Elías Mar „Skáldgáfa Elíasar er augljós í þessari bók“ og stirnir á gullkorn.
Elías Mar „Skáldgáfa Elíasar er augljós í þessari bók“ og stirnir á gullkorn. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sögur og ljóð eftir Elías Mar. Salka gefur út. Þorsteinn Antonsson tók saman. 303 bls. innb.

Sjaldan hittir ljóð mann beint í hjartastað eins og síðasta ljóðið í Elíasarbók . Höfundurinn lýsir þar ást sem er ljúfsár, einlæg og falleg en samt blandin lymskulegum ótta. Það er ást karlmanns til karlmanns.

„Ástin er sterkt vopn í hendi Blekkingarinnar,“ skrifar Elías Mar í Quinquannium (Fimmæru – dagbók í ljóðum) sem hefst á orðunum: „Blekking! Blekking! Hví hefur þú yfirgefið mig?“

Óttinn spillti ástarvímunni þegar elskendurnir kysstust fyrsta sinni: „Aðeins eitt skyggði á gleði mína: þú varst hræddur / Þú hræddist mig / Þú hræddist sjálfan þig / Þú hræddist okkur.“

Þegar þeir elskuðust í fyrsta sinni læddist nafnlaus ótti inn í hjarta höfundarins. Hann vissi ekki hvað það var sem hann óttaðist.

Í fyrstu flúðu elskendurnir samferðamenn sína til að geta verið saman á laun, en seinna tóku þeir að flýja hvor frá öðrum: „Enda þótt við höldum áfram að flýja/okkur sjálfa,/til þess að geta verið fjarlægir okkur sjálfum.“ Höfundinum þótti þeir ekki vera öfundsverðir af ástinni því „enginn öfundar þá sem flýja undan því besta í sjálfum sér“.

Ástin sem lýst er í ljóðinu kviknaði fyrir um sextíu árum þegar hommar og lesbíur þurftu að búa við meiri fordóma en nú. Óttinn endurspeglar innri baráttu elskendanna og hopar um stund: „Manstu, er... við létum í fyrsta sinn í ljós gagnkvæmar tilfinningar okkar svo aðrir sáu?... Það var í fyrsta sinn / að við vorum alls óhræddir / meðal annarra manna.“

Í Elíasarbók eru ljóð sem ekki hafa verið birt áður í bók, en sum þeirra höfðu verið birt í blöðum. Í bókinni eru einnig smásögur, sumar þeirra eru í smásagnasöfnum Elíasar eða höfðu verið birtar í blöðum. Aðrar hafa aldrei verið gefnar út áður. Þorsteinn Antonsson sá um útgáfuna. Hann segir að Elíasi hafi tekist best til „þegar hann lét tilfinningar sínar ráða hinum formlega frágangi“ og út frá því sjónarmiði hafi sögurnar verið valdar í bókina.

Elías mun hafa verið sextán ára þegar hann orti elsta ljóðið í bókinni og sumar ritsmíðanna bera þess merki að höfundurinn er ungur, efnilegur og leitandi. Sum ljóðanna eru stílæfingar, stælingar eða strákslegur útúrsnúningur; önnur grafalvarleg. Í bókinni stirnir á mörg gullkorn og ungur orti Elías oft eins og gamall maður, t.a.m. um dauðann og 50 ára gamlar ástir.

Skáldgáfa Elíasar er augljós í þessari bók. Einlægnin, djúphyglin og tilfinningarnar sem hún lýsir gera bókina skemmtilega aflestrar – og eftirminnilega.

Bogi Þór Arason