Límtré Næg verkefni eru hjá Límtrésverksmiðjunni á Flúðum.
Límtré Næg verkefni eru hjá Límtrésverksmiðjunni á Flúðum. — Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Sigurður Sigmundsson Uppsveitir Árnessýslu Þegar litið er til baka til síðasta árs kemur veðráttan fyrst upp í hugann.

ÚR BÆJARLÍFINU

Sigurður Sigmundsson

Uppsveitir Árnessýslu

Þegar litið er til baka til síðasta árs kemur veðráttan fyrst upp í hugann. Hér er bændasamfélag og afkoma margra er háð veðurfari, þó einnig séu nokkrir þéttbýliskjarnar í uppsveitunum fjórum með fjölbreyttu atvinnulífi. Kalt vor setti mark sitt á uppskeru. Þó var heyfengur bærilega góður og kúabændur í uppsveitum standa flestir traustum fótum en 72 innleggjendur eru hjá MS, og hefur ekki fækkað. Garðyrkjubændur náðu uppskeru sinni að mestu í hús vegna góðs tíðarfars í haust en uppskera var að jafnaði undir meðallagi. Kornuppskera var misjöfn, allt frá ekki neinu upp í það að vera ágæt hjá sumum bændum.

Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein hér. Að sögn Ásborgar Arnþórsdóttur ferðamálafulltrúa er útlitið gott og mikið um bókanir nú í vetur sem og næsta sumar.

Ferðamannaflæði hefur aukist vegna tilkomu Hvítárbrúar og Lyngdalsheiðarvegar.

Þingvallaleið er hvorki mokuð á þriðjudögum né laugardögum og hafa kafarar sem sækja í Silfru kvartað yfir því, en þangað sækja þeir daglega og oft margir. Vegagerðin er að kynna sér snjóalög o.fl. en akstur er enn of hraður í þjóðgarðinum að sögn þjóðgarðsvarðar.

Næg verkefni eru hjá Límtrésverksmiðjunni á Flúðum. Hún var reist 1982 og hefur starfað samfellt síðan. Húsið hefur verið stækkað þrisvar og er nú 6000 fm. Margar glæsilegar byggingar víðsvegar um landið hafa verið byggðar úr límtré. Verkefni eru næg fram á vor, jafnvel lengur. Nú vinna fáir menn í verksmiðjunni en voru um 25 þegar mest var en þá var unnið á vöktum. Eigendur verksmiðjunnar reka einnig Yleiningu í Reykholti í Bláskógabyggð en þar eru framleiddar úriþan- og steinullareiningar. Einnig á fyrirtækið Vírnet í Borgarnesi sem og hönnunar- og söludeild í Kópavogi.

Skálholtsstaður á stóran sess í hugum og hjörtum landsmanna.

Nú verða gerðar skipulagsbreytingar á rekstri staðarins, flestu starfsfólki hefur verið sagt upp en búist er við að það verði endurráðið. Rektorshjónin þau Harpa Hallgrímsdóttir og Kristinn Ólason eru þegar hætt störfum eftir farsælt starf. Bókuð námskeið verða haldin og ferðaskrifstofa fyrir erlenda ferðamenn áfram stafrækt. Skólahúsnæðið verður opið áfram en þess má geta að ein til fjórar rútur koma á staðinn á hverjum morgni. Nýr vígslubiskup, séra Kristján Valur Ingólfsson, er tekinn til starfa.

Mjög skiptar skoðanir eru hér í uppsveitum um byggingu Þorláksbúðar. Mörgum finnst staðsetning hennar fráleit rétt við hina glæsilegu dómkirkju.

Fjöldi íbúa er nokkuð svipaður og verið hefur en þeim fer þó heldur fækkandi. Athygli vekur að börnum í Flúðaskóla hefur fækkað verulega og einnig í leikskólanum. Í hinum sveitarfélögunum er tala skólabarna svipuð og verið hefur. Framkvæmdir verða allnokkrar á vegum sveitarfélaganna. Má nefna að í Grímsnesi verður byggður sameiginlegur barna- og leikskóli á þessu ári. Útboð á framkvæmdum verður bráðlega. Á Flúðum verður haldið áfram að lagfæra og mála eigur sveitarfélagsins. Þá verður lagt bundið slitlag á eina götu. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi verður lagður ljósleiðari á alla bæi og er undirbúningur hafinn. Í Bláskógabyggð verður lagt slitlag á nokkrar götur í Laugarási og eina í Reykholti. Byrjað verður á lagfæringum við hitaveituna.