Ég er nýlega komin með kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Hvað á hún við? gæti einhver spurt núna.

Ég er nýlega komin með kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Hvað á hún við? gæti einhver spurt núna. Jú, þetta hefði ég sagt ef ég væri uppi árið 1915 en þá fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt með nýrri stjórnarskrá, staðfestri af Danakonungi. Aldurstakmarkið verður að teljast merkilegt en fimm árum síðar var það afnumið og fengu konur þá sama rétt og karlar hvað varðar kosningarétt og kjörgengi. Á þeim tæpum 92 árum sem síðan hafa runnið til sjávar hefur orðið verulega ágengt í jafnréttisbaráttunni þó enn sé margt óunnið líka. Má þar til dæmis nefna launamun kynjanna og skarðan hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja.

Í þessu samhengi er mögnuð lesning að renna í gegnum lista á vef kvennasögusafnsins, sem unninn er upp úr bók Erlu Huldu Halldórsdóttur og Guðrúnar Dísar Jónatansdóttur „Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna“.

Þar birtast í kvennasögunni kunnugleg nöfn sem ruddu brautina fyrir þær konur sem á eftir komu. Nöfn eins og Bríet Bjarnhéðinsdóttir, sem stofnaði Kvenréttindafélag Íslands árið 1907. Sama ár er talið að hafnfirskar verkakonur hafi fyrstar íslenskra kvenna farið í verkfall í einn dag en fyrir það uppskáru þær launahækkun. Ingibjörg H. Bjarnason settist á þing fyrst kvenna árið 1922 og Auður Auðuns varð fyrst kvenna ráðherra í ríkisstjórn Íslands árið 1970. Á bak við orðin „fyrst kvenna“ sem koma eðli málsins samkvæmt mjög oft fyrir á listanum, hlýtur að liggja mikill kjarkur og þrautseigja.

Ég man enn hvað mér fannst merkilegt, þegar Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti Íslands. Sú staðreynd að hún var kona varð þess valdandi að ég, tíu ára hnáta, fylgdist vel með kosningabaráttu hennar við Albert Guðmundsson, Guðlaug Þorvaldsson og Pétur J. Thorsteinsson. Það var æsispennandi að fylgjast með síðustu dagana enda varð mjótt á mununum milli hennar og Guðlaugs. Í minningunni kom Vigdís fram á svalir Alþingishússins og ég man að ég hugsaði að það hlyti að vera skrítið að eiga mömmu sem forseta landsins. Nokkuð sem börn í dag væru líklega ekki mikið að velta fyrir sér.

Við erum komin það langt í jafnréttisbaráttunni að í dag er ekki lengur sérstakt fréttaefni hér á landi að kona hafi kosningarétt, afli sér menntunar, setjist á þing og gegni stjórnunarstöðum. Almennt, leyfi ég mér að segja, er ekki litið á jafnrétti sem einkamál kvenna. Samt sem áður er ýmislegt óunnið og auðvitað má fagna því þegar ákveðnir áfangar nást. Að þessu sögðu finnst mér hafa farið lítið fyrir þeirri ánægjulegu staðreynd að á fyrsta fundi ríkisstjórnarinnar á nýju ári voru konur í fyrsta sinn í meirihluta í íslenskri ríkisstjórn. Í hinum fullkomna jafnréttisheimi væri slíkt ekki fréttaefni en í dag er þetta merkilegt enda hefur enn einum áfanganum í jafnréttisbaráttunni verið náð. sigrunrosa@mbl.is

Sigrún Rósa Björnsdóttir