Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur kynnt nýja landvarnaáætlun þar sem gert er ráð fyrir fækkun hermanna á næstu árum.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur kynnt nýja landvarnaáætlun þar sem gert er ráð fyrir fækkun hermanna á næstu árum. Áætlunin er liður í áformum Bandaríkjastjórnar um að minnka ríkisútgjöldin til varnarmála um 487 milljarða dollara, jafnvirði 60.400 milljarða króna, á næstu tíu árum. Búist er við að repúblikanar gagnrýni áætlunina í baráttunni við Obama fyrir forsetakosningarnar í nóvember en forsetinn sagði að fækkunin myndi ekki veikja herinn. Hann yrði sveigjanlegri en áður og fullfær um að takast á við allar þær hættur sem steðjuðu að Bandaríkjunum.

Í áætluninni er lögð áhersla á að auka viðbúnað Bandaríkjahers í Asíu vegna vaxandi hernaðarmáttar Kína og stefnt er að því að viðhalda hernaðarmætti Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum. Hins vegar er gert ráð fyrir verulegri fækkun hermanna og það felur í sér að herinn mun hafa minna bolmagn til að hefja mannfrekan landhernað, líkt og í Írak og Afganistan.