Of Monsters and Men Hljómsveitin verður í hljóðveri Stúdíó Sýrlands í Vatnagörðum næstu þrjár vikurnar að taka upp þrjú ný lög sem fara mögulega öll á alþjóðlega útgáfu plötunnar My Head is an Animal.
Of Monsters and Men Hljómsveitin verður í hljóðveri Stúdíó Sýrlands í Vatnagörðum næstu þrjár vikurnar að taka upp þrjú ný lög sem fara mögulega öll á alþjóðlega útgáfu plötunnar My Head is an Animal. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ylfa Kristín K. Árnadóttir ylfa@mbl.is Hljómsveitin Of Monsters and Men, sem sló í gegn í fyrra svo um munaði, er þessa dagana í hljóðveri Stúdíó Sýrlands að taka upp þrjú ný lög fyrir alþjóðlegu útgáfuna af plötu sinni My Head is an Animal.

Ylfa Kristín K. Árnadóttir

ylfa@mbl.is

Hljómsveitin Of Monsters and Men, sem sló í gegn í fyrra svo um munaði, er þessa dagana í hljóðveri Stúdíó Sýrlands að taka upp þrjú ný lög fyrir alþjóðlegu útgáfuna af plötu sinni My Head is an Animal. Um upptökustjórn sér Jacquire King sem hefur unnið með fjölda heimsþekktra tónlistarmanna.

Að sögn Ragnars Þórhallssonar, söngvara og gítaraleikara í Of Monsters and Men, verður hljómsveitin í hljóðverinu næstu þrjár vikurnar en að þeim tíma liðnum verður ákveðið hversu mörgum lögum verður bætt við þessa fyrstu plötu hljómsveitarinnar. „Við ætlum að gera plötuna aðeins öðruvísi fyrir alþjóðlegu útgáfuna, ekki endilega með þremur nýjum lögum en ef við viljum þá gerum við það, annars verða þau færri,“ segir hann en eins og margir vita gerði hljómsveitin í haust samning við Universal Music Group, stærsta tónlistarútgáfufyrirtæki heims.

Skemmtilegt að glíma aftur við að gefa út plötu

Lögin þrjú voru samin af hljómsveitarmeðlimunum og hafa ekki enn fengið nafn en að sögn Ragnars var ákveðið að bæta við lögum m.a. vegna þess að plötunni hefur verið lekið á netið. „Svo af því að við erum að gefa hana aftur út erlendis þá langaði okkur að gera hana ennþá betri og það er skemmtilegt fyrir okkur að geta fengið að glíma aftur við að gefa út plötu,“ segir hann en ný lög eru ekki einu breytingarnar sem verða gerðar á plötunni. „Við ætlum að endurmixa og endurmastera öll lögin en það er þegar búið að mixa og mastera fjögur lög sem fóru á stuttskífu sem við gáfum út í Bandaríkjunum og Kanada. Svo mun plötuumslagið breytast líka og ætlum við að gera það sjálf,“ segir hann og bætir við: „Við ætlum að gera plötuna að öðrum hlut. Hann verður samt sá sami bara aðeins öðruvísi.“

Of Monsters and Men mun spila á tónlistarhátíðinni South by Southwest í Texas um miðjan mars og í kjölfarið mun hljómsveitin ferðast um Bandaríkin. Snemma í apríl kemur svo My Head is an Animal út þar í landi.

JACQUIRE KING

Margt til listanna lagt

Jacquire King er upptökustjóri, lagahöfundur, tónlistarmaður og umboðsmaður. Hann hefur unnið með fjölda heimskunnra tónlistarmanna og hljómsveita á borð við Tom Waits, Modest Mouse, Kings of Leon, Mutemath, Cold War Kids, Norah Jones, Tim Finn og Buddy Guy. Þá hefur hann verið tilnefndur til og hlotið fjölmörg Grammy-verðlaun.

Meðal þeirra platna sem King hefur unnið við eru Mule Variations, Blood Money, Alice, Orphans: Brawlers, Bawlers & Bastards (Tom Waits), Good News for People Who Love Bad News (Modest Mouse), Aha Shake Heartbreak, Only by the Night og Come Around Sundown (Kings of Leon).