Guðbjörg Hólmfríður Guðmundsdóttir fæddist í Holti á Nesjum í Austur-Húnavatnssýslu 15. apríl 1922. Hún lést á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki 31. desember síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Einarsson, f. 27.2. 1892, d. 24.4. 1973, bóndi á Saurum á Skaga, og Margrét Benediktsdóttir, f. 14.10. 1896, d. 1.1. 1973, húsfreyja. Guðmundur og Margrét áttu þrettán börn og komust ellefu þeirra upp. Guðbjörg giftist 2.11. 1945 Gunnsteini Sigurði Steinssyni, f. 10.1. 1915, d. 19.12. 2000, fyrrverandi bónda og hreppstjóra í Ketu á Skaga. Foreldrar hans voru Steinn Leó Sveinsson, bóndi á Hrauni á Skaga, f. 17.1. 1886, d. 27.11. 1957, og Guðrún Sigríður Kristmundsdóttir, f. 12.10. 1892, d. 24.10. 1978, húsfreyja. Guðbjörg og Gunnsteinn eignuðust tvær dætur. Þær eru: 1) Hrefna, f. 11.4. 1945, húsfreyja í Ketu á Skaga, eiginmaður hennar var Björn Halldórsson, f. 29.11. 1943, d. 5.9. 2000, og eiga þau þrjú börn: a) Gunnsteinn, eiginkona hans er Sigríður Káradóttir og eiga þau fjögur börn og eitt barnabarn; b) Guðrún Halldóra; c) Sigurður Ingimar, eiginkona hans er Anna Katarzyna Szafraniec og eiga þau tvær dætur. 2) Guðrún, f. 26.4. 1949, húsfreyja í Stóru-Gröf syðri í Skagafirði, eiginmaður hennar er Sigfús Helgason, f. 11.9. 1939, og eiga þau níu börn: a) Guðbjörg Steinunn, eiginmaður hennar er Ómar Bragason og eiga þau fimm börn; b) Jóhann Þór, sambýliskona hans er Erna Kristín Sigurjónsdóttir og eiga þau tvö börn; c) Þóra Björk, sambýlismaður hennar er Valgarður Einarsson og eiga þau tvo syni; d) Linda Margrét, eiginmaður hennar er Jón Tryggvi Jónsson og eiga þau þrjár dætur; e) Sigfús Ingi, eiginkona hans er Laufey Leifsdóttir og eiga þau þrjú börn; f) Gunnsteinn Rúnar, sambýliskona hans er Birna Sólveig Björnsdóttir og eiga þau tvö börn; g) Elsa Auður, sambýlismaður hennar er Stefán Eyfjörð Steingrímsson og eiga þau einn son; h) Helga Rós, sambýlismaður hennar er Sigurður Óli Ólafsson; i) Sigrún Alda. Guðbjörg ólst upp í Holti og síðar á Saurum á Skaga. Hún stundaði búskap með Gunnsteini manni sínum í Ketu á Skaga 1953-1974 en þaðan fluttu þau til Sauðárkróks og bjuggu lengst af á Skógargötu 9. Stundaði hún þar störf í hraðfrystihúsinu Skildi hf. og síðar í skinnaverkuninni Loðskinni hf. þar sem hún vann til 74 ára aldurs.

Útför Guðbjargar Hólmfríðar fer fram frá Ketukirkju í dag, 7. janúar 2012, og hefst athöfnin klukkan 14.

Ég er nú ekki mikil minningagreinakona en lofaði ömmu fyrir mörgum árum að pára eitthvað niður. Helst vildi hún nú fá það óþvegið að mér skildist.

Amma var það fyrsta sem ég sá er ég kom í þennan heim þar sem mér bráðlá á að vera á undan lambinu að fæðast og var því engin læknamafía viðstödd. Amma reddaði þessu eins og alvön ljósa, ég stríddi henni þó oft á því að ég væri með svona viðkvæma húð þar sem hún hefði skrúbbað mig svo duglega með heimagerðri sápu. Frá fyrsta degi var því amma stór hluti af lífi mínu þar sem þau gömlu bjuggu á sama heimili fyrstu æviár mín. Eftir að amma og afi fluttu á Krókinn var hálftómlegt í kotinu. Þau komu þó í sumarfríum og um jól og var það alltaf jafn mikil tilhlökkun, spennandi að fá ömmu til að leika við. Því amma var sko ekki venjuleg amma, nei, hún var sko leikfélagi og það sem ærslast var. Það urðu til margir uppáhaldsstaðir í Ketu við þessa leiki, svo sem Ketan og Fornistekkurinn. Þegar verið var í sundi var að sjálfsögðu alltaf verið hjá ömmu og afa, þar var þá fullt hús af barnabörnum og öðrum börnum.

Þegar ég fór svo að vera á Króknum bjó ég hjá ömmu og afa í fjöldamörg ár, við vorum alla vega alveg hættar að telja árin. Náðum við amma vel saman og var hún ágæt vinkona, þó amma mín væri. Skógargatan var mitt fyrsta og annað heimili lengst af. Þar var yfirleitt fullt hús af fólki og þannig vildi amma hafa það. Hún var alveg einstök að stjana við þetta fólk sitt og ef eitthvert barnabarn var á Króknum var alltaf pláss á Skógargötunni. Voru stundum tvö til þrjú í einu og þótti ekki tiltökumál. Oft var ákaflega kátt á hjalla, mikið spjallað og oft mikið grín í gangi.

Einu stundirnar sem amma mátti ekki vera að því að tala við mann var þegar Derrick mætti á skjáinn, en það var eini sjónvarpsþátturinn sem hún hafði nokkru sinni áhuga á.

Í um ár vorum við amma einnig vinnufélagar í Loðskinni. Þar vann amma sín síðustu ár á vinnumarkaði. Eitt sinn var ég spurð þar af starfsmanni hvort ekki væri gaman að eiga svona unga ömmu. Ég varð hissa, ömmur eru aldrei ungar. Eftir á að hyggja hafði maðurinn þó rétt fyrir sér, amma var ung í anda og ungleg, hún var nú samt um sjötugt er þetta var. Hún var aldrei í vandræðum að umgangast unga fólkið, hress og kát og gat klæmst svakalega við suma karlana.

Amma átti marga góða daga um ævina, en erfiða átti hún líka, þó þeir væru færri. Eftir fráfall pabba og afa var eins og amma gæfist upp. Hafði fengið í skjaldkirtilinn veturinn áður og var ekki búin að ná sér er þeir dóu. Einhvern veginn lagði hún árar í bát og þó höfuðið væri í lagi þá hvarf gleðin og viljinn til að halda áfram. Þannig lifði hún sín síðustu ár.

Nú þegar komið er að kveðjustund við ömmu, er maður fullur þakklætis fyrir þau forréttindi er maður naut að þekkja og umgangast ömmu og afa. Slík samskipti eru ómetanleg og brúa bil kynslóðanna með þekkingu og fróðleik og svo mörgu er þau gátu miðlað og kennt.

Halldóra Björnsdóttir.

Í dag kveð ég ömmu mína, Guðbjörgu Guðmundsdóttur.

Ég á margar og góðar minningar um ömmu. Þær voru tíðar heimsóknirnar á Skógargötuna þegar þau afi bjuggu þar. Alltaf var tekið á móti manni með kossi og hlýju og sest inn í eldhús eða stofu og spjallað. Þegar ég var lítil fannst mér ekkert skemmtilegra en að fá að sendast í búðina eða bakaríið fyrir ömmu, leikvöllurinn við hliðina á húsinu hafði líka mikið aðdráttarafl og þá var gott að vita af ömmu rétt hjá. Ég minnist jólaboðanna hjá þeim afa sem rúmuðust alveg ótrúlega vel í litla fallega húsinu þeirra, þrátt fyrir ört stækkandi fjölskyldu eftir því sem árin liðu.

Á unglingsárunum bjó ég nokkur sumur hjá ömmu og afa. Við amma vorum mestu mátar og gátum talað um allt milli himins og jarðar. Hún fylgdist vel með hvað var að gerast í lífinu hjá mér og kom gjarnan á móti mér í forstofuna, þegar ég var að koma úr vinnunni eða af frjálsíþróttaæfingu, eða hvað sem það nú var sem ég var að gera. Gjarnan spurði hún: „Var gaman?“ og þá sérstaklega ef hún vissi að það hefðu verið böll eða skemmtanir sem ég fór á. Þegar ég var svo flutt að heiman en kom norður í heimsóknir þá fór ég iðulega í heimsóknir á Skógargötuna og var alltaf jafn gaman að koma þangað og vel tekið á móti manni. Þegar við systkinin vorum orðin eldri var hefð, svo lengi sem þau afi bjuggu á Skógargötunni, að fara í heimsókn til þeirra á aðfangadagskvöld og þakka fyrir gjafirnar og spjalla.

Þegar afi dó, fór heilsu ömmu mikið að hraka og fljótlega fluttist hún upp á sjúkrahús og bjó þar til dauðadags. Ég sé afa fyrir mér taka á móti þér og segja: „Ertu komin, góða mín?“ og veit að nú líður þér vel.

Blessuð sé minning þín, elsku amma mín.

Þín

Linda Margrét.

Elsku amma.

Í dag kveðjum við þig í hinsta sinn en við eigum margar fallegar og góðar minningar sem munu lifa með okkur áfram. Þú varst stór partur af lífi okkar og við minnumst sérstaklega góðra tíma á Skógargötunni með þér og afa. Þar vorum við alltaf velkomnar og ekki var hægt að fara á Krókinn án þess að koma við hjá ykkur. Alltaf biðu okkur einhverjar kræsingar og dekraðirðu við okkur á allan mögulegan hátt. Þú varst dugleg að láta okkur fá smá aur svo við gætum hlaupið í bakaríið og keypt okkur snúð en það fannst okkur systrum allra best.

Þú fylgdist vel með því sem við vorum að gera í skólanum og náðir að fylgjast með þessum stóra systkinahópi á aðdáunarverðan hátt. Jólin eru sérstaklega minnisstæður tími með þér, þegar þú hélst jólaboðin og eins þeirri föstu hefð að fara á Skógargötuna á aðfangadagskvöld. Eftir að afi dó fór heilsu þinni að hraka en þú fylgdist alltaf með því sem við tókum okkur fyrir hendur og hafðir ánægju af hversu vel okkur gekk.

Elsku amma, við munum aldrei gleyma þér. Við vitum að afi hefur tekið glaður á móti þér eins og hann var vanur að gera með því að segja „Þarna ertu komin, góða mín“ og strokið þér um kinn. Minning þín mun ylja okkur áfram um ókomna tíð og munu börnin okkar fá að heyra margar sögur af ömmu og afa á Skógargötunni sem voru svo einstök á allan hátt.

Þínar,

Sigrún Alda og Helga Rós Sigfúsdætur.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast ömmu minnar, Guðbjargar Guðmundsdóttur. Margar og góðar minningar koma upp í hugann þegar ég hugsa til hennar. Amma og afi bjuggu í áratugi í Ketu á Skaga. Þaðan eru einar af mínu fyrstu bernskuminningum, þegar ég fór með foreldrum mínum og systkinum í heimsókn á Skagann til ömmu og afa.

Þau hættu búskap og fluttust til Sauðárkróks þegar ég var enn lítil stelpa. Eftir það urðu heimsóknir til þeirra mun tíðari, enda styttra að fara. Á Skógargötunni hjá ömmu og afa átti ég margar góðar stundir og var þar ætíð velkomin. Þar dvaldi ég af og til á unglingsárunum þegar ég var í vinnu eða í skóla á Króknum. Það var mikill gestagangur á Skógargötunni og alltaf átti amma eitthvað gott til með kaffinu handa gestum og gangandi. Ef hún vissi að ég var væntanleg átti hún oftar en ekki til uppáhaldið mitt, ástarpunga án rúsína handa mér.

Ég man vel öll jólaboðin á Skógargötunni, sem amma hafði gaman af að undirbúa og voru margrétta, passað var upp á að allir fengju eitthvað við sitt hæfi. Ég man kvöldin sem við sátum í stofunni, amma lá í sófanum og afi nuddaði á henni fæturna yfir fréttunum. Amma hafði gaman af sakamálaþáttum og hafði sérstakt dálæti á Derrick, við Dóra frænka skemmtum okkur við að horfa með ömmu sem oft réð sér ekki fyrir spenningi.

Stutt var í glettnina hjá ömmu og hún tók gjarnan þátt í skemmtilegu spjalli og gríni með okkur Dóru og vinkonum okkar. Amma hafði gaman af handavinnu, nokkra útsaumaða púða á ég eftir hana, vettlinga og sokka prjónaði hún og gaf okkur fjölskyldunni og postulínshluti á ég með myndum máluðum af ömmu.

Þegar maðurinn minn kom til sögunnar var honum tekið opnum örmum og amma fylgdist vel með fjölgun í fjölskyldunni, byrjaði að hekla teppi þegar hún vissi að von var á börnum og gaf þegar þau fæddust. Afi dó skömmu fyrir jólin árið 2000 og eftir það bjó amma ekki lengi á Skógargötunni, hún fluttist á Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki og bjó þar æ síðan. Áfram hélt hún að fylgjast með fjölskyldunni, til marks um það voru veggirnir í stofunni hennar þaktir myndum af afkomendum hennar, hún var stolt af sínu fólki.

Elsku amma mín. Með söknuði kveðjum við þig og þökkum allar okkar góðu samverustundir. Takk fyrir allt, „gamla“ mín.

Þín,

Guðbjörg Steinunn

og fjölskylda.

„Marga góða sögu amma sagði mér“ er ljóðlína sem kemur upp í hugann þegar mér verður hugsað til ömmu, enda er stór hluti af mínum uppvexti tengdur ömmu en hún og afi bjuggu í tvíbýli ásamt foreldrum mínum í Ketu fyrstu ár ævi minnar. Seinna eftir að amma og afi fluttu á Skógargötuna var ég svo heilu veturna hjá þeim meðan á skólagöngu stóð. Þessi langa samvera skilur eftir margar góðar minningar og hefur áreiðanlega átt mikinn þátt í því hver ég er í dag.

Amma ólst upp í stórum systkinahópi þar sem ekki var alltaf nóg að bíta og brenna og má þá nefna sögu sem hún sagði mér frá sínum uppvexti, en það var þannig að hundi hafði verið lógað og var skrokkurinn soðinn til að ná í fituna sem var nýtt sem áburður á húð, svo og á leður. Var amma svo send til að henda kjötinu og sagði hún að sig hefði sjaldan langað eins mikið í kjöt og kjötið af hundinum. Skortur í uppvexti litar svo alla ævina og þótti ömmu alltaf afleitt að henda mat. Eins var með peninga, vel skyldi á þeim haldið og bruðl var ekki til í hennar fari, þó var ekki skorið við nögl ef gesti bar að garði eða barnabörnin þyrftu eitthvað þá gilti það öðru, en í sjálfa sig mátti ekki bruðla.

Árin eftir flutninginn á Krókinn komu amma og afi alltaf og dvöldu í sumarfríinu í Ketu, það var okkur krökkunum alltaf tilhlökkunarefni en amma var óþreytandi við að spjalla og leika við okkur krakkana, var þá oft hlegið mikið. Seinna er við systkinin fórum í skóla á Króknum var lagður metnaður í að hugsa sem best um okkur á allan hátt og ekki síst að gefa okkur eitthvað gott að borða, enn get ég ekki hugsað mér betri mat en kjötbollurnar hennar ömmu, en enginn getur eldað þær á sama hátt og hún gerði.

Alltaf var tekið vel á móti gestum á Skógargötunni og þegar afi var umboðsmaður skattstjóra á Sauðárkróki heyrðist oft í ömmu að þetta væri nú meira renniríið hérna alltaf, eigi að síður bauð hún flestum sem komu í kaffi, og hjá henni var ekki kaffi nema það væri með því líka. Seinna, þegar við Sigga fórum að búa á króknum, var fastur liður í okkar tilveru að koma til ömmu og afa á jóladag, þar var alltaf hlaðið borð, sérstaklega mömmukökur fyrir Hafþór minn enda hafði sú gamla komist að því að honum fundust engar mömmukökur betri en þær sem hún gerði, jóladagsheimsóknirnar eru í minningunni eitt af því sem gerði jólin skemmtileg, það var svo þægilegt andrúmsloft og hlýja hjá gömlu hjónunum. Minningarnar um ömmu eru óteljandi og því einungis hægt að minnast á nokkur brot á þessum stað en í huga mér munu þær standa ljóslifandi um ókomin ár.

Nú er gengin kona sem lifði tímana tvenna, hlúði vel að sínu fólki en bar ekki mikið á, hin íslenska húsmóðir tuttugustu aldar. Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér, far vel.

Gunnsteinn Björnsson.