Bjarney Bjarnadóttir fæddist á Siglufirði 28. ágúst 1919. Hún lést á Dvalarheimilinu Hornbrekku, Ólafsfirði, 26. desember 2011.

Foreldrar hennar voru Ólöf Þorláksdóttir, f. 20.6. 1889, d. 17.1. 1985 og Bjarni Guðmundsson, f. 20.7.1890, d. 1.9. 1919. Systkini Bjarneyjar voru Halldóra, f. 1910, d. 1928, Guðmunda, f. 1912, d. 1990, Guðrún, f. 1914, d. 2008, Guðmundur, f. 1916, d. 1987, Þorgrímur, f. 1918, d. 2011. Tvö hálfsystkin átti Bjarney, Jónínu Steinþórsdóttir, f. 1906, d. 1998 og Eystein Einarsson, f. 1923, d. 2011.

Á jóladag 1940 giftist Bjarney Sigurjóni Jónassyni frá Ólafsfirði, f. 22.12. 1918, d. 28.8. 1994. Foreldrar hans voru Jónas Jónsson, f. 1983, d. 1974 og Jónína Jónsdóttir, f. 1891, d. 1976. Bjarney og Sigurjón eignuðust fjögur börn: 1) Kristjana Sigurjónsdóttir, f. 1941, gift Magnúsi Sigursteinssyni, f. 1938. Þeirra börn eru: a) Sigurjón, f. 1959 b) Halldóra, f. 1961 c) Sigursteinn, f. 1963 d) Hanna Lára, f. 1968. Barnabörn og barnabarnabörn þeirra eru 23. 2) Bjarni Sigurjónsson, f. 1947. K.1. Auður Eyþórsdóttir, f. 1946, skilin 1983, börn þeirra eru: a) Eyþór, f. 1972 b) Eydís, f. 1976. K.2. Kvæntist 1986 Sigríði Magneu Jóhannsdóttur, f. 1950, börn hennar eru: a) Steinunn Línbjörg, f. 1970 b) Aðalheiður Kristín, f. 1973 c) Einar Sveinn, f. 1978, barnabörnin eru 13. 3) Jónas Sigurjónsson, f. 1949, kvæntur Hallfríði Einarsdóttur, f. 1951, þeirra börn eru: a) Helga Björg, f. 1968 b) Rósa, f. 1972 c) Vala Ólöf, f. 1977 d) Sigurjón, f. 1979 og barnabörnin eru 13. 4) Steinþór Ó. Sigurjónsson, f. 1952, d. 1989, var kvæntur Sigríði Olgeirsdóttur, þeirra börn eru: a) Unnur Lovísa, f. 1974 b) Olgeir, f. 1977 c) Steinþór Andri, f. 1988 og eitt barnabarn, Valdís Sigríður. Einnig ól Bjarney upp Jónínu Sigurðardóttur, f. 1950, hennar maður er Rafn Ingólfsson og eiga þau þrjár dætur.

Bjarney ólst upp á Siglufirði og bjó þar til tvítugs er hún flutti í Ólafsfjörð þar sem hún bjó alla tíð síðan. Lengst af bjó fjölskyldan í Brimnesvegi 2 ásamt foreldrum Sigurjóns en Bjarney annaðist þau í ellinni. Bjarney fékkst við ýmis störf auk þess að hugsa um heimilið, m.a. síldarsöltun og fiskvinnslu. Einnig var hún félagi í Slysavarnafélagi Ólafsfjarðar og tók virkan þátt í starfi aldraðra í Ólafsfirði.

Bjarney verður jarðsungin frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 7. janúar 2012 og hefst athöfnin kl. 14.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Í dag kveðjum við yndislega tengdamóður mína, Bjarneyju Bjarnadóttur.

Alveg frá því að ég tengdist fjölskyldunni tók hún mér opnum örmum og aldrei bar skugga á samskipti okkar öll þessi ár. Ég minnist þess hve alltaf var gestkvæmt í Brimnesveginum, enginn mátti koma við án þess að þiggja veitingar og alltaf var til ömmuterta. Ég man líka randalínur og vatnsdeigshring með rjóma og ávöxtum og fleira góðgæti.

Eyja var trúuð og kirkjurækin, hún talaði alltaf vel um fólk og aldrei heyrði ég hana segja ljótt orð. Hún var afskaplega gjafmild og greiðvikin og þeir voru ófáir dúkarnir og dúllurnar sem hún heklaði í gegnum árin. Einnig málaði hún á dúka og ýmislegt fleira þegar hún fór að starfa með eldri borgurum en flest allt sem hún bjó til gaf hún jafnóðum.

Þegar ég hugsa um Eyju á yngri árum fannst mér hún alltaf vera á hlaupum í búðina eða á þönum við að þjóna fólki eða gera einhverjum eitthvað gott. Hún var óþreytandi við að leggja fram liðsinni sitt þar sem henni fannst vera þörf á.

Eyja bjó í Brimnesvegi 2, í meira en fimmtíu ár og hljóp þar allar tröppurnar eins og unglamb en þegar heilsan tók að bila hjá Sigurjóni fluttu þau í Ólafsveg 10, þar sem hún bjó þar til hún fór á Hornbrekku en hann lést nokkrum árum fyrr.

Hún var vön að gefa hrafninum út á stein í Brimnesveginum og þegar hún flutti þá flutti hrafninn með henni, en hún var vön að segja að Guð launaði fyrir hrafninn. Hún skrifaði alltaf dagbók, mundi eftir öllum afmælum og fylgdist vel með öllum afkomendunum og ég held að helmingur allra barna á Ólafsfirði hafi kallað hana „Eyju ömmu“.

Fyrir nokkrum árum keyptum við hjónin ásamt börnunum okkar Brimnesveg 2, það gladdi hana mikið að húsið væri aftur komið í eigu fjölskyldunnar og við finnum að það er hlýja og kærleikur sem fylgir húsinu alveg eins og þegar hún og Sigurjón bjuggu þar.

Að leiðarlokum vil ég þakka tengdamóður minni fyrir öll árin sem við áttum saman og allar góðu minningarnar sem hún skilur eftir.

Hallfríður (Fríða).

Kærleikur og gjafmildi eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann þegar maður hugsar um ömmu Eyju.

Hún var alveg yndisleg manneskja, blíð og góð með hjarta úr gulli. Það sem gaf henni mest í lífinu var að gefa. Ef gestir komu á Brimnesveginn, þar sem hún og afi bjuggu lengst af, eða seinna á Ólafsveginn, var hún með ömmutertu og fleira gott til að bjóða gestum sem komu í heimsókn. Barnabörn og barnabarnabörn nutu gjafmildi hennar og hún vildi helst alltaf eiga nokkra rauða í veskinu til að stinga í litla lófa sem komu í heimsókn.

Hún sagði stundum sjálf „mér er svo laus höndin, ekki til að slá heldur gefa“. Ef einhver gagnrýndi hana fyrir að hafa lítið vit á fjármálum þá sagðist hún alveg vera með á hreinu hvað hún ætti og sagðist alveg vita hversu mikið hún hefði til að gefa.

Það voru ekki eingöngu hlutlægar gjafir, heldur, ást og umhyggja, fyrirbænir og hjálparhönd sem amma veitti af miklu örlæti. Ef einhver þarfnaðist hjálpar var hún alltaf tilbúin að leggja sitt af mörkum hvort sem um var að ræða menn eða málleysingja.

Hún gaf til dæmis hröfnum matarafganga út á stóran stein í fjöldamörg ár. Við krakkarnir töluðum alltaf um krummana hennar ömmu.

Afi Sigurjón heitinn var maður af gamla skólanum og þótti fátt annað matur en feitt ket. Amma var hins vegar mun nútímalegri og fannst æðislegt ef maður kom í heimsókn með pizzu, pasta eða grillaðan kjúkling.

Amma hélt dagbók alla sína tíð, hún skráði hverjir komu í heimsókn, hverjir áttu afmæli, veðrið og fleira. Hún hringdi iðulega þegar einhver afkomandi eða vinur átti afmæli og notaði dagbók fyrra árs svo engin afmælisbörn gleymdust.

Amma var mjög trúuð og bað fyrir fjölskyldu og vinum. Það var nauðsynlegt að hringja í hana og láta vita þegar heim var komið eftir heimsókn í Ólafsfjörð, hún hafði oft áhyggjur þegar fólk keyrði Múlann.

Hjarta mitt er fullt af þakklæti til elsku ömmu Eyju, þakklæti fyrir allt sem hún kenndi og gaf. Hvíl þú í friði, elsku amma mín, ég er viss um að þú fékkst góðar viðtökur á næsta tilverustigi, ég sá það í brosinu þínu er þú fórst.

Starfsfólki Hornbrekku þökkum við góða umönnun.

Helga Björg Jónasardóttir.

Elskulega móðursystir okkar Bjarney eða Eyja eins og hún var alltaf kölluð er látin.

Við viljum minnast hennar með þakklæti í huga fyrir hlýju og hugulsemi í okkar garð. Þær systur Eyja og móðir okkar Munda áttu gott og innilegt samband alla tíð, þær töluðu saman í síma, alltaf á sunnudögum og heimsóttu hvor aðra.

Eyja var alla tíð heilsuhraust og fylgdist vel með öllu sem var að ske. Minnug, fróðleiksfús og sagði vel frá, svo gaman var að hlusta á.

Hún var mikill Siglfirðingur og unni bænum sínum heitt, sérstaklega var henni umhugað um Siglufjarðarkirkju.

Þessar ljóðlínur lýsa henni vel.

Tímans elfur líður lygn

lífsins söngvar óma.

Finnst mér norðlensk fjalla tign

í fari þínu ljóma.

(Pétur Þorsteinsson)

Eyja var stórfrænkan í fjölskyldunni sem hélt utan um alla. Hún var okkur systkinunum og fjölskyldum ákafalega kær og okkur þótti undur vænt um hana. Hún fylgdist vel með hvað við vorum að gera í lífi og starfi, einnig börnum og barnabörnum og litu þau á hana sem sína aðra ömmu.

Á heimili þeirra hjóna Eyju og Sigurjóns ríkti glaðværð og hjartahlýja, þangað var notalegt að koma í heimsókn, allir voru velkomnir og þau höfðingjar heima að sækja.

Með þessu versi sem Eyju þótti svo vænt um kveðjum við elskulega frænku með virðingu og þökk fyrir allt sem hún var okkur.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Vertu Guði falin og hvíl í friði.

Elsku Kristjana, Bjarni, Jónas, börn Steinþórs og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Björg, Friðrik, Jóhannes

og fjölskyldur.