Fjárfestirinn Skúli Mogensen er eigandi Títan og hefur mikla reynslu af þekkingariðnaði og góð tengsl.
Fjárfestirinn Skúli Mogensen er eigandi Títan og hefur mikla reynslu af þekkingariðnaði og góð tengsl. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Fjárfestingafélagið Títan, sem er í eigu Skúla Mogensen, hefur bæst í hóp stærstu hluthafa Skýrr með um 5% hlut.

Fréttaskýring

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Fjárfestingafélagið Títan, sem er í eigu Skúla Mogensen, hefur bæst í hóp stærstu hluthafa Skýrr með um 5% hlut. Samhliða þessu er fyrirhugað að Skúli setjist í stjórn Skýrr á næsta aðalfundi félagsins sem áætlaður er í febrúar.

Aðaleigandi Skýrr með um 75% hlut er Framtakssjóður Íslands, sem er í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS, en einnig eru um 40 aðrir hluthafar í félaginu.

Skýrr er stærsta upplýsingatæknifyrirtæki Íslands og það níunda stærsta á Norðurlöndunum. Starfsmenn eru um 1.100, þar af um 600 hér á landi og um 500 í Noregi, Svíþjóð og Lettlandi. Skýrr velti rúmlega 24 milljörðum árið 2011.

Skúli með mikil tengsl

„Skúli hefur á undanförnum misserum sannað sig sem þungavigtarmaður í íslensku viðskiptalífi,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr. „Hann hefur tekið þátt í að stofna og fjárfesta í fjölda fyrirtækja, bæði hér á landi og erlendis. Jafnframt hefur Skúli yfirgripsmikla reynslu af þekkingariðnaði, sem spannar tvo áratugi. Það er því mikill styrkur í aðkomu hans að Skýrr.“

Aðspurður hvort þetta muni ekki auka möguleika fyrirtækisins á sókn á nýja markaði segir Gestur svo vera. „Eins og ég sagði er hann með mjög góð sambönd víða, sem getur orðið fyrirtækinu til góðs ef það vill sækja inn á nýja markaði. Þar að auki er Skýrr með sterka stöðu nú þegar á Norðurlöndunum og reynsla Skúla og þekking á því markaðssvæði mun án efa nýtast okkur mjög vel.“

Í fréttatilkynningu frá Skýrr er eftirfarandi haft eftir Skúla: „Markmið Títans er að taka þátt í endurreisn atvinnulífsins á Íslandi með fjárfestingum í þekkingar- og nýsköpunarfélögum með mikla vaxtarmöguleika. Fjárfestingin í Skýrr smellpassar við þá stefnu okkar. Skýrr stendur vissulega á gömlum grunni, en hefur tekið grundvallarbreytingum og vaxið hratt undanfarin tvö ár gegnum sameiningar á átta góðum fyrirtækjum bæði hér heima og erlendis. Fyrirtækið er í dag með víðtæka starfsemi í fjórum löndum og er afar áhugaverður fjárfestingakostur. Það verður einnig spennandi verkefni að sitja þarna í stjórn,“ segir Skúli Mogensen, eigandi Títans.

Á meðal annarra fyrirtækja sem Títan hefur fjárfest í eru MP banki, WOW air, Carbon Recycling International, Securitas, CAOZ, Tindar verðbréf, Thor Data Center og DataMarket.

Skýrr fer á markað

Verðið á 5% hlut í Skýrr er ekki gefið upp og þar sem fyrirtækið er ekki komið á markað er erfitt að gera sér grein fyrir því hvað það hefur verið. Eigið fé fyrirtækisins var um 3,4 milljarðar samkvæmt níu mánaða uppgjöri þess í október síðastliðnum. 5% af því gerir ekki nema tæpar 200 milljónir en gera má ráð fyrir að kaupverðið hafi verið mun hærra.

Skýrr stefnir að því að fara á markað í Kauphöll Íslands í haust og mögulegt er að það geri tvíhliða skráningu á næstu tveimur árum annaðhvort við kauphöllina í Noregi eða Svíþjóð.

Skýrr
» Fyrir nokkrum árum var Skýrr lítið fyrirtæki í Ármúla með 180 manns í vinnu en er núna orðið 9. stærsta upplýsingatæknifyrirtæki á Norðurlöndum með 1.100 manns í vinnu.
» Aðaleigandi Skýrr með um 75% hlut er Framtakssjóður Íslands, sem er í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS, en einnig eru um 40 aðrir hluthafar í félaginu.
» Skýrr velti 24 milljörðum á síðasta ári.