<strong>Höfundurinn</strong> &bdquo;Bókin er öðrum þræði ádeila um afskipt börn og áminning til aðstandenda um að gæta vel að ungunum,&ldquo; segir rýnir um Ríólítregluna.
Höfundurinn „Bókin er öðrum þræði ádeila um afskipt börn og áminning til aðstandenda um að gæta vel að ungunum,“ segir rýnir um Ríólítregluna. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Mál og menning, 2011. 230 bls.

Í nýjustu bók sinni er Kristín Helga Gunnarsdóttir á kunnuglegum slóðum þar sem hún fléttar íslenskan þjóðsagnaarf inn í spennandi sögu fyrir börn og unglinga. Áður hefur hún sent frá sér bækurnar Strandanornir árið 2003, sem hverfist um ásókn ófélegrar skottu, og Draugaslóð árið 2007 þar sem unnið er með svipi útilegumanna á hálendi Íslands. Ríólítreglan sækir í þjóðtrúna á huldufólk og aðrar verur huliðsheima, og sem fyrr tekst henni býsna vel upp.

Bókin er öðrum þræði ádeila um afskipt börn og áminning til aðstandenda um að gæta vel að ungunum.

Eiga aðalsöguhetjurnar fimm, sem skipa umrædda reglu, það sameiginlegt að heimilisaðstæður eru með sérstöku móti. Þau Steinn, Nói, Diggi, Gloría og Móna stunda félagsmiðstöðina við skólann og eiga þar skjól. Þegar umsjónarmaður miðstöðvarinnar hverfur sporlaust afráða þau að rannsaka málið. Til sögunnar kemur dularfullur staðgengill umsjónarmannsins og brátt sækir sú spurning á hópinn hvort óbyggðaferðin sem þau eru á leiðinni í sé eintóm tilviljun.

Sem fyrr segir er Ríólítreglan spennandi og skemmtileg bók. Framvindan er þétt og heldur sér vel, og persónurnar trúverðugar og áhugaverðar. Kristín Helga vinnur bráðvel með þjóðsagnaarfinn, og henni tekst sérstaklega vel að sýna huldufólk sem viðsjárverðar verur; huldufólkið hennar er fallegt ásýndum og kemur vel fyrir en er háskalegt lið þegar á hólminn er komið, og auk þess sjálfhverft bæði og hégómagjarnt.

Öruggt má telja að börn og unglingar hafi gaman af þessari bók og Kristín Helga kann þá list að magna upp spennandi framvindu. Bækur hennar hafa hingað til verið tilhlökkunarefni og hún bregst ekki væntingum lesenda sinna hér.

Jón Agnar Jónsson