Samfylkingin staðfestir ánægju sína með skattastefnu Steingríms

Skattheimta var til umfjöllunar í viðskiptablaði Morgunblaðsins í fyrradag og meðal annars rætt um þær breytingar sem orðið hafa á skattheimtunni hér á landi í tíð núverandi ríkisstjórnar. Í samtali við Völu Valtýsdóttur, sviðsstjóra skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, kom fram að ekki aðeins séu þær miklu skattahækkanir sem orðið hafa skaðlegar, heldur einnig sú óvissa sem ríkir um skattkerfið. Vala benti á að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefðu á þriðja tug frumvarpa um breytingar á tekjuskatti orðið að lögum og „oft þannig að löggjafinn rekur sig á að ný lög hafa ófyrirséðar afleiðingar og að reglurnar eru þá stagbættar eftir á. Það virðist ekki hafa verið mörkuð nægilega skýr heildarstefna heldur er fálmað eftir nýjum tekjustofnum hér og þar og með miklum hraða svo að lítið ráðrúm gefst til að vanda til reglusetningarinnar,“ segir Vala.

Hún segir einnig að örar og tilviljanakenndar skattabreytingar, ásamt þáttum á borð við gjaldeyrishöftin, letji mjög til fjárfestinga. „Skortur á stöðugleika hefur fælandi áhrif á fjárfesta og skapar það mikið vantraust ef fyrirtæki telja sig ekki geta gengið að því vísu hvernig opinberri gjaldheimtu verður háttað, eða hvort settar verða verulegar skorður á einhvern þátt í rekstrinum. Það skapar verulegan vanda ef stjórnvöld geta ekki staðið við gefin loforð, t.d. um afnám gjaldeyrishafta sem hafa nú verið ítrekað framlengd. Eðlilega eru erlendir aðilar mjög hikandi við að koma með fjármagn til landsins ef þeir telja einhverja hættu á að geta ekki tekið fjármagnið úr landi aftur, eða að stjórnvöld taki upp á því að leggja á nýja skatta sem gera fjárfestinguna óarðbæra,“ segir hún.

Núverandi stjórnvöld hafa engan skilning haft á því að skattar hafi lamandi áhrif á atvinnulífið og virðast telja að bæði fólk og fyrirtæki séu algerlega ónæm gagnvart hækkandi sköttum og tíðum breytingum á skattkerfinu.

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, varð alræmdur fyrir hótanir sínar sem hann kaus að orða á ensku til að tryggja að þær fréttust sem víðast: You ain't seen nothing yet. Steingrímur hefur ekki staðið við margt af loforðum sínum en þetta hefur hann þó ekki svikið. Sú sem nú vermir stól fjármálaráðherra um stundarsakir, Oddný Harðardóttir, gefur engar vonir um að horfið verði af þessari braut og segist í grunninn ánægð með þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu. Hún lætur einnig hafa eftir sér að skattalækkanir séu ekki á döfinni á næstu árum og er með því greinilega farin að huga að næsta kjörtímabili.

Út af fyrir sig er heiðarlegt af fyrrverandi fjármálaráðherra Vinstri grænna og núverandi fjármálaráðherra Samfylkingarinnar að tala með svo afdráttarlausum hætti um skattkerfið. Skattgreiðendur, sem ekki síðar en á næsta ári verða einnig kjósendur, eiga vitaskuld heimtingu á að vita hver stefna stjórnmálaflokkanna er í þessum mikilvæga málaflokki. Og þeir sem héldu að skattastefnan hefði markast sérstaklega af því að fulltrúi vinstri grænna sat í fjármálaráðuneytinu og töldu að stefnan hefði ef til vill verið önnur ef samstarfsflokkurinn hefði stýrt því ráðuneyti hafa nú fengið þann misskilning leiðréttan.