Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins ákvað í gær að svara tilboði ríkisins frá 20. desember síðastliðnum, um fjárframlög vegna sjúkraflutninga, með gagntilboði.

Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins ákvað í gær að svara tilboði ríkisins frá 20. desember síðastliðnum, um fjárframlög vegna sjúkraflutninga, með gagntilboði. Hljóðaði tilboð ríkisins upp á 575 milljónir króna en gagntilboð SHS upp á 740 milljónir króna.

Ríkið hefur verið ábyrgt fyrir sjúkraflutningum frá árinu 1991 en hefur gert samninga við sveitarfélögin, sem hafa slökkvistarf á sinni könnu, um flutningana. Enginn samningur er hins vegar í gildi milli ríkisins og SHS eins og stendur, þar sem hann rann út um áramótin.

Slökkviliðsstjórar, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, hafa gagnrýnt að ríkið veiti of lítið fé í sjúkraflutningana, sem þó hafi orðið sífellt stærri hluti af störfum slökkviliðsmanna.

Birgir Finnsson, varaslökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, sagði í samtali við fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, í gær að þau sjónarmið lægju til grundvallar gagntilboðinu að 740 milljónir væru lágmarksupphæð til að standa undir kostnaði við rekstur sjúkraflutninga, með tilliti til þess að þeir næðu til þeirra sjö sveitarfélaga sem tilheyra höfuðborgarsvæðinu.