Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Skemmtistaðurinn Nasa við Austurvöll verður rifinn hinn 1. júní í sumar. Eigandi hússins tilkynnti Ingibjörgu Örlygsdóttur, sem rekið hefur staðinn, þetta bréfleiðis í gær en hann hyggst reisa hótel á reitnum.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Skemmtistaðurinn Nasa við Austurvöll verður rifinn hinn 1. júní í sumar. Eigandi hússins tilkynnti Ingibjörgu Örlygsdóttur, sem rekið hefur staðinn, þetta bréfleiðis í gær en hann hyggst reisa hótel á reitnum. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves-tónlistarhátíðarinnar, segir engan annan sal í boði sem jafnist á við Nasa.

Á Nasa hafa verið haldnir ýmsir popp- og rokktónleikar í gegnum árin auk balla og annarra skemmtana. Þá hefur staðurinn verið annar helsti vettvangur Airwaves-tónlistarhátíðarinnar og verður niðurrif hans stórt högg fyrir hátíðina.

Ekkert lagt í en aðeins tekið

„Við erum alltaf að hreykja okkur af einhverri tónlist og menningu en við leggjum eiginlega ekkert í hana. Við tökum bara,“ segir Grímur. „Þarna finnst mér að fólk ætti að hugsa pínulítið. Það eru reitir um alla borg þar sem hægt er að byggja hótel. Þurfa þau öll að vera í kringum Ingólfstorg?“

Ingibjörg þorir ekki að fullyrða að nú séu öll sund lokuð með það að Nasa fái að lifa áfram. Hugsanlega hefði hún getað fengið eigandann ofan af áformum sínum með því að bjóða honum hærri leigu en þá hefði hún verið komin í samkeppni við ríki og borg með Hörpu. Hún hefði ekki roð við þeirri samkeppni. Réttast væri að Reykjavíkurborg eignaðist staðinn og héldi starfseminni áfram.