Tundurdufl Sprengjusérfræðingur kannaði innihald tundurduflsins.
Tundurdufl Sprengjusérfræðingur kannaði innihald tundurduflsins. — LHG/Sigurður Ásgrímsson
Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar (LHG) eyddi í gær tundurdufli úr síðari heimsstyrjöldinni við Selfljótsós á sunnanverðum Héraðssandi. LHG var tilkynnt um duflið í fyrradag.

Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar (LHG) eyddi í gær tundurdufli úr síðari heimsstyrjöldinni við Selfljótsós á sunnanverðum Héraðssandi. LHG var tilkynnt um duflið í fyrradag. Við skoðun kom í ljós að sprengiefni var í tundurduflinu og var því eytt á staðnum með dínamíti og plastsprengiefni.

Sprengjusérfræðingar segja að tundurdufl geti varðveist vel í sandi ef þau er alveg grafin niður. Þau koma upp á yfirborðið við breytingar í sandinum og geta horfið jafn skyndilega. „Mikilvægt er fyrir sprengjusérfræðinga að vera fljótir á vettvang eftir að tilkynning um dufl hefur borist til þeirra. Best er að hafa samband við 112 sem gefur samband áfram til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar.“ Í frétt LHG kemur fram að Bretar hafi sjósett um 100.000 tundurdufl úti fyrir Austfjörðum í síðari heimsstyrjöldinni. LHG hefur gert um 5.000 þeirra óvirk.