Víkverji fór á Fanný og Alexander í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi og var að velta fyrir sér hvað þetta verk er stórt í listaheimi Norðurlanda. Verkið skrifaði Svíinn Ingmar Bergman sem er einn merkasti sviðs- og kvikmyndaleikstjóri sögunnar.

Víkverji fór á Fanný og Alexander í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi og var að velta fyrir sér hvað þetta verk er stórt í listaheimi Norðurlanda. Verkið skrifaði Svíinn Ingmar Bergman sem er einn merkasti sviðs- og kvikmyndaleikstjóri sögunnar. Hann skrifaði það upphaflega sem sjónvarpsdrama sem var 312 mínútna langt og var sýnt í fjórum þáttum. En úr þáttunum var gerð 188 mínútna löng kvikmyndaútgáfa sem vann Óskarsverðlaunin í Hollywood sem besta erlenda bíómyndin.

Ingmar Bergman var risi í listasögu Norður-Evrópu. Hann réð öllu um framgang manna í leikhús- og kvikmyndaheiminum í Svíþjóð í áratugi og hafði í ofanálag mikil áhrif víðast hvar í nágrannalöndunum. Árlega setti hann upp nokkur sviðsverk og gerði eina til tvær bíómyndir. Hann er eini Svíinn sem hefur unnið Óskarsverðlaunin fyrir bestu erlendu bíómyndina og gerði það í ofanálag þrisvar.

Það er síðan skemmtileg tilviljun að Pernilla August sem var hér á landi síðasta haust þegar hún kynnti fyrstu bíómyndina sína, Svinalangorna, sem vann verðlaun Norðurlandaráðs sem besta bíómynd ársins, sló einmitt í gegn í aukahlutverki í sjónvarpsþáttunum Fanný og Alexander.

Eins og önnur verk Ingmars Bergmans er Fanný og Alexander úthugsað verk og um flókin sálræn átök að ræða. Verkið er samt tímalaust vegna djúprar þekkingar Ingmars á hegðun mannskepnunnar. Því að þrátt fyrir endalausar tækniframfarir, aukin lífsgæði, miklu meira öryggi og stöðugt göfugri hugsjónir er mannskepnan alltaf jafn dýrsleg.