Kraftur Eyþór Ingi og Siggi Flosa taka á því í Hörpunni í laginu Glóðum.
Kraftur Eyþór Ingi og Siggi Flosa taka á því í Hörpunni í laginu Glóðum.
Bjarni Ólafur Guðmundsson stendur fyrir stórtónleikum í Höllinni í Vestmannaeyjum á morgun, sunnudag, en það er sama uppfærsla og var á tónleikunum í Hörpu á afmælisdegi Oddgeirs, 16. nóv. síðastliðinn.

Bjarni Ólafur Guðmundsson stendur fyrir stórtónleikum í Höllinni í Vestmannaeyjum á morgun, sunnudag, en það er sama uppfærsla og var á tónleikunum í Hörpu á afmælisdegi Oddgeirs, 16. nóv. síðastliðinn. „Þetta er fyrst og fremst gert til að heiðra minningu Oddgeirs og minnast 100 ára fæðingarafmælis hans. Hörputónleikarnir tókust gríðarlega vel, það var stútfull Harpa og færri komust að en vildu. Margir hér í Eyjum komust ekki í Hörpuna svo ég ákvað að endurtaka tónleikana núna á þrettándahelginni sem er mikil hátíð hér í Eyjum. Algengt er að burtfluttir heimamenn séu í Eyjum þessa helgi og tónleikarnir ættu því að gleðja marga.“ Um þrjátíu manns taka þátt í tónleikunum, bæði söngvarar og hljóðfæraleikarar. „Við verðum með sextán manna hljómsveit og þarna verða stórkanónur í söngvaraliðinu eins og Egill Ólafsson, Raggi Bjarna, Eyþór Ingi, Margrét Eir, Andrea Gylfa og Guðrún Gunnars. Því miður kemst Helgi Björns ekki, en hann var með í Hörpunni. Tveir Eyjamenn ætla líka að syngja með okkur, þau Íris Guðmundsdóttir og Hafsteinn Þórólfsson en hann er barnabarnabarn Oddgeirs. Á tónleikunum verða flutt fjórtán lög sem fólk þekkir vel, eins og til dæmis Glóðir, sem sett er í æðislegan rokkbúning með Eyþóri Inga og fer hann hamförum með Sigurði Flosasyni á saxófóninum. Margrét Eir syngur Ég heyri vorið og Góða nótt, Egill tekur Heima af sinni alkunnu snilld, Guðrún Gunnars syngur Ég veit þú kemur, og svo mætti lengi telja. Við bætum svo nokkrum lögum við þessi fjórtán sem færri þekkja, m.a. laginu Síldarstúlkurnar sem er skemmtilegur vals. Báran er líka dæmi um lag sem fáir þekkja en Þorvaldur Bjarni leikur sér með nýja útsetningu á því, en hann og Kjartan Valdemarsson sjá um að útsetja lögin.“

Fyrirbærið þjóðhátíðarlag er barnið hans Oddgeirs

Bjarni Ólafur segir að talið sé að Oddgeir hafi samið um 50 lög og búið sé að gefa út um helming þeirra laga. „Hann samdi lög við ljóð annarra en oftast hafði hann þann háttinn á að hann samdi lag og svo fékk hann vini sína Ása í Bæ, Árna úr Eyjum og Loft Guðmundsson til að semja texta við lögin. Þannig urðu velflestir fallegustu söngvar þessara góðu vina til. Oddgeir var kosinn Eyjamaður aldarinnar síðustu í kosningu sem fór fram á vegum Eyjafrétta, og það sýnir hvað hann er mikils metinn hér. Hann er og hefur ævinlega verið ofarlega í hugum Eyjamanna. Fyrirbærið þjóðhátíðarlag er hans barn. Hann samdi þjóðhátíðarlögin óslitið allt til þess er hann féll frá og eftir fráfall hans voru gömul lög eftir hann gerð að þjóðhátíðarlögum.“