði Helgi.

Til þess að það gangi upp þarf sterka liðsheild. Helgi þekkir sína menn vel og hefur því fátt komið honum á óvart þrátt fyrir góða spilamennsku margra íslensku leikmannanna. Þá segir hann erlendu leikmennina Giordan Watson og J'Nathan Bullock hafa lagað sig vel að leikstíl liðsins. „Ég er mjög ánægður með þá. Þó svo að Watson skori ekki mikið þá stjórnar hann okkar leik gríðarlega vel. Hann er mikill leiðtogi í sér.“

Sigurður og Jóhann eiga mikið inni

Helgi segir þó að enn eigi nýju Íslendingarnir í liðinu mikið inni, þeir Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Jóhann Ólafsson. „Þeir eru að koma inn í nýtt leikskipulag og það tekur þá tíma að aðlagast því. Ég veit að nokkrir af mínum leikmönnum eiga helling inni.“

Spurður hvort það sé ekki ógnvænlegt fyrir önnur lið að efsta liðið í deildinni eigi enn „helling inni“, sagði þjálfarinn: „Það er aðallega gott fyrir mig að vita af því. Svo hefur Páll Axel Vilbergsson ekki verið mikið með okkur. Það gefur okkur enn fleiri valmöguleika. Það er þó enn ekki ljóst hvenær hann kemst aftur af stað.“

Páll Axel tognaði aftan í læri og er að glíma við meiðsl í báðum hásinum sem hafa truflað hann áður.

Tekur til sín frá Öqvist

Helgi Jónas er á sínu öðru tímabili sem þjálfari í meistaraflokki og því enn ungur. Spurður hvort hann sé orðinn fullmótaður þjálfari og hvort hann sé búinn að finna sína línu, ef svo má að orði komast, segir Helgi: „Já og nei, maður reynir auðvitað alltaf að uppfæra og betrumbæta það sem maður hefur. Maður getur aldrei verið 100 prósent sáttur enda væri það óeðlilegt. Ég er þó kominn á þá línu sem ég er sáttur með í dag en það getur alltaf breyst.

Maður er í stanslaustri þróun sem þjálfari og reynir að bæta sig eins og leikmennirnir.“

Helgi hefur verið aðstoðarþjálfari Peters Öqvists, landsliðsþjálfara Íslands sem einnig þjálfar sænska úrvalsdeildarliðið Sundsvall Dragons. Spurður hvort hann hafi reynt að tileinka sér eitthvað í þjálfun Öqvists sagði Helgi: „Ég nýti mér ekki sama kerfi og landsliðið er með. Það var hinsvegar margt sem ég lærði af honum í sumar sem ég hef tekið til mín.

Ég myndi ekki segja að við værum líkir þegar kemur að þjálfun. Það var hinsvegar margt sniðugt sem hann hafði fram að færa og ég hef reynt að nýta mér það.“

Pressan víkur fyrir verkefnum

Helgi segir framhaldið í deildinni þar sem Grindavík berst fyrir því að ná deildarmeistaratitlinum og þar með heimavallarréttinum í úrslitakeppninni algjörlega óráðið. „Það er svo margt sem getur haft áhrif á það. Meiðsli geta sett stórt strik í reikninginn og þá hafa verið þónokkrar mannabreytingar á liðinu. Ég kýs að horfa ekki langt fram í tímann heldur fara eftir gömlu klisjunni að taka einn leik fyrir í einu. Maður má passa sig að fara ekki fram úr sjálfum sér.“

Umræðan hefur þó verið Grindvíkingum í hag. Margir spekingarnir líta á þá sem sterkasta liðið á pappírunum. Helgi reynir að láta þá umræðu ekki hafa áhrif á sig. „Umræðan hefur ekki haft áhrif á mig. Ég hef reynt að passa það enda hef ég í nógu að snúast að bæta leik minna manna og sjá til þess að við verðum betri eftir því sem á líður. Væntanlega fylgir því einhver pressa en ég hef bara í nógu að snúast,“ sagði þessi viðkunnanlegi þjálfari sem lætur ekki mikið fyrir sér fara en er greinilega á hárréttri leið í þjálfunaraðferðum sínum.

Hann verður svo líklega endanlega dæmdur af afrekum sín í lok leiktíðar þegar kemur í ljós hvernig hann hefur náð að spila út þeim trompum sínum sem hann hefur á hendinni um þessar mundir, þegar deildin er rétt hálfnuð.

Helgi Jónas Guðfinnsson

» Hann er 35 ára gamall Grindvíkingur og er á öðru ári sem þjálfari í sinni heimabyggð.
» Helgi spilaði sjálfur með Grindavík frá 1992 og var um skeið atvinnumaður í Hollandi og Belgíu. Hann leikur nú með Grindavíkurliðinu ÍG í 1. deild.
» Helgi á að baki 63 landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 1995 til 2001.