Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir fagnar 35 ára afmæli sínu í dag og hyggst fagna tímamótunum með því að snæða mexíkóskan mat í boði bróður síns og konu hans.

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir fagnar 35 ára afmæli sínu í dag og hyggst fagna tímamótunum með því að snæða mexíkóskan mat í boði bróður síns og konu hans. „Ég ætla svo sem ekki að gera neitt mikið meira, bara njóta þess að vera með fjölskyldunni,“ segir afmælisbarnið. Að sögn Bryndísar þótti henni afleitt á árum áður að eiga afmæli á þessum tíma árs; þegar miklar hátíðir eru nýafstaðnar. „Þetta er frekar slappur tími til að eiga afmæli, fólk er bæði útþanið og veisluþreytt.“ Því hefur hún íhugað að halda frekar upp á hálfs árs afmælisdaginn sinn að sumri til.

Einn afmælisdagur stendur upp úr í minningunni. „Þegar ég var 8 eða 9 ára var búið að lofa mér Sindy-dúkkuhúsi í afmælisgjöf og ég var auðvitað ægilega spennt. Það var aftur á móti uppselt í öllum leikfangaverslunum, en pabbi minn áttaði sig á mikilvægi þess að ég fengi þetta hús og keyrði með mig á milli leikfangabúðanna, en ekkert hús fékkst. Að lokum fann hann hús í heildverslun.“

Bryndís starfar sem framkvæmdastjóri Já Ísland, sem er sameiginlegur vettvangur Evrópusinna, óháð stjórnmálaskoðunum. Hún er gift Torfa Frans Ólafssyni og þau eiga unga syni. annalilja@mbl.is