J.R.R. Tolkien
J.R.R. Tolkien
Sænsku Nóbelsnefndinni fannst ekki koma til greina að enski rithöfundurinn J.R.R. Tolkien, höfundur þríleiksins um Hringadróttinssögu og Hobbitans , hlyti Nóbelsverðlaunin. Frásagnartækni hans og stílbrögð væru ekki nógu góð.

Sænsku Nóbelsnefndinni fannst ekki koma til greina að enski rithöfundurinn J.R.R. Tolkien, höfundur þríleiksins um Hringadróttinssögu og Hobbitans , hlyti Nóbelsverðlaunin. Frásagnartækni hans og stílbrögð væru ekki nógu góð.

Tolkien var prófessor í fornri ensku við Oxfordháskóla og sótti sitthvað í sagnaheimi sínum í miðaldabókmenntir, þar á meðal í íslensk fornrit. Hobbitinn kom út árið 1937 en Hringadróttinssaga á sjötta áratugnum. Samkvæmt frétt í The Telegraph mælti náinn vinur Tolkiens, rithöfundurinn C.S. Lewis, með því árið 1961, að Tolkien hlyti Nóbelsverðlaunin. Lewis var einnig fornfræðingur. En samkvæmt skjölum Nóbelsnefndarinnar frá þessum tíma, sem hafa nú verið gerð opinber eftir fimmtíu ár, taldi einn nefndarmanna, skáldið og gagnrýnandinn Anders Österling, að skrif Tolkiens gætu ekki á nein hátt talist til frásagnarlistar af hæsta gæðaflokki.

Aðrir kunnir höfundar voru tilnefndir þetta ár en slegnir út af borðinu hjá nefndinni. Þar á meðal voru Robert Frost, sem var sagður orðinn of gamall, og E.M. Forster. Hann hafði gefið út síðustu skáldsögu sína árið 1924, A Passage to India , og var sagður orðinn „skugginn af sjálfum sér“.

Það var júgóslavneski rithöfundurinn Ivo Andric sem hreppti Nóbelinn þetta ár en sagnaheim sinn sótti hann mikið til heimalandsins, Bosníu.